Morgunblaðið birti í dag aðsenda grein, eða kannski frekar varnarskjal Sigríðar Andersen, fráfarandi dómsmálaráðherra. Greinin varðar uppreist æru og fleira sem tengist þeim málum sem hafa verið hvað mest í umræðunni síðustu daga. Sigríður hefur m.a. verið ásökuð um trúnaðarbrot með því að veita forsætisráðherra upplýsingar um meðmælabréf sem faðir hans skrifaði til stuðnings umsókn barnanauðgara um uppreist æru. Um meint trúnaðarbrot segir Sigríður:

Ákvörðun um uppreist æru fer frá ráðuneyti inn á borð ríkisstjórnar og þaðan til forseta. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta kynnt sér þau skjöl sem búa þar að baki. Efni þeirra skjala er því ekki trúnaðarmál fyrir þeim, hvað þá forsætisráðherranum sjálfum. Þegar af þeirri ástæðu getur það aldrei verið trúnaðarbrot að ræða slík mál við forsætisráðherrann sem hafði heimild til að kynna sér öll þau gögn á sínum tíma. Þar fyrir utan verða fagráðherrar að geta rætt við forsætisráðherra í trúnaði og án takmarkana. Annað væri fásinna. Forsætisráðherra er þá bundinn sama trúnaði og fagráðherrann í málinu. Allur áburður um trúnaðarbrot af minni hálfu stenst ekki skoðun.

Við þetta er margt að athuga. Í fyrsta lagi er engin heimild fyrir ráðherra í lögum um persónuvernd til að veita samráðherrum sínum upplýsingar sem ekki eru farnar út úr ráðuneytinu. Ef þessi kenning Sigríðar stæðist gæti t.d. samgönguráðherra valsað um í dómsmálaráðuneytinu og lesið þar trúnaðargögn að eigin geðþótta. Það stríðir gegn lögum og viðteknum stjórnsýsluvenjum að upplýsa aðra um gögn sem ekki hafa verið formlega afgreidd frá ráðuneytinu, enda þótt þeir sem í hlut eiga kunni að eiga rétt á því að skoða þau eftir að þau hafa verið réttilega send til viðtakanda. Engar sérreglur gilda um ráðherra eða ríkisstjórn í því sambandi.

Í öðru lagi hefur forsætisráðherra engin völd yfir fagráðherrum. Ráðherra er æðsta stjórnvald á sínu sviði (sbr. 1. mgr. 1. gr. laga um Stjórnarráð Íslands) og ekkert stigveldi er innan ríkisstjórnar. Á Íslandi er ríkisstjórn þannig ekki fjölskipað stjórnvald heldur samráðsvettvangur ráðherra. Hlutverk forsætisráðherra er vandlega skilgreint í lögum og felst m.a. í fundastjórn og verkaskiptingu, hann hefur hinsvegar ekkert boðvald yfir öðrum ráðherrum. Í reynd kann hann auðvitað að hafa mikil ítök í öðrum ráðuneytum en það er þá pólitíkst áhrifavald en ekki réttur sem löggjafinn hefur veitt honum til stjórnunar eða upplýsingaöflunar.

Í þriðja lagi væru það forkastanleg vinnubrögð að ræða slíkt mál eingöngu við forsætisráðherra enda þótt allir ráðherrar ættu rétt á aðgangi að persónuupplýsingum úr gögnum sem eru til afgreiðslu hjá einstaka ráðuneyti. Í því tilviki hefði verið eðlilegra að kynna allri ríkisstjórninni gögnin.

Í fjórða lagi er forsætisráðherra í þessu tilviki augljóslega vanhæfur til þess að fjalla um málið eða koma nálægt afgreiðslu þess, þar sem um náinn aðstanda hans er að ræða. Það er því vandséð hvaða tilgangi það á að hafa þjónað að ræða þetta mál við hann „í trúnaði og án takmarkana“.

Grein Sigríðar Andersen er enn ein tilraun hennar til sannleiksförðunar. Ef marka má umræðuna á samfélagsmiðlunum er stór hluti þjóðarinnar búinn að fá meira en nóg af þessháttar samræðutaktík og af Sigríði sjállfri. Vonandi snýr hún sér nú að einhverju sem er henni betur lagið en lögskýringar og trúnaðarstörf.