Vinur minn var kærður fyrir hótanir og lögreglan yfirheyrði vitni vegna þess. Löggan sagði vitninu að vinur minn hefði sjálfur sagt frá skilaboðum í síma sem vitnið átti, að sögn vinar míns, að hafa lagt ákveðna merkingu í, það að hann væri að hóta einhverjum. Hann hafði aldrei sagt neitt um það hvað vitnið hélt eða sagði um skilaboðin, heldur aðeins að sú manneskja hefði séð þau. Má löggan ljúga til þess að fá vitni til að segja það sem hún vill heyra eða ýja að því að eitthvað hafi verið eins og löggan heldur?

☆☆☆

Lögreglan má ekki gefa vitnum rangar upplýsingar til að laða fram frásögn. Það er ekki beinlínis óheimilt að setja fram tilgátur um atburðarás en ef löggan reynir að hafa áhrif á framburð með því að gefa ranglega í skyn að sannanir liggi fyrir tilgátunni er hún á ansi gráu svæði.

Samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga um meðferð sakamála er lögreglu óheimilt að „rugla skýrslugjafa með ósannindum eða á annan hátt eða beita hann neins konar ólögmætri þvingun í orði eða verki“. Ef lýsing þín er rétt hefur lögreglan því brotið gegn réttindum félaga þíns.

Spurningar lögreglu eiga að vera skýrar og ótvíræðar. Þótt löggan megi bera getgátur undir sakborning má ekki setja þær fram sem sannleika eða laða fram „æskilegt“ svar með loðnum getgátum og hálfkveðnum vísum. Slíkt eykur hættuna á fölskum játningum og vitnisburði sem er byggður á mynd sem vitnið býr ómeðvitað til út frá vísbendingum lögreglu, fremur en raunverulegri minningu.

Ef kemur í ljós að lögreglan hefur fengið fram vitnisburð eða játningu með ósannindum, eða með villandi eða loðnum staðhæfingum þá á dómari að líta fram hjá slíkri sönnun. Hvort það virkar þannig í raun er annað mál. Ef dómari er einu sinni kominn með mynd í kollinn er eðlilega erfitt að láta eins og hann viti ekki hvað sagt var, eða hvaða fabúleringar voru staðfestar í skýrslutöku. Einmitt þessvegna er þetta mjög mikilvæg regla.

Mynd: © Katarzyna Bialasiewicz | Dreamstime.com