Umboðsmaður Alþingis hefur lagt til að forstöðumaður ríkisstofnunar fái gjafsókn til að fara í mál gegn fjármálaráðuneytinu, sem neitar að fara eftir tilmælum umboðsmanns varðandi launamál forstöðumannsins. Af hverju þarf fjármálaráðuneytið ekki að hlýða umboðsmanni Alþingis og þarf gjafsóknarnefnd eitthvað frekar að fara eftir því sem hann segir?

☆☆☆

Gjafsóknarnefnd starfar í umboði dómsmálaráðherra og hann skipar nefndina. Gjafsóknarnefnd skoðar umsóknir og veitir umsagnir um það hvort skilyrði til gjafsóknarleyfis eru uppfyllt en formlega er það ráðherra sem tekur ákvörðun.

Umboðsmaður Alþingis er ekki hluti af stjórnsýslunni heldur starfar hann í umboði Alþingis. Þetta fyrirkomulag byggist á þrískiptingu ríkisvaldsins sem gert er ráð fyrir í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald eiga að veita hvert öðru tilsjón og taumhald en það er ekki þannig að einn þessara valdþátta geti sagt hinum fyrir verkum. Umboðsmaður Alþingis sinnir því eftirlitshlutverki með framkvæmdarvaldinu (stjórnsýslunni) sem Alþingi er ætlað. Hann gefur álit sem eiga að vera stjórnsýslunni til leiðsagnar um túlkun laga og góða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður fellir aftur á móti ekki bindandi úrskurði enda hefur Alþingi ekki vald til að segja ráðherra fyrir verkum.

Í lögum um umboðsmann Alþingis er kveðið á um að umboðsmaður geti lagt til við ráðherra að veitt verði gjafsókn í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar. Þetta er ekki hugsað sem agavald umboðsmanns yfir ráðherra heldur viðbrögð við óvissu um túlkun laga.

Ráðuneytin eru hluti af stjórnsýslunni. Almennt fara stjórnsýslustofnanir eftir tilmælum UA en ef þær gera það ekki liggja engin viðurlög við því. Strangt til tekið getur dómsmálaráðherra því hafnað gjafsókn enda þótt UA hafi mælt með henni. Mér finnst ólíklegt að sú verði raunin. Það yrði hneyksli en einnig er hætta á að UA myndi segja af sér á þeirri forsendu að honum sé ómögulegt að sinna hlutverki sínu ef hvert ráðuneytið á fætur öðru hundsar hlutverk hans.

Mynd: Fjármálaráðuneytið, Antony-22, Wikimedia Commons