Má birta mynd og nafn á opinberum vettvangi, t.d. á Facebook-hóp, til að vara við fólki sem hefur svikið aðra í viðskiptum eða eitthvað þvíumlíkt?

☆☆☆

Það getur verið vafasamt því ef þú ert ekki með sannanir fyrir því sem þú segir getur það verið ærumeiðandi aðdróttun. Skilyrði fyrir því að þú megir bera afbrot og siðleysi á aðra eru þau að það sem þú segir sé satt og að það sé nægileg ástæða til þess.

Skoðaðu eftirfarandi ákvæði almennra hegningarlaga:

234. gr. Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

235. gr. Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári.


Ef þú átt við kerfisbunda vinnslu, t.d. að safna saman á einni vefsíðu upplýsingum um varhugavert fólk, þá er hætta á að þú fáir Persónuvernd í hausinn. Þetta er sérstaklega varasamt ef þú hefur hug á að birta upplýsingar um þjóðerni, trúarbrögð eða annað sem flokkast sem viðkvæmar persónuupplýsngar. Þú getur áttað þig betur á þessu með því að skoða II kafla Persónuverndarlaga, sérstaklega 11. gr.

Ef þú ert með sannanir fyrir óheiðarlegum viðskiptaháttum, t.d. mynd af illa unnu verki eða reikninga með kostnaðarliðum sem aldrei var samið um, þá er í sjálfu sér ekkert sem bannar þér að birta þær sannanir. Ég hika t.d. ekki við að birta myndir af skemmdu grænmeti í verslununum, einmitt til að vara fólk við. En oft er hægt að semja um afslátt vegna galla á verki eða vöru og ef um er að ræða fólk sem almennt stundar óheiðarlega viðskiptahætti þá getur verið vert að skoða hvort til eru siðanefndir eða hagsmunasamtök sem geta tekið á málinu.