Gilda einhverjar reglur um hávaða í dreifbýli? Við búum hér á sveitabæ og starfandi bónda finnst eðlilegt að slá í kringum húsið okkar eftir 10 á kvöldin og frameftir.

☆☆☆

Bóndinn þyrfti að slá ansi oft til þess að borgaði sig að fara fyrir dóm en nei, hann má ekki leggja það í vana sinn að vera með háværa vinnuvél í gangi seint á kvöldin.

Í reglugerð um hávaða er kveðið á um aðgæsluskyldu fyrirtækja og þar sem um „starfandi bónda“ er að ræða er hann væntanlega í rekstri. Einnig ber íbúum í íbúðarhverfum skylda til að forðast að gera nágrönnum ónæði. 7. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:

Forráðamönnum fyrirtækja og stofnana er skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða og óþægindi af völdum hávaða. Eigendur vélknúinna ökutækja skulu sjá svo um að farartæki þeirra valdi ekki óþarfa hávaða.

Gæta skal sérstaklega að hávaðavörnum í og við grunn- og leikskóla sem og þjónustustofnanir þar sem sjúklingar eða vistmenn dvelja yfir lengri tíma. Í íbúðarhverfum skulu íbúar og aðrir koma í veg fyrir ónæði gagnvart nágrönnum vegna hávaða t.d. frá tækjabúnaði og hljóðfæraleik.


Samkvæmt ólögfestum reglum grenndarréttar þurfa allir að taka tillit til nágranna sinna, og það gildir í dreifbýli jafnt sem þéttbýli. Það hversu mikil truflunin má vera fer t.d. eftir því hvað er venjulegt í samskonar umhverfi og hvort er einfalt að hagræða vinnunni með tilliti til nágranna.

Ef þetta færi fyrir dóm þá myndi dómurinn leggja mat á það hvort vegi þyngra, hagsmunir bóndans af því að fá að slá seint á kvöldin eða hagsmunir þínir af því að vera laus við hávaða. Þú þarft að sætta þig við óþægindi innan vissra marka, t.d. ef sérstakar aðstæður gera það að verkum að það er ekki hægt að slá á öðrum tímum og eins ef þetta gerist bara stöku sinnum. Ef þetta er viðvarandi ástand, t.d. verið að slá tvisvar í viku, hávaðinn mikill og stendur fram á nótt er líklegt að þínir hagsmunir teljist þyngri á metunum og sérstaklega ef það er eingöngu geðþóttaákvörðun að slá á þessum tíma og/eða með vilja gert til að valda truflun.

Mynd: Andreas Pixabay