Er hægt að höfða dómsmál og krefjast þess að lagaleg tengsl milli ættingja séu dæmd dauð og ómerk þannig að öll réttindi og skyldur milli t.d. foreldris og barns yrðu lagðar niður?

☆☆☆

Nei, það eru ekki heimildir fyrir því í lögum að fá ættartengslum, sem sannarlega eru til staðar, hnekkt með dómi. Það eru samt til leiðir til að draga úr áhrifum þeirra. Augljósasta leiðin er ættleiðing. Það er hægt að ættleiða fullorðið barn og þá falla niður lagaleg tengsl milli barns og lífforeldris þess.

Þær lagalegu skyldur sem haldast milli foreldris og barns eftir að barnið verður lögráða eru eingöngu erfðaréttur. Barn er skylduerfingi foreldris. Það getur hafnað arfi en foreldrið getur ekki ákveðið að arfleiða ekki barn sitt. Foreldrið getur þó takmarkað rétt barnins með því ráðstafa þriðjungi eigna sinna með erfðaskrá. Einnig er fólki frjálst að gefa eigur sínar í lífanda lífi en ef arfleifandi losar sig við eignir sínar á dánarbeðinum þá gilda erfðalög um þær. 

Foreldri er lögerfingi barns síns en ekki skylduerfingi. Ef foreldrar lifa barn sem á ekki maka eða börn sjálft og engin erfðaskrá hefur verið gerð, þá erfa foreldrar barnið. Barn getur þannig tryggt að foreldri fái ekki arf með því að ganga í hjónaband, eignast barn eða með erfðaskrá.

Það er líka hægt að fyrirgera sér erfðarétti með því að fremja alvarleg refsilagabrot gegn foreldri sínu. Það er þó ekki hægt að mæla með þeirri aðferð, heillavænlegra er að hafna arfi. Ég hef ekki skoðað lögskýringargögn með 23. gr. en mér dettur helst í hug að ástæðan fyrir því að það gildir ekki upp á við í beinan legg sé sú að til eru löglegar leiðir til þess að fara algerlega fram hjá lögarfi en ekki skylduarfi.

Photo 67590196 © Nexusplexus | Dreamstime.com