Eins og fram kom í Kvennablaðinu í gær ákvað yfirkjörstjórn í Reykjavík að gera Þjóðskrá aðvart um að einn frambjóðenda til sveitarstjórnakosninga væri ranglega skráður með lögheimili í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá barst Þjóðskrá þetta erindi föstudaginn 16. maí.

Samkvæmt 25. grein laga um sveitarstjórnakosningar er hægt að skjóta úrskurði yfirkjörstjórnar um kjörgengi til sveitarstjórnar. Lögin eru þó dálítið óljós því þar segir að hægt sé að kæra úrskurð sveitarstjórnar á sama hátt og kveðið er á um í 93. grein, þ.e.a.s. innan viku. Það er hinsvegar ekki tekið fram hversu hversu lengi er hægt að skjóta úrskurði yfirkjörstjórnar til sveitarstjórnar. Ég spurði Tómas Hrafn Sveinsson sem á sæti í yfirkjörstjórn hvernig bæri að túlka þessi lög. Hann tók undir það sjónarmið að það væri vafamál en taldi að sveitarstjórn yrði að taka afstöðu til þess ef henni bærist kæra.

Samkvæmt því er hugsanlega enn hægt að skjóta til sveitarstjórnar þeirri ákvörðun yfirkjörstjórnar að samþykkja framboðslista Framsóknar og flugvallarvina.  Ekki hefur komið fram að neitt framboðanna hafi gert það eða hyggist gera það. Ef til vill skýrist það af því að fylgi listans er afleitt samkvæmt skoðanakönnunum.

Mynd: Sharonang, Pixabay