Í auglýsingu kemur fram að leigusali krefjist sakavottorðs, meðmæla frá fyrri leigusala og staðfestingar á því að væntanlegur leigjandi sé í vinnu eða skóla. Er þetta löglegt?

☆☆☆

Það er í sjálfu sér ekkert sem bannar leigusala að setja skilyrði um sakavottorð, meðmæli og staðfestingu á greiðslugetu. Þótt sé viðunanlegt að fara fram á staðfestingu á greiðslugetu vekur athygli að auglýsingin er orðuð þannig að það er mögulegt að túlka hana sem merki um að leigusalinn vilji ekki leigja bótaþegum eða öðrum sem hafa framfærslu sína ekki af launuðu starfi eða námslánum.

Hagsmunir leigusala felast í því að leigjandi sýni fram á greiðslugetu en ekki félagslega stöðu. Ef sú er reyndin að ætlunin sé að útiloka þá sem eru á framfæri hins opinbera þá er leigusali að mismuna fólki á ómálefnalegum grundvelli það stríðir gegn meginreglunni um bann við mismunun sem er útfærð í 65. gr. stjórnarskrárinnar, þótt sé ekki sérstakt ákvæði í þá veru í húsaleigulögum. Það getur samt verið mjög erfitt og jafnvel útilokað að gera neitt í því ef leigusali lætur val sitt á leigjendum ráðast af fordómum, þar sem fólki er almennt frjálst að velja sér viðsemjendur.

Á hinn bóginn ber ríkinu að tryggja það með lögum að kerfisbundin mismunun á ómálefnalegum grundvelli verði ekki látin viðgangast. Það má benda leigusala sem ætlar að útiloka tiltekna hópa, t.d. bótaþega, útlendinga, fólk sem játar tiltekin trúarbrogð o.s.frv. á að það brjóti í bága við mannréttindasjónarmið og markmið laga um afnám mismununar. Hvort er hægt að gera eitthvað við því ef leigusali lætur sér ekki segjast er aftur hæpið, þar sem Alþingi hefur ekki kveðið skýrt á um það í lögum að bann við mismunun nái til einkaaðila.