Ég vil ekki taka arf eftir annað foreldra minna. Hvernig á ég að bera mig að til að koma því í kring?

☆☆☆

Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að fólk vilji afsala sér arfi. Augljós ástæða er sú að ef erfinginn vill hvort sem er láta arfinn renna eitthvert annað vill hann t.d. ekki greiða af honum erfðafjárskatt, því viðtakandinn þarf þá líka að greiða skatt af gjöfinni. Það getur líka verið að andúð líki milli erfingja og arfleifanda og að erfinginn kæri sig ekki um arfinn þessvegna. Þú getur afsalað þér arfi áður en arfleifandi deyr en þá gildir 28. gr. erfðalaga. Þú getur líka hafnað arfi eftir að arfleifandi deyr. Lög kveða ekki beint á um þann rétt en dómstólar viðurkenna hann. Hvor leiðin um sig hefur ákveðna kosti og galla.

Afsal arfs áður en arfleifandi deyr

Ef þessi leið er farin er litið svo á að um samkomulag sé að ræða. Sá sem afsalar sér arfi að hluta eða að öllu leyti getur þannig sett ákveðin skilyrði fyrir því, t.d. mælt fyrir um það hvernig arfshlutanum skuli varið.

Kosturinn við að afsala sér arfi er sá að þú getur ráðið því hvað verður um þinn arfshluta. Hafðu samt í huga að það er ekki einfalt að afturkalla afsal arfs eftir að arfleifandi er látinn nema aðrir erfingjar samþykki það. Þú getur skoðað Hrd. nr. 23/2004 og Hrd. nr. 8/2015. Í öðrum dómnum var arfi reyndar afsalað eftir að arfleifandi dó en í báðum málunum reyndi á heimild til að afturkalla slíka ákvörðun. Annað sem þú skalt hafa í huga er að þínir erfingjar eru bundnir af ákvörðun þinni nema þú takir sérstaklega fram að afsalið nái aðeins til þín.

Engar sérstakar formkröfur gilda um slíka löggerninga en ef fleiri erfingjar eru til staðar er skynsamlegt að fá lögmann til að skrifa samninginn eða yfirlýsingu um afsal arfs. Það er reyndar ólíklegt að sú staða komi upp að einhver vilji endilega troða upp á þig arfi en ef þú vilt ekki að ákvörðunin nái til þinna erfingja er mikilvægt að rétt sé að öllu staðið.

Höfnun arfs eftir að arfleifandi deyr

Þótt ekki sé kveðið á um slíkan rétt í lögum er ekkert því til fyrirstöðu að hafna arfi eftir að arfleifandi fellur frá. Það er engin sérstök skriffinnska í kringum það, þú bara skrifar einfalda yfirlýsingu og undirritar með eigin hendi. Þú þarf líka að fá tvo votta sem ekki eiga tilkall til arfs. Þú sendir sýslumanni svo yfirlýsinguna. Þetta er hægt að gera án aðkomu lögmanns.

Rétt að taka fram að sá sem ætlar að hafna arfi verður að gera það áður en skipti hefjast ef hann vill ekki ábyrgjast skuldbindingar búsins.  Ef hvatinn að því að hafna arfi er ótti um að „erfa skuldir“ er hægt að krefjast opinberra skipta. Hver erfingja sem er hefur sjálfstæðan rétt til þess og þá taka erfingjar ekki ábyrgð á skuldum ef eignir búsins duga ekki fyrir þeim.Hver erfingja sem er hefur sjálfstæðan rétt til þess og þá taka erfingjar ekki ábyrgð á skuldum ef eignir búsins duga ekki fyrir þeim. Ef staðan er sú að einn erfingjanna óttast að í ljós komi skuldir sem hann vill ekki taka ábyrgð á en hinir vilja taka þá áhættu og/eða vex í augum kostnaður við opinber skipti getur höfnun arfs verið ágæt lending.

Mynd: 52161701 / Cemetery © Linux87 | Dreamstime.com