Erfast skuldir? Ef yfirskuldsettur aðili fellur frá, lenda þá skuldir á erfingjum eða fyrnast þær?

☆☆☆

Stutta svarið er nei, skuldir erfast ekki beinlínis. Þær falla aftur á móti á dánarbú og skerða þannig arf. Einnig geta erfingjar tekið á sig skuldir búsins sjálfviljugir en þeir þurfa ekki að óttast að sitja uppi með skuldir foreldra sinna eða fyrirtækja þeirra án þess að hafa neitt um það að segja.

Þegar arfleifandi fellur frá verður til sérstakur lögaðili, þ.e. dánarbúið. Erfingjar eiga kröfu í búið á grundvelli erfðalaga og þeir sem eiga kröfur á hendur arfleifanda eignast kröfu á hendur dánarbúinu. Erfingjar geta óskað eftir leyfi til einkaskipta. Það merkir að þeir sjá sjálfir um skiptin og gangast jafnframt í ábyrgð fyrir skuldum dánarbúsins, einnig þeim skuldum sem þeim kann að vera ókunnugt um. Í þeim skilningi er mögulegt að líta svo á að skuldir erfist.

Smellið hér til að skoða Facebooksíðu Hlítar

Ef einhver erfingja vill ekki taka þá áhættu að sitja uppi með skuldir arfleifanda, eða ef ósamkomulag ríkir milli erfingja, getur verið heppilegra að búið verði tekið til opinberra skipta. Hver erfingja hefur sjálfstæðan rétt til að óska eftir opinberum skiptum, sem þýðir að óháður skiptastjóri fer með málefni búsins. Opinberum skiptum fylgir kostnaður en á hinn bóginn hafa erfingjar þá rétt til að hafna ábyrgð á skuldum þess.

Skiptastjóri ber ábyrgð á því að lýsa eftir kröfum í dánarbúið. Ef það er yfirskuldsett gerist það sama og við gjaldþrotaskipti að einhverjir kröfuhafa, eða allir, sitja sjálfir uppi með tjónið. Kröfur lánardrottna ganga framar kröfum erfingja svo ef búið er yfirskuldsett verður ekkert til skiptanna.

Mynd: © Janece Flippo | Dreamstime.com