Ég þurfti að fara í læknisaðgerð og varð fyrir tjóni. Ég var vöruð við því áður að svona gæti farið. Á ég þá engan bótarétt?

☆☆☆

Það er ýmislegt sem getur spilað þarna inn í. Þó svo að þú hafir verið vöruð við þá er það í sjálfu sér ekki sönnun þess að heilbrigðisstarfsfólk hafi ekki gert nein mistök. Ef þetta telst gáleysi eða vanræksla þá áttu bótarétt á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar. Margir þættir geta haft áhrif á það mat, m.a. það hversu miklar líkur eru almennt á að slíkar aðgerðir leiði til tjóns og það hvort aðgerðin var nauðsynleg.

Að auki geta sjúklingar átt bótarétt á grundvelli laga um sjúklingatryggingu enda þótt ekki sé um gáleysi eða vanrækslu ræða. Það er samt því miður ekki svo einfalt að fólk eigi skilyrðislausan bótarétt vegna tjóns sem það verður fyrir við læknismeðferð og þessvegna mikilvægt að afla sannana, bæði um tjónið sjálft og orsakatengsl. Það getur t.d. verið ástæða til að afla sérfræðmats.

Í skaðabótamálum vegna heilbrigðisþjónustu er oft krafist bóta bæði á grundvelli sjúklingatryggingar og á þeim grundvelli að mistök eða vanræksla hafi átt sér stað. Þú getur krafist bóta úr sjúklingatryggingu án aðkomu lögmanns. Ef miklir hagsmunir eru í húfi er þó skynsamlegt að hafa samband við lögmann. Margar lögmannsstofur bjóða upp á frítt ráðgjafarviðtal. Ekki draga það að leita réttar þíns því það er erfiðara að afla sannana ef langur tími líður frá atvikinu og við gleymum fljótt smáatriðum sem geta skipt máli.

Mynd: ID 32943987 © Alexander Raths | Dreamstime.com