Liðsmenn Íslensku Þjóðfylkingarinnar hyggjast mótmæla viðtöku flóttamanna á Austurvelli kl 15 í dag. Boðað hefur verið til samstöðufundar með flóttafólki á sama stað og sama tíma undir slagorðinu Ekki í mínu nafni. Kvennablaðið tók Semu Erlu Serdar tali.
Hver stendur fyrir þessum samstöðufundi með flóttafólki? Er það óskilgreindur hópur sem tók sig saman af þessu tilefni eða er um skipulögð samtök að ræða?
Við sem boðum til þessa samstöðufundar erum ennþá bara óformlegur hópur sem hefur fylgst með þessum málum í þó nokkurn tíma, uppgangi öfgaafla, vaxandi útlendingaandúð og fordómum í garð minnihlutahópa, flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi. Flestir eru á því máli að nýju útlendingalögin séu skref í átt að betra kerfi sem heldur utan um málefni útlendinga þar sem mannúð og réttlæti eru í hávegum höfð en það er mikil breyting til góðs enda kerfið sem heldur utan um flóttafólk og hælisleitendur að mörgu leyti brotið og hefur ekki einblínt á slíka hluti.
Það er að mörgu leyti ótrúlegt að einstaklingar skuli setja sig upp á móti slíku en ljóst er af málflutningi þeirra sem standa að mótmælunum í dag að mótmælin beinast gegn fólki í neyð, sem er óskiljanlegt. Það er ekki í lagi að mótmæla fólki og okkur ber siðferðisleg skylda til þess að aðstoða fólk í neyð, karla, konur og börn, sama hvaðan þau koma eða hvað eða hvern þau eru að flýja. Við erum að horfa upp á fordæmalaust ástand, aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en í dag og það er ekki mál einstakra ríkja eða einstaklinga að leysa úr þessum vanda, heldur okkar allra. Við viljum þess vegna koma saman í dag og sýna samstöðu með flóttafólki og hælisleitendum á Íslandi og um allan heim og sýna að hingað séu þau velkomin og við munum taka vel á móti þeim.
Hefur þú áhyggjur af uppgangi Þjóðfylkingarinnar, heldurðu t.d. að sé líkegt að hún nái þingsæti?
Nei, ég tel ekki líklegt að sá félagsskapur muni ná inn á þing enda er mikill meirihluti Íslendinga sem hafnar hugmyndafræði eins og þessi hópur stendur fyrir. Við viljum flest öll að íslenskt samfélag verði áfram opið fjölmenningarsamfélag sem einkennist af umburðalyndi, jafnrétti, réttlæti og velferð fyrir alla. Það er hins vegar áhyggjuefni að félagsskapur sem elur á fordómum og ótta í garð minnihlutahópa í samfélaginu, vill mismuna fólki eftir uppruna, menningu, trúarskoðunum eða annarra hluta sem einkennir einstaklinga, sé að skjóta upp rótum hér og um alla Evrópu. Það er mikilvægt að við stöndum saman í baráttunni gegn slíkri hugmyndafræði og fyrir réttlátu og góðu samfélagi þar sem trúfrelsi, mannréttindi og grundvallarréttindi einstaklingsins eru virt.
Heldurðu að rasismi eigi greiðari leið inn í stjórnmálin nú en fyrir nokkrum áratugum eða er kannski meiri vakning og áhugi á fjölmenningarsamfélagi en áður?
Já, og nei. Vissulega eru vaxandi fordómar og þjóðernishyggja um alla Evrópu mikið áhyggjuefni og Ísland er engin undantekning þar á. Við höfum horft upp á stjórnmálamenn og fjölmiðla ala á ótta og sundrungu í samfélaginu í auknu mæli og samfélagsumræðan hefur harðnað til muna og það er mikilvægt að bregðast við því. Hatursáróður á aldrei að líðast og aldrei að fá að standa óáreittur. Það getur haft hrikalegar afleiðingar. Á tímum eins og þeim sem við lifum nú á, þar sem vaxandi fordómar og þjóðernisrembingur, andúð á innflytjendum og andúð á fjölmenningu fer vaxandi og er orðin ein af stærstu áskorunum nútímans, verðum við að taka afstöðu. Við verðum að taka afstöðu gegn hatri og öfgum. Við verðum að taka þessa afstöðu svo það verði ekki normið að hata fólk, að óttast fólk, að meiða fólk. Sem betur fer hefur á sama tíma orðið mikil vitundarvakning um þessi sundrungaröfl í samfélaginu og við erum flest öll sammála um að taka afstöðu gegn þessari þróun og því er ekki annað hægt en að vera bjartsýn á framtíðina.
Lítur þú á þessa fyrirhuguðu mótmælastöðu Þjóðfylkingarinnar sem hatursáróður?
Já, og það er óásættanlegt.