Viðtal við flóttakonur sem á að vísa úr landi
Mæðgurnar Torpikey Farrash og Maryam Rasí eru flóttakonur frá Afghanistan. Þær hafa dvalið á Íslandi í 11 mánuði. Þær eru fyrstu konurnar frá Afghanistan sem sækja um hæli á Íslandi en standa nú frammi fyrir brottvísun.
Hversu lengi hafið þið verið á flótta?
Torpikey: Við höfum verið á flótta, ýmist í eigin landi eða utan þess frá því að Maryam var ungbarn. Hún er 19 ára og hefur aldrei kynnst öðru.
Hvers vegna flúðuð þið?
Það hefur lengi ríkt mjög erfitt ástand í Afghanistan og átök verið bæði tíð og mannskæð, bæði milli trúarhópa og ættbálka. Fjölskylda mín er Shia múslímar og Shia fólk hefur sætt miklum ofsóknum af hálfu talíbana. Ég er auk þess Hazari í móðurætt og Hazarar eru og hafa alltaf verið, ofsóttur minnihlutahópur. Það er almennt litið niður á Hazara en þykir þó skárra að vera Hazari í móðurætt en föðurætt. Reyndin er hinsvegar sú að Sunni múslimar setja í raun alla Shia undir sama hatt, í þeirra augum erum við öll Hazarar.
Við neyddumst til að flýja Kabúl þegar talibanasttjórnin tók yfir, 1996 eða 1997 (við fylgjum tunglárinu og ég er ekki alveg viss um tímann). Þá höfðu mikil átök átt sér stað, föðuramma Maryam var drepin og afi hennar hvarf. Við höfum aldrei frétt neitt af honum en líklegast hefur hann verið drepinn líka. Við flúðum til Musakala sem er heimahérað tengdaföður míns en ástandið í landinu versnaði og það endaði með því að við flúðum til Iran.
Manninum mínum var svo vísað úr landi og við komuim aftur til Afghanistan 2012. Þar vorum við í 3 ár á stöðugum hrakningum milli héraða. Fjölskyldur okkar höfðu tvístrast og flestir vinir og ættingjar voru flúnir úr landi. Í Afghanistan er ekki samskonar velferðarkerfi og í Evrópu, heldur er það fjölskyldan sem stendur saman og sér um þá sem minna mega sín. Sá sem á ekki fjölskyldu hefur mjög takmörkuð tækifæri og er útsettur fyrir hverskyns ofbeldi, sérstaklega konur. Svo gerðist það 2012 að maðurinn minn og sonur fóru til Kabúl til að taka þátt í hátíðahöldum Shia múslíma og við heyrðum aldrei frá þeim meir. Talíbanar réðust á Kabúl á meðan á þessum hátíðahöldum stóð og líklegast hafa þeir látist.
Mín staða var þar með orðin sú að ég var ekki bara ekkja, heldur ekkja án fjölskyldu og naut þannig engrar verndar. Sunníar réðu yfir héraðinu og einn stríðsherranna var hrifinn af Maryam og vildi taka hana sér sem konu. Maryam var á 16. ári og valið stóð um að láta hana í klærnar á honum eða flýja.
Taldi þessi maður sig eiga eitthvert sérstakt tilkall til Maryam? Voruð þið á hans framfæri eða eitthvað síkt?
Nei, ég erfði hús og gat því framfleytt okkur. Hann var bara hrifinn af henni. Þetta er ekkert einsdæmi. Barnagiftingum fjölgaði mikið í Afghanistan eftir að talíbanar komust til valda.
Hvað hefði gerst ef þú hefðir bara sagt nei?
Ég hefði ekkert fengið neinu um það ráðið. Í Afghanistan ríkir feðraveldi. Eldri karlar ráða öllu sem þeir vilja og þeir komast upp með að drepa fjölskyldumeðlimi sem brjóta gegn boðum þeirra. Hefðirnar eru sterkari en lögin og það er beinlínis litið á konur sem eign karlanna. Konur sem setja sig gegn körlum, og sérstaklega konur í okkar stöðu, ekkjur og ungar stúlkur, geta stofnað sér í stórkostlega hættu með því að reyna það. Mál Farkhundu var nokkuð vel kynnt á Íslandi, hún var bókstaflega barin til dauða fyrir það eitt að standa uppi í hárinu á karlmanni og hún er ekkert sú eina. Konur verða mjög oft fyrir ofbeldi og þær sem njóta ekki verndar fjölskyldu geta reiknað með því að þeim verði nauðgað, ekki einu sinni heldur oft. Það er bara ekkert talað um það.
Hvernig komust þið frá Afghanistan?
Ég átti frænda í nágrenninu sem hjálpaði okkur að komast frá svæðinu þar sem við bjuggum. Við vorum logandi hræddar, svo hræddar að við létum Maryam í skottið á bílnum. Ég varð svo að selja húsið mitt til að borga smyglurum til að koma okkur frá Afghanistan. Fyrst til Íran og þaðan til Tyrklands.
Þetta var bæði erfitt og hættulegt ferðalag. Við urðum að ferðast langa leið fótgangandi því það er of hættulegt að fara yfir landamæri þar sem landamæragæsla er. Íranar þurfa ekki vegabréfsáritun til að komast til Tyrklands en Afghanir eiga á hættu að verða skotnir á staðnum. Við vorum læstar inni á gististöðum sem voru ekki manneskjum bjóðandi, stundum vorum við hálf sveltandi og allsstaðar vofir kynferðisofbeldi yfir konunum. Smyglararnir eru ógnandi og ef manni líst sérstaklega illa á þann sem á að koma manni á næsta stað þá er ekkert hægt að velja sér bara einhvern annan. Flóttafólk er algerlega á valdi smyglaranna sem sjá hver um sitt svæði og skiptast á flóttamönnum eins og hverjum öðrum varningi.
Að lokum komumst við til Grikklands og þaðan til Ítalíu með lélegum bát. Þaðan fórum við með lokuðum flutningabíl til Svíþjóðar. Hann var yfirfullur, okkur var sagt að standa en við gætum sest niður þegar allir væru komnir inn. Það voru 40-50 manns sem tróðust þarna inn og auðvitað ekkert pláss til að sitja nema örfáir í einu. Það var svo súrefnislaust að það leið yfir suma. Fólk leggur ekkert á sig svona ferðalög nema af góðri ástæðu.
Hvernig vegnaði ykkur svo í Svíþjóð?
Maryam: Við komum til Svíþjóðar 4. október 2012 og vorum þar í 3 ár en þá var okkur vísað úr landi. Ég var í skóla í 6 mánuði en varð þá að hætta því mamma var veik. Hún var greind með Alzheimer sjúkdóm og auk þess svo slæm á taugum að hún var í raun ófær um að vera ein en átti ekki rétt á þeirri aðstoð sem hún þurfti.
Þegar við fengum tilkynningu um brottvísun var mamma nýútskrifuð af spítala og ekki ferðafær en hún átti að láta lögregluna vita af sér þegar hún væri orðin fær um að fara. Þá ætluðu þeir að flyta okkur í flóttamannabúðir sem eru í raun bara geymsla fyrir fólk sem á að senda í landi. Við gerðum það ekki en vorum í felum síðustu 3 mánuðina.
Gátuð þið ekki kært ákvörðunina?
Maryam: Nei, við vorum búnar að því. Við höfðum líka reynt að sækja um að öðrum forsendum þ.e.a.s. vegna heilsufars mömmu en Svíar neituðu að taka málið til efnismeðferðar aftur.
Á hvaða forsendu var ykkur synjað?
Við gátum ekki sannað sögu okkar og það hefur áreiðanlega haft áhrif að starfsmaður hjá Útendingastofnunar Svíþjóðar hélt að værum frá Íran af því að það vottar fyrir írönskum hreim í tali mínu. Ég ólst að hluta til upp í Íran og það eru mjög margir Afghanir sem hafa flúið þangað um lengri eða skemmri tíma svo það voru margir í mínu nærumhverfi sem töluðu með hreim svo það er ekkert dularfullt við það.
Var ekki hægt að fá staðfestingu á því frá yfirvöldum í Afghanistan að þið væruð þaðan?
Torpikey: Nei, það er ekki hægt. Í Afghanistan er ekki nein þjóðskrá og alls ekkert sjálfgefið að fólk eigi skilríki. Það eru mun færri konur en karlar sem eiga skilríki og þær þurfa að fá skilríki í gegnum feður sína eða aðra karla í fjölskyldunni. Ég átti reyndar pappíra sem ég hefði getað lagt fram en var ekki með þá hjá mér, því við vorum búin að vera á stöðugum flótta og eigur okkar voru hist og her. Ástandið var svo bara þannig að mitt fólk hafði tvístrast og flestir voru og eru á fótta og það tók svo langan tíma að finna út hvar þessi gögn voru niðurkomin og koma þeim til mín að ég fékk þau ekki fyrr en eftir að við fengum synjun í Svíþjóð.
Hvernig hefur líf ykkar verið þessa 11 mánuði sem þið hafið dvalið á Íslandi?
Maryam: Það er áreiðanlega gott að vera á Íslandi ef maður nýtur fullra réttinda en flóttafólk býr við algera óvissu um framtíðina og við höfum svo takmörkuð réttindi að maður er í rauninni bara í biðstöðu. Ég hef ekki getað farið í skóla, streitan og óvissan hefur mjög slæm áhrif á heilsufar mömmu og það er ekki hægt að fá vinnu nema hafa atvinnuleyfi.
Torpikey: Því er heldur enginn skilningur sýndur að við komum úr öðru menningarumhverfi. Okkur var komið fyrir í húsi með tveimur karlmönnum og í okkar menningu er það bara alls ekki sæmandi. Fyrir mig er það niðurlæging að deila baðherbergi með ókunnugum karlmönnum, það særir blygðunarkennd mína, en þetta er eitthvað sem ég átti bara að aðlagast í hvelli. Maður er búinn að lenda í hverju áfallinu á fætur öðru og svo er okkur gert erfiðara að vinna úr þeim með þvi að setja okkur í aðstæður sem valda enn meira álagi.
Ég hélt þegar ég fór frá Afghanistan að mannréttindi væru hátt skrifuð í Evrópu og að kvenréttindi nytu svo mikillar virðingar í löndum eins og Svíþjóð og Íslandi en ég hef ekkert orðið vör við alla þessa mannúð og mannréttindi. Ekki kvenréttindi heldur, það vita allir að konur í Afghanistan búa við ofbeldi og kúgun en við njótum samt engar sérstakrar verndar sem konur.
Hefur málið ekki verið tekið til efnismeðferðar á Íslandi?
Maryam: Nei, okkur var synjað um hæli eftir 3 mánuði á Íslandi við kærðum þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála. Okkur hefur ekki verið kynnt niðurstaða nefndarinnar formlega en lögfræðingurinn okkar hefur fengið þær upplýsingar að málið hafi verið sent til lögreglu og reynslan sýnir að það þýðir að það er nánast öruggt að þau ætla að senda okkur til Svíþjóðar.
En fyrst þið getið sannað uppruna ykkar núna, eru þá ekki allar líkur á að þið fáið hæli í Svíþjóð?
Maryam: Ég væri bjartsýn ef ætti eftir að taka málið fyrir en það er búið að kveða upp úrskurð um brottvísun og réttaráhrifum er mjög sjaldan frestað. Nú erum við ekki búnar að fá úrskurð frá kærunefnd Útlendingamála í hendur svo ég veit ekki á hvaða forsendu Íslendingar telja sig geta hafnað því að taka málið fyrir. Lögfræðingurinn sagði að það væri ekki hægt að vísa okkur til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar því það væri bannað að vísa okkur brott þegar hætta væri á að við yrðum sendar á óöruggt svæði. Við erum líka búnar að vera hér svo lengi að Íslendingar ættu að taka málið til efnismeðferðar. Þau ætla kannski að hengja sig í það að við komum með fölsuð skilríki og leyndum því að við hefðum sótt um hæli í Svíþjóð en það hljóta allir sem reyna að setja sig í okkar spor að sjá að það var það eina sem við gátum gert.
Ef þið verðið sendar aftur til Afghanistan, hvers konar líf bíður ykkar þar?
Torpikey: Í raun ekkert líf, ekki heldur þótt við yrðum á „öruggu svæði“. Ekkja er sjáfkrafa sett undir vald ættingja mannsins síns og minn maður á ekki neina ættingja í Kabúl. Sá eini sem ég gæti hugsanlega leitað til í Afghanistan er stjúpbróðir mannsins míns og ef hann kæmist að því að við höfum búið með karlmönnum á Íslandi þá myndi hann hafna okkur og það gæti ógnað lífi okkar. Það skiptir ekki máli þótt það hafi verið gegn vilja okkar. Við höfum líka gengið um á almannafæri án þess að bera höfuðklút og bara þessvegna myndi enginn taka við okkur.
Maryam: Það er eiginlega þrennt sem kemur til greina; félagsleg útskúfun, nauðungarhjónaband eða dauði. Í Afghanistan komast konur ekki af án fjölskyldu. Við fengjum t.d. ekki leigt húsnæði og það er enga vinnu að hafa, síst fyrir konur í okkar stöðu, móðir mín er orðin sextug og hún er sjúklingur og ég er ómenntuð. Ef einhver vildi taka mig sér sem konu þá væri það eina leiðin til að komast af og ef ég giftist ekki þá myndu aðrir karlar telja sér frjálst að svívirða mig. Það er ekkert gert í því og allra síst ef konan á ekki fjölskyldu, það er ekki einu sinni tekið á barnanauðgurum.
Ef þið fengjuð hæli á Íslandi hverskonar líf sjáið þið fyrir ykkur hér?
Maryam: Mér myndi líða eins og fugli sem er sleppt úr búri. Mömmu myndi líða betur og hún fengi þá þjónustu sem hún þarf og ég gæti farið í skóla. En ef ég á að segja alveg eins og er þá á ég ekki neina sérstaka drauma eins og flest fólk á mínum aldri. Ég hef aldrei búið við nógu mikið öryggi til þess að gera neinar raunhæfar áætlanir.
Torpikey: Ég held enn í vonina um að Íslendingar taki málið fyrir. Eins og staðan er í dag þá er enginn hluti Afghanistan öruggur. Isis ræður yfir austurhlutanum og talíbanar hafa norður og suðurhlutann á valdi sínu. Síðan okkur var vísað frá Svíþjóð hafa að minnsta kosti 7 Hazarar verið hálshöggnir, líka konur og börn, og að minnsta kosti 20 manns hefur verið rænt. Á ég að treysta því að af því að af því að ég verði látin í friði af því að ég er bara Hazari í aðra ættina? Ég sé ekki fyrir mér að konur í okkar stöðu geti verið öruggar í Afghanistan nema þá með því að ganga í þjónustu þeirra, sem er auðvitað ekki inni í myndinni. Það eina sem við getum gert núna er að vona að Íslendingar horfist í augu við að það að vísa okkur úr landi gengur dauðadómi næst.