Það er meginregla barnaréttar að þegar ákvarðanir eru teknar í málum barna skuli það haft að leiðarljósi hvað barninu er fyrir bestu. Þessi regla er meðal annars skráð í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en þar segir í 1. mgr. 3. gr.:

Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.

Í ýmsum greinum þessa sáttmála, sem hefur lagagildi á Íslandi, er svo hamrað á skyldu aðildarríkjanna til að tryggja að réttur barna til öryggis og velferðar sé virtur.

Þessi meginregla barnaréttar er einnig staðfest í 2. mgr. 1. gr. íslenskra barnalaga en hún hljóðar svo:

Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.

Mál Haniye Maleki og Mary Iserien

Ekki verður séð að sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að vísa vegalausum börnum úr landi samræmist þessum lögum. Börnum eins og Haniye Maleki, sem hefur verið á flótta allt sitt stutta líf, þjáist af áfallastreituröskun og á ekkert bakland í Þýskalandi, Afghanistan eða nokkurrstaðar í veröldinni nema þá helst á Íslandi þar sem hún og fatlaður faðir hennar hafa eignast vini og stuðningsmenn. Börum eins og hinni 8 ára gömlu Mary Iserien frá Nígeríu sem hefur búið á Íslandi um fjórðung ævi sinnar og á ekkert í vændum nema eymd, örbirgð og langvarandi öryggisleysi ef hún verður rekin frá Íslandi, hvort heldur hún lendir í flóttamannabúðum á Ítalíu (sem eru í reynd fangelsi) eða verður send þaðan til Nígeríu.

Rétt framkvæmd á Barnasáttmálanum og íslenskum barnalögum væri sú að búa þessum stúlkum, og öðrum börnum í svipaðri stöðu, tækifæri til uppeldis, menntunar og heilsugæslu í því landi sem þær hafa núorðið sterkust tengsl við. Það land er Ísland.

Hvernig samræmist brottvikning stúlknanna Dyflinnarreglugerðinni?

Stúlkunum er augljóslega ekki fyrir bestu að stjórnvöld hengi sig í heimild Dyflinnarreglugerðarinnar (C_nr_1_2014) um að senda flóttafólk aftur til fyrsta aðildarríkis sem það kom til á flótta sínum. En þegar grannt er skoðað er í hæsta máta vafasamt að það samræmist Dyflinnarreglugerðinni að vísa þessum tilteknu stúlkum úr landi.

Heimildina er að finna í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar:

Aðeins það aðildarríki sem ber ábyrgð, samkvæmt þeim viðmiðunum sem mælt er fyrir um í III. kafla, skal taka umsóknina til meðferðar.

Ennfremur segir í 2. mgr. 12. gr.:

Ef umsækjandi er handhafi gildrar vegabréfsáritunar skal
aðildarríkið, sem gaf út vegabréfsáritunina, bera ábyrgð á
meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd nema það hafi gefið út vegabréfsáritunina fyrir hönd annars aðildarríkis …

Í reglugerðinni er einnig kveðið á um að hafi umsækjandi komið ólöglega yfir landamæri aðildarríkis skuli það ríki bera ábyrgð á meðferð umsóknar og að hvert aðildarríkjanna áskilji sér rétt til að senda umsækjanda til öruggs þriðja lands.

Ofangreind ávæði eru í miklu uppáhaldi hjá Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og Dómsmálaráðuneytinu, sem hafa túlkað reglugerðina á þann veg að Íslendingum beri skylda til þess að senda hælisleitendur aftur til þess aðildarríkis sem þeir fyrst komu til.

Þessar stofnanir virðast hinsvegar líta framhjá viðurkenndum lögskýringaraðferðum sem fela í sér að lög skuli túlkuð með tilliti til markmiðs þeirra og að gengið skuli út frá innbyrðis samræmi í löggjöfinni. Sé tekið mið af þeim aðferðum er fráleit túlkun að ábyrgð þess ríkis sem vegalaus manneskja kemur fyrst til á flótta sínum, skyldi Íslendinga til að sýna miskunnarleysi og afsala sér ábyrgð.

Íslensk stjórnvöld líta þannig fram hjá því markmiði reglugerðarinnar að tryggja skjóta afgreiðslu umsókna og að koma á fót „svæði frelsis, öryggis og réttlætis sem sé opið þeim sem aðstæður neyða til að leita verndar innan Sambandsins á löglegan hátt“ eins og segir í viðbótarákvæði frá árinu 2014. Reyndar einkennist reglugerðin af þeim anda að ríkjunum beri að sjá til þess að umsóknir séu teknar fyrir og það er með því markmiði sem ákvæði um ábyrgð fyrsta ríkis var sett en ekki til þess að tryggja Íslandi rétt til að skjóta sér undan ábyrgð.

Þá virðast íslensk stjórnvöld engu skeyta um viðbótarákvæði við reglugerðina sem hafa þó verið í gildi á Íslandi frá 24. maí 2014, þar sem hnykkt er á þeim mannúðarsjónarmiðum sem liggja að baki reglugerðinni, meðal annars með eftirfarandi greinum:

13. gr.
Í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 1989 og sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, skal það sem er barninu fyrir bestu ávallt hafa forgang hjá aðildarríkjunum við beitingu þessarar reglugerðar. Þegar lagt er mat á það hvað er barninu fyrir bestu skulu aðildarríkin einkum taka tilhlýðilegt tillit til velferðar og félagsþroska hins ólögráða barns, öryggissjónarmiða og álits þess, með hliðsjón af aldri þess, þroska og uppruna. Að auki skal mæla fyrir um sérstakan málsmeðferðarrétt fyrir fylgdarlaus, ólögráða börn vegna þess hve þau eru einstaklega berskjölduð.

17. gr.
Sérhverju aðildarríki skal heimilt að víkja frá viðmiðununum um ábyrgð, einkum af mannúðar- og samúðarástæðum, í því skyni að sameina aðstandendur, skyldmenni eða aðra sem eru tengdir fjölskylduböndum og taka til meðferðar umsókn um alþjóðlega vernd, sem er lögð fram í því ríki eða öðru aðildarríki, jafnvel þótt slík meðferð sé ekki á þess ábyrgð samkvæmt þeim bindandi viðmiðunum sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð.

(Leturbreyting EH)

Það þarf góðan vilja, eða ætti ég kannski heldur að segja illvilja, til þess að túlka Dyflinnarreglugerðina með síðari breytingum á þann veg að heimilt sé að senda þær Mary Iserien og Haniye Maleki úr landi gegn vilja þeirra. Heimild til að víkja frá meginreglunni um það hvaða ríki ber ábyrgð á umsókninni er tryggð og ef slíkar undantekningar eiga ekki við í málum ríkisfangslausra barna er erfitt að sjá aðstæður þar sem á þær reynir. Skylda til að hafa hagsmuni barnsins í fyrirrúmi og taka tillit til óska þess er svo aftur á móti ekki heimild heldur skylda.

Það er ekki bara framkvæmd á ómannúðlegri innflytjendastefnu heldur hreint og klárt mannréttindabrot sem íslenska ríkið ber ábyrgð á ef af verður.

Hættan við að láta almenning um að knýja fram réttlæti

Að lokum má benda á þá hneisu að til þess að mannréttindi séu virt, að ekki sé nú talað um þegar börn eiga í hlut, skuli íslenskur almenningur þurfa að standa í mótmælaaðgerðum og fjölmiðlar að hamra á sömu málunum viku eftir viku og oft mánuðum saman.

Reyndin er sú að þrýstingur frá almenningi hefur í mörgum tilvikum orðið til þess að fólk sem stóð til að reka úr landi fær að vera um kyrrt og umsækjendur um hæli sem og velvildarmenn þeirra upplifa það sem sigur. Það er þó ekkert fagnaðarefni nema fyrir þá fáu sem fá sérmeðferð út á samúð og hneykslun almennings. Flóttafólk er nefnilega misjafnlega líklegt til þess að vekja samúð og í misgóðri aðstöðu til að afla sér stuðningsmanna. Fólk sem á rétt á vernd er ekkert endilega fallegra eða félagslyndara en hver annar en veruleikinn er sá að persónutöfrar og félagsleg tengsl flóttafólks ráða oft úrslitum um það hvort það er sett út á Guð og gaddinn eða veitt tækifæri til að koma undir sig fótunum á Íslandi.

Þetta er óþolandi staða sem býður beinlínis upp á mismunun og það eru íslensk stjórnvöld en ekki fjölmiðlar og stuðningsmenn flóttafólks sem bera ábyrgð á henni.