Við höfum verið í sambúð í 2 ár og eigum von á barni. Okkur langar að giftast en það stendur dálítið í mér að ég á vel stæða foreldra sem ég mun erfa en hans foreldrar eiga ekkert. Ef við skiljum seinna, fær hann þá helminginn af arfinum?

☆☆☆

Dánarbúi er skipt annað hvort þegar annað foreldra deyr, eða þá eftir að langlífari maki sem situr í óskiptu búi deyr. Ef þú átt arf í óskiptu búi við skilnað kemur hann ekki til skipta.

Ef þú gerir engar ráðstafanir og þið skiljið eftir að arfur fellur, þá verður arfurinn hluti af sameiginlegu búi og kemur til skipta við skilnað. Ef þú vilt tryggja að svo fari ekki er tvennt sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir það.

Í fyrsta lagi geta foreldrar þínir gert erfðaskrá með kvöð, þar sem mælt er fyrir um að arfur þinn skuli vera séreign þín í hjónabandi. Þú verður samt, þegar þú færð arfinn greiddan, að gæta þess að halda þeirri eign aðgreindri frá sameiginlegum eignum. Ef arfurinn blandast búinu, t.d. ef peningar eru lagðir inn á bankareikning sem er nýttur í daglegan heimilisrekstur, þá geturðu ekki gert tilkall til þess fjár við skilnað.

Það er líka hægt að gera kaupmála áður en hjónavígsla fer fram, þar sem kveðið er á um séreignir. Eftir sem áður þarf að halda séreign sem þannig er tilkomin aðgreindri frá sameiginlegum eignum, það á við um allar séreignir, ekki aðeins arf. Það er líka hægt að gera kaupmála eftir að fólk er gengið í hjónaband en ef eru þá þegar til staða eignir er það flóknara og dýrara.

Mynd: 181162710 © Ilia Burdun | Dreamstime.com