Nokkuð hefur borið á því síðustu ár að ungu fólkisynjað um aðgang að tjaldstæðum. Skýringarnar eru venjulega í þá veru að tjaldstæðið sé aðeins ætlað fjölskyldufólki. Engu að síður virðist miðaldra fólk og eldra fá inni á tjaldsvæðum þótt það sé ekki með börn.

Augljóst virðist að markmiðið með mjög háu aldurstakmarki, hvort sem það er fóðrað með rökum um fjölskylduvæn tjaldsvæði eða ekki, sé það að koma í veg fyrir gleðskap og hávaða sem vissulega eru meiri líkur á þar sem hópar ungmenna koma saman án barna. En er löglegt að synja fólki um þjónustu á forsendum aldurs, án þess að neitt liggi fyrir sem bendir til þess að truflun stafi af því, annað en aldur þess?

Mismunun er ekki alltaf ólögleg

Enn eru ekki í gildi nein lög sem banna fyrirtækjum að synja fólki um þjónustu á grundvelli aldurs. Það stendur þó til bóta.

Þótt það kunni að hljóma undarlega nær bann við mismunun ekki til allra hópa samfélagsins. Almennt er bannað að mismuna fólki enda segir í stjórnarskránni að allir skuli „vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“. Þetta er þó ekki svo einfalt að engin mismunun sé lögleg. Bæði skiptir máli að sumt af því sem í boði er telst ekki til mannréttinda og einnig getur mismunun getur verið réttlætanleg í sumum tilvikum.

Sem dæmi um réttlætanlega mismunun má nefna að blindir geta ekki fengið ökuréttindi. Það er vissulega mismunun á grundvelli fötlunar. En það dettur engum það í hug að það sé ekki allt í lagi, vegna þess að þarna erum við að tala um öryggisatriði og hér er þvi um að ræða mismunun sem er málefnaleg og rökstudd.

Aldur ekki nefndur í hegningarlögum um mismunun

Bæði Mannréttindasáttmáli Evrópu og stjórnarskráin kveða á um að allir eigi að njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, uppruna og fleiri þátta. Þetta eru opin ákvæði þar sem talin eru upp ákveðin atriði og tekið fram að ekki megi heldur mismuna á grundvelli annarra þátta. Í Evrópulöggjöfinni hefur verið unnið að því á undanförnum árum að uppræta ómálefnalega mismunun og þess sér víða stað í lögum. T.d. eru þegar í gildi lög um að það sé bannað að mismuna fólki á grundvelli aldurs á vinnumarkaði. Það eru ákveðnar undantekningar frá því en dæmi eru um að kærunefnd jafnréttismála hafi úrskurðað um mismunun á grundvelli aldurs, sem ekki var hægt fyrir gildistöku lagannna.

Í tilfelli tjaldstæðanna erum við ekki beint að tala um mannréttindi svo það er hæpið að ætla að byggja rétt á hinum opnu mannréttindaákvæðum stjórnarskráinnar og MSE. Aftur er ákvæði í 108. grein hegningarlaga sem hljóðar svo:

Hver sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.

Þarna er aldur ekki nefndur. Ég tel því að ef þetta unga fólk, sem hefur verið synjað um aðgang að tjaldstæðum, ætlaði núna að leita réttar síns, þá myndi slíkt mál ekki vinnast fyrir dómi, því það er ekki neitt í lögum sem beinlínis bannar eigendum tjaldstæða að mismuna eftir aldri.

Úrbætur í sjónmáli

Nú hillir undir breytingar því þann 15. Júní sl. samþykkti Alþingi lagabreytingu þar sem tekið er fram að ólöglegt sé að mismuna fólki vegna aldurs þess.

Þegar eru í gildi lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 og núna í júní var samþykkti Alþingi að bæta við þessi lög. Það er þá ekki bara kynþáttur og þjóðernisvitund sem skiptir máli heldur má ekki mismuna fólki lengur á grundvelli trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.

Þessi lög eiga við utan vinnumarkaðar og ná því til þjónustu á borð við leigu tjaldstæða. Þó er sá hængur á að hvað aldur varðar öðlast lögin ekki gildi fyrr en 1. júlí 2024. Fram til þeirrar dagsetningar geta fyrirtæki því komist upp með að mismuna fólki á grundvelli aldurs.

Ómálefnaleg mismunun

Lögin taka strax gildi hvað varðar mismunun á grundvelli lífskoðunar, fötlunar ofl. Hvað varðar aldur er talin þörf á aðlögunartíma. Þannig var það einnig þegar lög um jafna meðferð á vinnumarkaði voru samþykkt, þá var einnig reiknað með ríflegum aðlögunartíma vegna aldurs. Skýringin er sú að það telst miklu oftar málefnalegt að mismuna á grundvelli aldurs heldur en til dæmis kyns eða kynhneigðar. Eftir gildistöku laganna má ekki mismuna á grundvelli aldurs nema að það séu málefnalegar ástæður fyrir því. Það þyftri því að setja sérstök lög ef ætti að vera hægt að banna fólki aðgang að tjaldsvæðum eða synja því um aðra þjónustu á þeim grundvelli að það sé ungt.

Líklegast eru forsendur þeirra sem reka tjaldstæði með aldurstakmörkun þær að ungt fólk sé líklegra en aðrir til að vera með hávaða. Það er í sjálfu sér rétt að í stórum hópi er líklegt að meiri truflun stafi af ungu fólki en þeim eldri. Það er þó ekki málefnalegt að yfirfæra slíka almenna hugmynd á einstaklinga og mismuna á þeim grundvelli.

Almennt telst ekki málefnalegt að mismuna fólki á grundvelli hugmynda um þann hóp sem það tilheyrir. Vinnuveitandi má t.d. ekki neita að ráða konur á barneignaraldri því þær séu líklegar til að vera meira frá vinnu vegna barneigna og barnauppeldis en aðirir. Það sama á við um aldur. Það er ekki málefnalegt að ganga út frá því að fólk muni eyðileggja friðinn fyrir öðrum á tjaldstæðinu af þeirri einu ástæðu að það sé undir 25 ára aldri.

Mynd 74987968 © Pollychong | Dreamstime.com