Ég fór í skurðaðgerð árið 2015. Ég var með dofa í kringum skurðinn eftir aðgerðina en reiknaði með að það myndi lagast. Það gerðist ekki, ég er enn í dag með stóran blett sem er nánast tilfinningalaus. Ég kvartaði undan þessu við lækninn fljótlega eftir aðgerðina en fékk það svar að þetta gæti tíma að jafna sig. Þegar ár var liðið og þetta hafði ekki lagast spurði ég hvort þetta væru ekki mistök. Svarið var að þetta gæti alltaf gerst og vonandi myndi þetta lagast. Ég gafst upp á þeirri bið fyrir löngu. Á ég rétt á bótum eða er orðið of seint að gera eitthvað í þessu?

☆☆☆

Ef þetta er bótaskylt tjón er ekki of seint að krefjast bóta. Flestar fjárkröfur fyrnast á fjórum árum en sérstakar reglur gilda um skaðabótakröfur vegna líkamstjóns. Þær fyrnast á 10 árum frá því að tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Í sérstökum tilvikum getur enn lengri fyrningarfrestur átt við. Að því gefnu að bótaskylda sé fyrir hendi ætti þín krafa því að fyrnast í fyrsta lagi árið 2025.

Smellið hér til að skoða Facebooksíðu Hlítar

Þar sem þú fékkst þær upplýsingar frá lækninum að það yrði að gefa þessu tíma er rétt að reikna með að fyrningarfresturinn hefjist ekki fyrr en í fyrsta lagi þegar þú spurðir lækninn hvort þetta væru mistök. Þú fékkst reyndar rangar upplýsingar í það skipti líka en þarna hafði greinilega vaknað grunur um mistök og rétt viðbrögð hjá þér hefðu verið að leita álit annars læknis frekar en að bíða árum saman. Það skiptir þó ekki máli í þínu tilviki þar sem bótakrafa er langt frá því að vera fyrnd. Þú skalt samt leita til lögmanns sem fyrst. Það þarf að leita afstöðu læknisins og tryggingafélagsins hans eða ríkisins, ef hann er ríkisstarfsmaður, til bótaskyldu og það þarf líka að fá sérfræðimat á tjóninu. Þetta tekur allt töluverðan tíma og ekki eftir neinu að bíða með að koma þeirri vinnu í gang.

Mynd: © Doberman84 | Dreamstime.com