Ég á ekki mikið af veraldlegum eignum en aftur á móti konu og fjögur börn sem munu skipta með sér því litla sem ég á. Það verður ekki mikið sem kemur í hlut hvers og eins og mér finnst súrt að ríkið fái stóran hluta af því. Get ég komist hjá erfðaskatti á löglegan hátt, t.d. með því að færa eignir á nöfn barnanna minna áður en ég dey?

☆☆☆

Erfingjar greiða almennt 10% erfðafjárskatt. Maki er þó undanþeginn erfðafjárskatti. Ef þú og konan þín eruð ekki gift getur þú tryggt henni arf með erfðaskrá. Það þarf þá að koma skýrt fram í erfðaskránni að hún sé sambúðarmaki. Ef þú gengur þannig frá þarf hún ekki að greiða erfðafjárskatt.

Börnin þín þurfa að greiða erfðafjárskatt en þó er ekki tekinn skattur af fyrstu fimm milljónunum af skattstofni dánarbúsins. Það er alveg hugsanlegt að með einhverri skattaleikfimi sé mögulegt að koma einhverju undan skattinum en ekki er hægt að leggja mat á það án frekari upplýsinga. Ef þetta er lítið bú og þú ert ekki í neinum rekstri er vafasamt að borgi sig að leggja í sérfræðikostnað við að finna þá leið.

Það geta verið góðar ástæður til að færa eignir á nöfn erfingja eða greiða þeim arf fyrirfram. Það getur t.d. verið lausn ef eign liggur undir skemmdum og arfleifandi er ófær um um að halda henni við eða standa undir viðgerðarkostnaðni. En ef markmiðið er aðeins að losna við þennan 10% erfðafjárskatt þjónar það ekki tilgangi. Fólk þarf að greiða skatt af stórum gjöfum og fyrirframgreiddum arfi og skattaafslátturinn gildir ekki um slíka gjörninga.

Mynd: 119139414 © Andrii Yalanskyi | Dreamstime.com