Við ættleiðingu fellur niður framfærsluskylda foreldra og erfðaréttur barna. Skyldleiki er eftir sem áður fyrir hendi og getur haft áhrif að lögum.

Ríkið hafnar kröfu Arnars Þórs Vatnsdal um bætur á grundvelli laga um miskabætur handa sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Þar með hefst enn eitt dómsmálið með tilheyrandi vinnu og kostnaði bæði fyrir bótakrefjanda og ríkið. Það er grátlegt og leitt en því miður fyrirsjáanleg afleiðing af hinum stórgölluðu lögum nr. 128/2019, sem sett voru í þeim tilgangi að sannfæra almenning um vilja Katrínar Jakobsdóttur til að bæta fyrir brot ríkisins gegn þeim sem ranglega voru sakfelldir í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.

Forsendan fyrir synjun ríkisins er sú að Arnar Þór hafi verið ættleiddur og eigi því ekki erfðarétt eftir föður sinn. Ríkislögmaður virðist alveg vera búinn að gleyma því að samkvæmt fyrrnefndum lögum eiga börn Tryggva Rúnar Leifssonar og Sævars Ciesielski sjálfstæðan bótarétt sem brotaþolar, ólíkt börnum annarra sakborninga sem fengu sakleysi sitt viðurkennt með hæstaréttardómi nr. 521/2017. Hljómar það fáránlega? Já, en það er engu að síður sá fáránleiki sem Alþingi samþykkti og situr uppi með.

Það er fullkomlega óeðlilegt að Alþingi setji lög sem beinlínis mismuna fólki í sömu stöðu. Ef það er afstaða forsætisráðherra að að ættleidd börn dómfelldu ættu ekki að njóta bótaréttar hefði verið eðlilegast að opna dánarbú Tryggva Rúnars og Sævars og greiða bætur til þeirra. Börn þeirra hefðu þá erft feður sína eins og börn annarra dómfelldu. Þar með hefðu þau börn sem ættleidd voru ekki átt bótarétt. Þar sem sú leið var ekki farin hefði næst besti kostur í stöðunni verið sá að skilgreina börn og maka allra sakborninga sem brotaþola og veita þeim sjálfstæðan bótarétt. Það er enn mögulegt að fara þá leið.Tvö börn dómfelldu í Geirfinnsmáli ættleidd en aðeins annað gæti mögulega átt bótarétt

Þau rök að Arnar Þór sé ættleiddur halda ekki vatni. Lögin kveða á um bætur handa eftirlifandi börnum og mökum, ekki handa erfingjum.

Enda þótt erfðaréttur falli niður við ættleiðingu hefur það ekki áhrif á skyldleika. Þetta er augljóst þegar maður skoðar túlkun hjúskaparlaga. Ákvæði hjúskaparlaga um að ekki megi gefa saman foreldra og börn eða systkini, tekur ekki aðeins til skráningar í þjóðskrá heldur raunverulegs skyldleika. Arnar Þór mætti þannig ekki kvænast systur sinni, dóttur Tryggva Rúnars, enda þótt hann sé ekki lengur skráður sonur hans.

Það væri undarlegt í meira lagi ef reglan um skyldleika gilti aðeins þegar það hentar ríkisvaldinu. Hvað svo sem menn hafa rætt og hugsað þegar lögin voru sett er orðalag þeirra skýrt:

Bætur skulu greiðast til þeirra sýknuðu sem eru á lífi og á sama grundvelli til eftirlifandi maka og barna þeirra sem látnir eru.

„Á sama grundvelli“ verður ekki skilið á annan veg en þann að eftirlifendum sé tryggður réttur sem brotaþolum – ekki erfingjum. Orðalagið tekur heldur ekki til erfingja heldur raunverulegra fjölskyldutengsla. Það er ekki vandamál bótakrefjanda í málinu þótt Alþingi samþykki illa ígrunduð lög, það er vandamál ríkisins og nær væri að horfast í augu við það en að láta málið fara fyrir dóm.