GILLZ VANN „FUCK YOU RAPIST BASTARD MÁLIГ FYRIR MANNRÉTTINDADÓMSTÓL EVRÓPU

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur nú kveðið upp dóm í fyrra máli Egils Einarssonar gegn Íslandi (Fuck You Rapist Bastard málinu) og komist að þeirri niðurstöðu að Íslenska ríkið hafi brotið gegn rétti hans til æruverndar með sýknudómi sínum fyrir Hæstarétti Íslands.

Forsaga málsins er flestum kunn: Egill var sakaður um nauðgun í félagi við sambýliskonu sína og miklar umræður urðu um málið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Saksóknari taldi ekki tilefni til að gefa út ákæru í málinu en það lægði ekki öldurnar og Egill lá áfram undir ámæli.

Egill stefndi nokkrum einstaklingum fyrir meiðyrði en tapaði tveimur þeirra mála fyrir Hæstarétti.

Í öðru tilvikinu hafði stefndi birt mynd af Agli á Instagramsvæði sínu ásamt ummælunum „Fuck You Rapist Bastard“ auk þess sem átt hafði verið við myndina þannig að öfugur kross hafði verið settur á enni hans og orðið „Aumingi“ ritað þvert yfir hana. Hæstiréttur sýknaði stefnda á þeirri forsendu að um gildisdóm hefði verið að ræða en ekki ásökun um glæp og að framganga Egils á opinberum vettvangi hefði verið með þeim hætti að hann hefði mátt búast við hörðum viðbrögðum. Hæstiréttur dæmdi ummælin ekki einu sinni dauð og ómerk enda forsendurnar þær að um gildisdóm væri að ræða.

Í hinu málinu hafði stúlka haldið því fram á Facebook, eftir að niðurstaða saksóknara hafði verið gefin út, að Egill hefði nauðgað stúlkunni sem kærði hann. Hæstiréttur féllst ekki á það í þetta sinn að það væri gildisdómur að kalla mann nauðgara en sýknaði hana á þeirri forsendu að hún hefði verið í góðri trú um sannleiksgildi orða sinna. Orð hennar voru að vísu dæmd dauð og ómerk en Agli voru hvorki dæmdar bætur né fékk hann greiddan málskostnað.

Egill bar þessi mál undir Mannréttindadómstól Evrópu.

Dómstóllinn taldi seinna málið einnig tækt til umfjöllunar og er með það til athugunar en ekki er vitað hvenær dómur verður kveðinn upp í því máli.

Síðar í dag verður birt úttekt á rökum Mannréttindadómstólsins fyrir niðurstöðunni bæði hér og á Kvennablaðinu en ég tel, miðað við dómaframkvæmd MDE hingað til, að þessi niðurstaða hafi verið algerlega fyrirsjáanleg.