Fyrir allmörgum árum gekk ég inn á vinnumiðlunarskrifstofu í Danmörk. Á vegg biðstofunnar hékk korktafla. Þar blasti við heilsíðuviðtal við sérfræðing sem ráðlagði fólki yfir fimmtugu að vera ekkert að segja frá aldri sínum í atvinnuumsóknum. Mismunun á vinnumarkaði viðgengnist og það gæti auðveldlega skaðað möguleikana á að fá starfið að gefa upp réttan aldur. Við hliðina á umfjölluninni með þessu heillaráði hékk dæmigert umsóknareyðublað frá verslanakeðju. Þar var að sjálfsögðu reitur fyrir kennitölu.

Nokkrum mínútum síðar var ég kölluð í viðtal við ráðgjafa. Sá ráðlagði mér að sækja um öll störf en nefna ekki í umsóknum um láglaunastörf að ég ætti að baki háskólamenntun. Því skyldi ég aðeins tefla fram ef það gagnaðist beinlínis í starfinu. Hann sagði glaðbeittur að ég ætti alveg möguleika á starf og tók fram að að ég væri ekki svo gömul að það ætti að standa í vegi fyrir mér. Ég var 43ja ára. Ég hafði á orði að fólk yrði nú sjaldnast farlama af elli eða illa haldið af heilabilun upp úr fimmtugu. Ráðgjafinn sagði aðalástæðuna fyrir því að atvinnurekendur vildu helst ungt starfsfólk vera þá að kjör fylgdu oft aldri.

Aldursmismun á Íslandi af sömu rót

Best gæti ég trúað því að það sama eigi við um Ísland. Launagreiðendur sniðganga eldri umsækjendur sennilega aðallega af því að stéttarfélög krefjast þess að reynsla sé metin að verðleikum. Laun hækka að jafnaði með aldri starfsmanns, að minnsta kosti með starfsaldri en oft einnig lífaldri. Það er líklega sterkari breyta en hrukkufordómar.

En vonandi horfir þetta til betri vegar. Kærunefnd jafnréttismála hefur nú úrskurðað að Menntaskólinn við Sund hafi brotið gegn lögum með því að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli aldurs. Eftir því sem ég best veit er þetta í fyrsta sinn sem viðurkennt er að vinnuveitandi hafi mismunað fólki á þessum grundvelli. Það merkir þó ekki að slík ósvinna hafi ekki verið ástunduð hingað til.

Það var ekki fyrr en í júlí 2019 sem bann við mismunun á vinnumarkaði á grundvelli aldurs var leitt í lög. Mismunun svona almennt var afnumin með gildistöku laga um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018. Lögin fóku gildi í janúar 2019. Þó var í 19. gr. laganna undantekningarákvæði sem heimilaði mismunun á grundvelli aldurs fram til 1. júlí 2019. Þetta fyrirkomulag var réttlætt með því að gera yrði ráð fyrir því að það tæki tíma „að fara yfir aldurstengd ákvæði í öðrum lögum og kjarasamningum og gera breytingar á þeim“. (Sjá grg. með frumvarpi).

Allt of dýrt að ráða fólk með reynslu

Í þessu tilviki voru allir umsækjendur sem náð höfðu sextugu útilokaðir fyrirfram. Þetta reyndi vinnuveitandinn að réttlæta með sparnaðarsjónarmiðum. Eldri kennarar hafa minni kennsluskyldu og því þyrfti að greiða þeim yfirvinnu ef þeir yrðu ráðnir i verkefni þar sem gert er ráð fyrir fullu starfi. Umsækjendum var þannig mismunað á grundvelli þeirra forréttinda sem löglega var um samið.

Með þessum rökum mætti ráða ófaglærða unglinga í hvert það starf sem löglegt er að stunda án sérmenntunar eða aldursskilyrða. Það er ánægjulegt að loksins hafi fengist staðfesting stjórnvalds á því að ekki megi fara í kringum réttindi sem tryggð eru með kjarasamningum á þennan hátt. Sömuleiðis er það framför hæft starfsfólk þurfi ekki að kvíða því að vera afskrifað út á kennitölu sína eingöngu, án þess að fá tækifæri til að sýna fram á hæfni sína til starfans.

Mynd: 31262817 © Cogent | Dreamstime.com