Uppfært í júlí 2021:
Athugið að þessi pistill er frá árinu 2003 og síðan þá hafa nokkur nöfn verið samþykkt sem áður hafði verið hafnað og lög um kynrænt sjálfræði leiða einnig til breytinga. Það breytir þó engu um það að lögin eru stórgölluð og framkvæmd mannanafnanefndar mótsagnakennd.

☆☆☆

Markmið mannanafnalaga er að stuðla að því að Íslendingar beri nöfn sem falla að beygingar- og hljóðkerfinu, lúti almennum stafsetningarreglum og séu fólki sæmandi. Þegar listinn yfir leyfð mannanöfn er skoðaður kemur þó í ljós að undantekningarnar frá reglunum eru svo margar að reglurnar eru nánast ónothæfar. Við skulum líta á nokkur dæmi:

Tvöfaldur sérhljóði

Aage er leyft en Aaron ekki.
Aagot er leyft en Liisa ekki

Af þessum dæmum má ráða að nöfn rituð með tvöföldum sérhljóða, og borin fram samkvæmt hljóðreglum annarra tungumála, séu á einhvern hátt réttari, betri eða æskilegri ef þau koma kunnuglega fyrir sjónir (af því að einhverri ömmunni hefur dottið í hug að nota þau.)

Nöfn rituð án broddstafa

Adolf er leyft og Hugo en Adrian ekki.
Naomí og Naómí eru leyfð en Naomi ekki
Leon og Leó eru leyfð en Leo ekki.
Mary er leyft einnig kk nafnið Anthony en kvk nafnið Randy ekki
Liv og Lív eru bæði leyfð en Indiana ekki.

Af þessu má sjá að stundum má rita i í stað í en stundum ekki. Stundum má rita o í stað ó en stundum ekki. Rita má u í stað ú, allavega eru engin nýleg dæmi um að því hafi verið hafnað. Stundum má rita y í stað ý en stundum ekki. Blanda má saman íslenskri og erlendri stafsetninu í sama nafninu, a.m.k. stundum.

Nöfn sem enda á –e

Alice og Irene eru leyfð en Ariele ekki.
Elsie er leyft Stefanie ekki

Útlensk stafsetning virðist þannig vera leyfð ef við erum orðin nógu vön – ekki stafsetningunni sem slíkri, heldur nafninu stafsettu á tiltekinn hátt.

Nöfn rituð með samstöfunni –th

Anthony og Anthoníus eru leyfð en Anthon ekki.
Ruth er leyft en Grethe ekki.
Hertha er leyft en og Katharína ekki.
Thomas er leyft en kvk nafnið Theresa ekki

Af þessu má ráða að rithátturinn th í stað t eða þ er í lagi svo framarlega sem við höfum séð nafnið ritað á þann hátt nógu oft. (Nema það þyki fínna að bera nafnið Thorarensen en Katharína?).

Nöfn rituð með samstöfunni –ph

Sophus er leyft og Zophonías en Ralph ekki.

Hljóðlaust – h í nafni

Jósúa er leyft og Jochum en Jóshua ekki.

Nöfn rituð með útlensku bókstöfunum, c, z og q

Camilla er leyft en Carolina ekki.
Kk nafnið Carl er leyft en kvk nafnið Carla ekki.
Cecilia er leyft og Nansý er leyft en Nancy ekki.
Victoría er leyft en Veronica ekki.
Eric er leyft en Dominic ekki.
Franz er leyft, einnig Gizur og Zophonías en Baltazar ekki.
Ulrich er leyft og Jochum en Enrique ekki.

Það virðist samkvæmt þessu nokkurri tilviljun háð hvort íslensk mannanafnalög umbera bókstafinn c í nöfnum. C-ið virðist þannig álitið betra eða réttara ef amma var hrifin af því en ef ég er það sjálf. Það sama gildir um z. Útlenska samstafan –ch virðist líka teljast réttari á íslandi en t.d. q. Enn sem fyrr er niðurstaðan sú að útlensk stafsetning sé tæk ef við erum orðin henni vön.

Nöfn rituð með v í stað f eða öfugt

Bæði má rita Svava og Svafa.
Líf, Liv og Lív eru leyfð en Siv ekki.

Rökin?

Kk nöfn rituð með tvöföldu –r

Ævarr er leyft en Hávarr ekki.
Óttarr er leyft en Ísarr ekki.

Botnar einhver í þessu?

Önnur dæmi um óvenjulega stafsetningu nafna

Johan, John og Jóann eru leyfð en Jóhan ekki.
Axelma er leyft en Kæja ekki

Nöfn sem hafa óvenjulega beygingu

Jan, Dan, Jes eru leyfð en Ben ekki.
Bent og Berg eru leyfð en Bald ekki.
Kvk nafnið Edil er leyft en Apríl ekki.
Ástvin er leyft og Eðvald er leyft en Ástvald ekki.

Hér virðist gilda það sama og um stafsetninguna, amma ræður.

Samsett nöfn

Aðalborgar er leyft en Aðalbjörgvin ekki.
Jónþór er leyft en Heiðaringi ekki.
Annabella er leyft en Annalísa ekki

Rök? Nei,nei, þetta er bara svona.

Samsetningar með útlenskri stafsetningu

Marie leyft og Anne líka en Marieanne ekki.
Rósmary er leyft, Marie er leyft en Rosemarie ekki

Rök óskast.

Útlensk nöfn

Nadja er leyft en Yasmin ekki.
Charlotte er leyft en Jeanne ekki.
John er leyft en Ian ekki.

Ég reyni nú ekki einu sinni að skilja þessa speki.

Nöfn sem hæfa ekki því kyni sem um ræðir

Ekki má nefna stúlku “Blær”, þó er til kvk nafnið Ilmur sem einnig er til sem kk nafnorð.
Ekki má nefna stúlku “Örn” þótt það gæti auðveldlega fallið í sama beygingarflokk og Hörn sem er á skrá yfir leyfð kvk nöfn.
Ekki má nefna dreng “Gígja” þó er til kk nafnið Sturla sem er myndað og beygt eins og veik kvk nafnorð.

Hinsvegar má gefa börnum dýranöfn á borð við Geisli og Kolur og ævintýranafnið Mjallhvít er einnig á mannanafnaskrá.

Nöfn sem gætu orðið þeim sem þau bera til ama

Dýri, Fáfnir og Fenrir eru leyfð en Finngálkn ekki.
Kk nafnið Ljótur er leyft en kvk nafnið Satanía ekki.
Kk nafnið Engill er leyft, kvk nafnið Lúsía er leyft en kk nafnið Lusifer ekki.

Nafnið Finngálkn er reyndar hvorugkyns og því skiljanlegt að því hefði verið hafnað á þeirri forsendu fremur en hinni merkingarlegu. Sá fjöldi ljótra og vondra nafna sem eru á mannanafnaskrá bendir ekki til þess að mannanafnanefnd reyni almennt að hafa áhrif á smekkvísi fólks enda er það ekki hlutverk hennar. Þessi dæmi vekja hins vegar þá spurningu hvort trúarskoðanir meðlima nefndarinnar hafi áhrif á það hvort nafn er leyft eða bannað.

Mynd: Jercy Rhea Senecio, Pixabay