Ef einhver brýtur gegn mér, get ég kært hann og krafist skaðabóta. Ef mér er boðinn þöggunarsamningur getur gerandinn samt kært mig fyrir fjárkúgun. Hvernig er þetta hugsað? Er einhver hámarks fjárhæð sem má semja um?

☆☆☆

Um þöggunarsamninga

Orðið „þöggunarsamningur“ hefur verið notað um þá aðstöðu þegar einhver viðurkennir misgjörð gagnvart annarri manneskju, vill ekki að það komist í hámæli og gerandi og þolandi ná sáttum utan réttar. Sáttin felst þá í því að gerandinn greiðir bætur eða gerir eitthvað annað þolandanum til hagsbóta gegn því að þolandinn grípi ekki til aðgerða sem eru til þess fallnar að hafa frekari afleiðingar fyrir gerandann. Þolandinn getur t.d. samþykkt að tilkynna brotið ekki til lögreglu, vinnuveitanda eða annarra sem hafa einhverskonar vald yfir gerandanum, tjá sig ekki um það á opinberum vettvangi og jafnvel að tjá sig ekki um það við neinn sem ekki er bundinn þagnarskyldu.

Það er ekkert ólöglegt við slíka samninga og þeir geta verið báðum í hag. Sá sem hefur orðið fyrir misgjörð vill stundum bara ljúka málinu frekar en að ganga í gegnum kæruferli og/eða dómsmál sem tekur óratíma og hefur í för með sér andlegt álag og ýmis óþægindi. Sá brotlegi getur séð sér hag í því að greiða sómasamlega fjárhæð vegna misgjörðar sem hann kannast við – það er hagkvæmara en að missa mannorðið.

Ef um er að ræða brot gegn refsilögum þarf þó að hafa í huga að það er ekki löglegt að bjóða greiðslu fyrir rangan framburð. Það væri hvatning til afbrots og það er refsivert að hvetja til afbrota.

Hvenær verða samningaumleitanir að fjárkúgun?

Samningur felur í sér einhverskonar loforð og endurgjald sem báðir aðilar sættast á. Til að samningur sé gildur þarf efni hans að vera löglegt. Svo augljóst dæmi sé nefnt er ekki hægt að byggja rétt á samningi um kaup á þrælum og greiðslu í ólöglegum fíkniefnum. Samningurinn má heldur ekki fela í sér ótilhlýðilega þvingun, ógn eða hótun. Þannig er ólöglegt að byggja innheimtukröfu á því að kröfuhafinn sé í aðstöðu til að brjóta hnéskeljar skuldarans ef hann borgi ekki.

Til þess að „þöggunarsamningur“ sé löglegur þarf því þrennt að koma til:

  1. Annar aðilinn þarf að viðurkenna einhverskonar misgjörð og bjóðast til eða samþykkja að greiða bætur eða gera eitthvað annað til að bæta fyrir þá misgjörð og þolandinn þarf að fallast á þá ráðstöfun.
  2. Skilmálar þurfa að vera löglegir og mega ekki bera keim af fjárkúgun eða annarri ótilhlýðilegri þvingun.

Í 251. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um fjárkúgun:

Hver, sem hefur fé af öðrum með því að hóta manni að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi, svipta hann eða þá frelsi, eða að hafa upp rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans, eða annan slíkan sakburð, þótt sannur sé, ef nauðungin á ekki nægilegan rétt á sér vegna málefnis þess, er hótunin beinist að, eða loks með því að hóta honum að valda verulegum skemmdum eða eyðileggingu á eignum hans, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

Einnig getur verið að kúgunartilraun feli ekki í sér fjárkröfu heldur aðra ótilhlýðilega skilmála og þá reynir á 1. mgr. 225. gr.

Ef maður neyðir annan mann til þess að gera eitthvað, þola eitthvað eða láta hjá líða að gera eitthvað með því að beita líkamlegu ofbeldi eða hóta honum að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi eða frelsissviptingu eða að hafa upp rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans, eða annan slíkan sakburð, þótt sannur sé, ef nauðungin á ekki nægilegan rétt á sér sökum þess málefnis, sem hótunin beinist að, eða loks með því að hóta honum að valda verulegum skemmdum eða eyðileggingu á eignum hans, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Takið eftir því að það getur verið refsivert að reyna að beita mann nauðung, jafnvel þótt hann hafi raunverulega gert eitthvað af sér.

Samningur verður að vera báðum í hag

Ef þú vilt semja um skaðabætur utan réttar þarftu að hafa eftirfarandi í huga:

  1. Bótagreiðandi má ekki reyna að fá viðsemjanda sinn til að gefa efnislega ranga skýrslu hjá lögreglu eða fyrir dómi.
  2. Bótakrefjandi má ekki reyna að þvinga fram samning með ótilhlýðilegum aðferðum.

Hvað telst þá ótilhlýðilegt í þessu sambandi? Það er ekki hægt að setja fram tæmandi lista en hafðu eftirfarandi í huga:

  • Þú mátt ekki reyna að þvinga fram samning með því að hóta að skrökva eða draga upp afbakaða mynd af brotinu. Það væri „rangur sakburður“ í skilningi laga.
  • Þú mátt ekki krefjast þess að hinn aðilinn geri eitthvað ólöglegt eða ósiðlegt.
  • Þú mátt ekki krefjast þess að hinn aðilinn geri eitthvað sem gengur of nærri einkalífi hans, eins og t.d. að skilja við maka sinn, hætta að koma fram opinberlega o.sfrv.

Er einhver hámarks fjárhæð sem má fara fram á?

Lög kveða ekki á um neitt hámark miskabóta, hvorki fyrir dómi né utan réttar. Það getur alveg talist sanngjarnt að greiða hærri bætur en líklegt er að fengjust dæmdar enda losnar gerandinn þá við kostnað af dómsmáli og ýmis önnur óþægindi. Ef krafa um fjárhæð bóta er mjög langt frá tilefninu er þó mögulegt að litið verði á það sem tilraun til fjárkúgunar.

Það getur talist kúgunartilraun að krefjast margfaldrar þeirrar fjárhæðar sem þú ættir kost á fyrir dómi eða að setja einhver önnur óásættanleg skilyrði fyrir samkomulagi. Þetta á sérstaklega við ef yfir vofir ógn um að bótakrefjandinn muni annars grípa til einhverra aðgerða sem geta skaðað hinn aðilann. T.d. að eiga frumkvæði að því að ræða málið við vinnuveitanda hans, fjölskyldu eða á opinberum vettvangi.

Ef vilji stendur til þess að ná löglegum samningi sem báðir aðliar geta sætt sig við er gott að skoða dómaframkvæmd í svipuðum málum og ræða hreint út hvaða hagsmunir liggja undir. Ef þú nefnir mjög háa fjárhæð skaltu rökstyðja hana. Ég mæli eindregið með því að fá sáttamiðlara og/eða lögfræðing að borðinu því ef skilmálar eru óljósir eða á gráu svæði er hætta á að samningurinn skapi stærra vandamál en hann leysir.

Mynd: 53754755 © Vadymvdrobot | Dreamstime.com