Viðtal við forsjárforeldri sem býr við foreldrafirringu
Þegar Stella sleit samvistum við eiginmann sinn 2014, taldi hún að skilnaður myndi þýða að bjartari tímar væru framundan. Það hvarflaði ekki að henni að hún ætti fyrir höndum margra ára baráttu við kerfið og því síður að dóttir hennar hyrfi algerlega úr lífi hennar.
Stella hefur nú ekki umgengist dóttur sína eðlilega frá því í janúar 2018 og ekki séð hana síðan í október 2018. Stella sagði Kvennablaðinu sögu sína en dóttur sinnar vegna vill hún ekki koma fram undir réttu nafni.
Hélt fyrst að erfiðleikarnir væru tímabundnir
Þegar þú skilur við barnsföður þinn, árið 2014, var þá ágreiningur um umgengi frá upphafi eða komu þau vandamál til síðar?
Faðirinn var á sjó og við vorum frá upphafi sammála um að forsjá yrði sameiginleg og lögheimilið hjá mér. Það höfðu verið erfiðleikar í hjónabandinu vegna stjórnunaráráttu mannsins, einstrengislegra viðhorfa hans og framkomu við mig og börnin. Hann bað fljótlega um að sýslumaður myndi úrskurða um meðlag og við töluðum aðallega saman í gegnum lögfræðinga en ég hélt samt að þegar væri komin niðurstaða um umgengni, meðlag og annað, þá myndu samskipti okkar beggja og barnanna falla í eðlilegar skorður.
Sonur okkar segir í dag að sér finnist óeðlilegt að leggja þá ábyrgð á 15 ára börn að ráða því hvernig umgengni er háttað.
Við eigum tvö börn saman og ég átti einn strák strák fyrir. Það er yngsta barnið, stúlka fædd 2006, sem styrinn stendur um núna. Sonur okkar var í 10. bekk þegar við skildum og skv. úrskurði sýslumanns var talið eðlilegt að hann mætti bara ráða umgengninni sjálfur. Sonur okkar segir í dag að sér finnist óeðlilegt að leggja þá ábyrgð á 15 ára börn og veltir fyrir sér af hverju það teljist vera eðlilegt, sérstaklega þegar börn taka upp á að vilja ekki vera í samskiptum við annað foreldrið.
Þannig að þau búa bæði hjá þér til að byrja með, en hvernig var umgengni við föður þeirra þá háttað?
Sonur okkar fór nú ekki til föður síns nema nokkrum sinnum neðan skilnaðarferlið var í gangi. Samkvæmt sýslumannsúrskurði átti dóttir okkar að vera hjá föður aðra hverja viku frá fimmtudegi til mánudags, sumarfríum skipt jafnt og eins skipst á um jól og áramót. Þar sem faðirinn var á sjó þá varð raunveruleg umgengni minni en úrskurðurinn hljóðaði upp á.
Þú segir að drengurinn hafi ekki farið til pabba síns nema í nokkur skipti eftir skilnaðinn, hvernig stóð á því?
Það hafði gengið á ýmsu áður en við skildum. Faðirinn var óeðlilega harður við elsta son minn, sem ég átti fyrir, og kom fyrir að hann beitti hann ofbeldi og ofríki. Sonur okkar hafði horft upp á það og fannst faðir sinn koma illa fram við bróðurinn.
Þegar á þessu skilnaðarferli stendur þá sárnar syni okkar það líka hvað faðir hans talar illa um mig við hann. Faðirinn hæðist að mér fyrir að hafa ekki sömu fjárráð og hann. Hann hæðist að drengnum fyrir að virða sjálfsagðar reglur eins og t.d. að láta vita af sér ef hann kæmi ekki heim á þeim tíma sem ég átti von á honum. Sonur okkar varð einnig vitni að því þegar faðir hans kom heim til okkar – að skila dóttur okkar úr umgengni – og öskraði á mig. Einnig var lögreglan kölluð þrisvar sinnum að heimili okkar á þessum tíma þegar faðirinn var að raska heimilisfriði á mínu heimili.
Klippt á samskipti móður og dóttur
Faðirinn er í fyrstu minna með stúlkuna en úrskurðurinn gerði ráð fyrir, hvernig breyttist það?
Við bjuggum úti á landi en ég flyt svo suður um mitt ár 2015. Þar með eru forsendurnar fyrir umgengni frá fimmtudegi til mánudags, aðra hverja viku, brostnar og ég vildi bara semja um umgengni sem hentaði skólagöngu dóttur okkar betur. En í stað þess að semja um annað fyrirkomulag þá tekur maðurinn dóttur okkar úr skólanum fimmtudag og föstudag aðra hverja viku – þegar hann var í landi.
En í stað þess að semja um annað fyrirkomulag þá tekur maðurinn dóttur okkar úr skólanum fimmtudag og föstudag aðra hverja viku – þegar hann var í landi.
Hann sá ekki til þess að stúlkan fylgdi skólafélögum sínum í náminu. Það var bara mitt mál að láta hana vinna upp það sem hún missti úr. Einnig tók hann barnið úr skólanum um jól þannig að hún missir af jólaballi skólans tvenn jól og hann leyfði henni aldrei að taka þátt í íþróttakeppnum eða gistinóttum þegar hans helgi var. Hann fór líka að skemma fyrir henni þegar hún tók þátt í tómstundum sem hann taldi vera „mínar“ tómstundir og eitra hug hennar gagnvart þeim áhugamálum. Svona atriði valda spennu inni á heimilinu.
Svo varð það úr að faðirinn flytur í sama bæjarfélag og við og þá fer maðurinn að birtast í skólanum á skólatíma þegar honum hentar og taka dóttur okkar án þess að láta mig vita, eða láta mig vita eftirá. Það kom fyrir að hann tók hana með sér norður yfir helgi þegar hún átti að vera hjá mér, án samráðs við mig. Auðvitað var ég ekkert sátt við þessa framkomu.
Nýr umgengnisúrskurður kemur vorið 2016 og samkvæmt honum átti faðirinn að fá umgengni aðra hverja helgi, öll vetrarfrí og páskaleyfi. Maðurinn sýnir engan sáttavilja, áfrýjar öllum úrskurðum til Innanríkisráðuneytisins og höfðar svo forsjármál haustið 2017.
Dóttir okkar kemur svo ekki heim eftir umgengni um áramótin 2017/2018.
Eftir að forsjármálið hófst þá versnaði hegðun hans gagnvart umgengnissamningi sýslumanns og hann virtist leika sér að því að brjóta hann, enda engin viðurlög við því. Ég fæ loks lögskilnað í nóvember 2017, eftir þrjú ár, og í byrjun desember 2017 er hann búinn að skrá sig í sambúð. Dóttir okkar kemur svo ekki heim eftir umgengni um áramótin 2017/2018.
Sambýliskona hans hefur enn í dag ekki hitt mig, né syni okkar og hún virðist hafa tekið virkan þátt í að skila dóttur minni ekki heim. Faðirinn er enn á sjó og þá er dóttir mín langdvölum í umsjá þessarar ókunnugu konu.
Hvaða skýringar fékkstu á því þegar dóttir þín kom ekki heim eftir áramótin?
Bara þá að hún vildi ekki koma heim því ég væri svo vond við hana og væri alltaf að skamma hana. Þetta kom mér algerlega í opna skjöldu því dóttir mín hafði látið mjög skýrt í ljós í viðtölum hjá fagfólki vegna forsjármálsins, að hún vildi jafna umgengni við mig og föður sinn. Sú skýrsla kom út í desember 2017. Það er eins og þessi niðurstaða hafi ekki hentað föðurnum sem rænir barninu nokkrum dögum seinna.
Þetta viðhorf hennar sýst ekki einvörðungu um mig, stúlkan vill heldur ekki tala við bræður sína eða neinn annan í fjölskyldunni minni, hvorki afa sinn eða ömmu eða frænkur sínar sem eru á sama aldri og hún. Ég trúi ekki að hún hafi tekið það upp hjá sjálfri sér.
Reyndirðu að tala við stúlkuna og fá hana heim?
Þegar ég reyndi að hringja var skellt á. Ég gat ekki séð hana á Facebook og ekki sent henni tölvupóst og þannig hefur þetta verið síðan. Það var klippt á allar samskiptaleiðir.
Faðir hennar rændi henni ekki bara þessi áramót, heldur hættir hún líka að mæta í skólann. Dóttir mín var því einangruð í rúma þrjá mánuði frá mér, bræðrum sínum, minni fjölskyldu, vinum, kennurum og öllum sem þekktu hana vel.
Kerfið úrræðalaust
Hvert er hægt að leita í svona aðstöðu?
Ég sneri mér til barnaverndarnefndar. Málið var þegar hjá barnaverndarnefnd í mínu bæjarfélagi en faðirinn var fluttur í nærliggjandi bæjarfélag. Hún kom heim eina viku í janúar og var þá fyrst eins og á varðbergi gagnvart okkur en fór svo að slaka á og ég vonaði að það yrðu ekki frekari vandræði. Svo fer hún aftur til föður síns og kom ekkert heim eftir það. Og ekkert hægt að gera í því.
Mér var sagt að umgengnisforeldri gæti ekki tálmað umgengni. Það er eins og kerfið geri ráð fyrir því að það sé bara vonda lögheimilismamman sem geti komið í veg fyrir samskipi.
Sýslumaður, barnavernd og dómstólar eru úrræðalaus þegar svona mál koma upp. Ég velti alveg fyrir mér neyðarúrræðum eins og að fá aðstoð barnaverndar og lögreglu til að sækja hana. Maður vill auðvitað komast hjá því en ég spurði út í það. Mér var sagt að umgengnisforeldri gæti ekki tálmað umgengni. Það er eins og kerfið geri ráð fyrir því að það sé bara vonda lögheimilismamman sem geti komið í veg fyrir samskipi.
Fólk vill trúa að kerfin virki og margir eiga erfitt með að skilja hvað er að gerast í mínu máli. Það bætir ekkert hvað biðin eftir lausnum hjá sýslumanni er löng og mjög slæmt að þegar tálmanir byrja þá skuli ekki vera hægt að grípa inn í strax. Það er hægt að vera með mál hangandi í kerfinu mánuðum og árum saman – hjá sýslumanni og dómstólum – og það er ekki unnið að því að laga samskipti við börnin meðan beðið er.
Faðirinn viðurkenndi að hafa sagt dóttur okkar inntak samkomulagsins sjálfur og sagði að hún hefði farið að gráta og hringt sjálf í neyðarlínuna
Í febrúar 2018 er svo gert bráðabirgðasamkomulag um umgengni fyrir dómi en faðirinn stóð aldrei við það samkomulag. Þá er dóttir okkar 11 ára að verða 12 ára. Við foreldrarnir samþykktum líka að við myndum hittast öll saman ásamt dóttur okkar og lögfræðingum og kynna dóttur okkar þetta fyrirkomulag í sameiningu. En það stóð faðirinn ekki við. Þegar sá fundur átti að fara fram kom hún ekki með honum. Á fundinum viðurkenndi hann svo að hafa sagt dóttur okkar inntak samkomulagsins sjálfur og sagði að hún hefði farið að gráta og hringt sjálf í neyðarlínuna. Þannig að faðirinn setur þetta samkomulag okkar í uppnám án þess að hafi reynt á það. Hann viðurkenndi líka að hafa lesið tölvupósta milli lögmanna okkar fyrir dóttur okkar, sem var að verða 12 ára.
Heldurðu að hún hafi í alvöru hringt í neyðarlínuna?
Hún gerði það en ég trúi ekki að henni hafi dottið það í hug sjálfri. Það er til skýrsla frá neyðarlínunni og þar kemur fram að hún sé grátandi og vilji ekki fara í skólann því hún sé hrædd um að mamma sín sæki sig.
En það kemur líka fram í skýrslunni að starfsmaður neyðarlínunnar ræddi líka við föðurinn í sama símtali sem bendir til að hann hafi verið á staðnum allt símtalið og fylgst með því sem dóttir okkar sagði.
Hvaða barn hringir í neyðarlínuna með svona erindi af eigin frumkvæði?
Þarna segist hún ekki vilja fara í skólann og hefur þá verið frá skóla í einhverjar vikur, hvernig fór það?
Í mars er mál okkar komið til barnaverndar því barnið var ekki að mæta í skóla. Barnavernd leggur til áætlun í málinu þar sem stefnt var að því að dóttir okkar færi í skóla í bæjarfélagi föður, að komið yrði á samskiptum milli mín og dóttur minnar með fjölskylduráðgjafa, að við foreldrarnir mættum í viðtöl til barnaverndarstarfsmanns og að faðirinn færi í viðtöl hjá Heimilisfriði. Barnið yrði svo í jafnri umgengni við okkur foreldrana. Við skrifuðum bæði undir og ég vonaði svo heitt og innilega að þetta fyrirkomulag myndi ganga upp og ég færi að fá að hitta dóttur mína aftur.
Þarna er forsjármál komið í gang og ég útilokuð frá samskiptum við dóttur mína. Hann kom henni á endanum í skóla eftir meira en tveggja mánaða fjarveru og ég hafði samband við skólann. Ég fór ekki þá leið að birtast á skólalóðinni heldur gerði ég boð á undan mér og ræddi við kennara og skólastjóra. Ég hef algerlega farið eftir þeirra tilmælum eins og kemur fram í gögnum málsins en þetta var eina leiðin sem ég sá.
Þarna um vorið 2018 stendur dómsmál fyrir dyrum og ég fór fram á forsjárhæfnimat. Niðurstaðan úr því er í stuttu máli sú að ég er hæft foreldri og ekkert var sett út á mig. Það var sett mikið út á föður, m.a. fyrir að setja dóttur okkar í hollustuklemmu og láta hana þurfa að velja á milli foreldra.
Eru konur, mæður, ömmur, frænkur og systur svona vondar?Það má með sanni segja að ég skammist mín fyrir þær rúmlega 100 konur sem skrifa áskorun til þingmanna um að hafna frumvarpi sem gerir ólögmæta tálmun refsiverða.
Tilraun til að koma á samskiptum
Þannig að samkomulag um umgengni gekk ekki eftir, hvað leið þá langur tími þar til þú hittir barnið?
Dómurinn var í september 2018 og þá hafði ég ekki hitt dóttur mína í níu mánuði. Við gerum dómsátt en ég hef alltaf lagt áherslu á sættir. Samkvæmt þeirri dómsátt áttum ég og dóttir mín að fá aðstoð frá listmeðferðarfræðingi til að koma á eðlilegum samskiptum. Það var að ósk föður sem listmeðferðarfræðingur var fenginn. Dóttir okkar átti svo að hafa lögheimili hjá honum og jafna umgengni við okkur, viku og viku í senn „enda standi vilji barnsins til þess“. Ég skildi þessa klausu þannig að það væri viðurkennt að þetta væri vilji barnsins enda vissi ég að sú afstaða hennar að vilja engin samskipti væri ekki frá henni komin.
Ég hitti dóttur mína svo eftir allan þennan tíma í október 2018. Við hittumst tvisvar með listmeðferðarfræðingnum og það gekk betur en ég hafði þorað að vona. Í þriðja skiptið átti stúlkan að koma með listmeðferðarfræðingnum heim til mín og hún hafði viljað það.
Nokkru áður en hún átti að koma til mín fór faðirinn stöðugt að senda tölvupósta og skipa mér að afhenda hluti, bæði dót sem stúlkan átti og hluti í minni eigu. Ég fékk ráðleggingar um að svara þessu ekki. Listmeðferðarfræðingurinnn hefur svo samband og segir mér dóttir mín hafi komið til sín og sagt hún vildi aldrei hitta mig aftur – af því bara.
Dóttir mín hefur sagt við sálfræðing að hún eigi engar góðar minningar um mig. Bara ekki eina einustu.
Ég fæ engar trúverðugar skýringar á þessu. Dóttir mín hefur sagt við sálfræðing að hún eigi engar góðar minningar um mig. Bara ekki eina einustu. Þetta stenst auðvitað ekki. Hún bjó hjá mér í tæp 12 ár og það trúir því enginn sem til þekkir að hún eigi engar góðar minningar frá bernskuheimili sínu. Það er svona sem hollustuklemma virkar. Það hægt að rugla börn svo í ríminu að þau forðist algerlega samskipti við annað foreldrið.
Þetta er í október 2018 og ég hef ekki séð dóttur mína síðan. Hún á að vera að fermast núna.
Þannig að dómsáttin gagnaðist ekkert?
Nei. Faðirinn hefur ekki staðið við dómsáttina frekar en annað. Hann ber fyrir sig að vilji barnsins standi ekki til þess að farið sé eftir henni – eins og þessi klausa sé hugsuð þannig að barnið hafi neitunarvald. Ég er í raun verr sett eftir þessa dómsátt því lögheimilið er komið til hans og hann reynir markvisst að eyða mér, bræðrum hennar og minni fjölskyldu úr lífi dóttur minnar og hún er látin segja að sambýliskona föður sé mamman og hennar fjölskylda sé sín fjölskylda.
Þú nefndir að þú hefðir verið í samskiptum við skólann, hefur eitthvað komið út úr því?
Ég er ánægð með samskiptin við skólann en þau geta bara svo lítið beitt sér í svona málum. Ég hef farið með afmælis- og jólagjafir í skólann, bara til að vera viss um að dóttir mín viti af gjöfunum. Kennarinn hefur látið hana vita af því að hún ætti pakka frá mér en dóttir mín segist þurfa að fara heim og „hugsa málið“. Næsta dag afþakkar hún svo gjafirnar.
Ógn og áreitni
Samkvæmt gögnum málsins lítur út fyrir að það hafi ýmislegt gengið á eftir að þið skilduð og að það hafi kannski ekki eingöngu verið af hálfu föðurins. Faðirinn talar um að þú hafir sent sér fingurinn þegar hann var að koma heim með barnið og stúlkan segir að þú hafir talað illa um hann, klippt hann út af ljósmyndum og sakað hana um að svíkja þig þegar hún vildi vera hjá pabba sínum. Er þetta rétt?
Auðvitað hef ég sýnt reiði. Það tekur á allt venjulegt fólk að búa við stöðuga áreitni og ógnandi framkomu. Maðurinn var ekki bara að hringja og ryðjast inn á heimilið óboðinn og öskra heldur sýndi líka undarlega framkomu gagnvart syni okkar. Hann heilsaði ekki syni sínum þegar hann kom í skólanum til að sækja dóttur okkar. Hann hefur ekki verið í neinum samskiptum við elsta drenginn (sem ég átti áður en við kynntumst) og heldur ekki hinn drenginn, sem við eigum bæði líffræðilega en synir okkar vildu og reyndu ítrekað að hafa samskipti við hann eftir skilnað.
Í nokkur skipti kom dóttir mín ekki heim með flugvélinni sem hún átti að koma heim með. Ég fór á flugvöllinn að sækja hana en þar var ekkert barn.
Það tók líka á þegar hann tók dóttur okkar úr skóla án þess að láta mig vita og ég var að leita að henni. Það gerðist ítrekað. Í nokkur skipti kom dóttir mín ekki heim með flugvélinni sem hún átti að koma heim með. Ég fór á flugvöllinn að sækja hana en þar var ekkert barn. Starfsfólk flugstöðvarinnar fer að leita að henni, skoða hvort hún hafi verið send með vélinni, þá var skýringin sú að faðirínn hafði upp á eigið eindæmi ákveðið að senda dóttur okkar ekki heim, og ekkert að hafa fyrir því að láta mig vita. Næsta dag komu hótanir um að ef ég borgaði ekki flugfarið fyrir dóttur okkar heim þá bara kæmi hún ekki.
Barn á auðvitað aldrei að taka ábyrgð á vanrækslu föður en það er enginn sem ráðleggur manni hvernig maður á að takast á við svona aðstæður.
Það er erfitt fyrir barn þegar faðir þess býr til svona aðstæður og það verður til þess að allir eru í tilfinningalegu uppnámi. Ég sagði dóttur minni að ég hefði verið að leita að henni og hefði ekki vitað hvar hún væri. Barn á auðvitað aldrei að taka ábyrgð á vanrækslu föður en það er enginn sem ráðleggur manni hvernig maður á að takast á við svona aðstæður.
Mér finnst undarlegt miðað við allt sem hefur gengið á að þessi atriði þar sem mér hefur orðið eitthvað á séu dóttur minni minnistæðust. Ég óttast að faðir hennar minni hana endalaust á svona atvik eins og hann ýti á „replay“.
Og þetta með myndirnar – já ég klippti brúðkaupsmynd af okkur, eftir atvik þegar hann hafði öskrað á mig og son okkar og neitað að taka við jólagjöf sem ég og drengurinn höfðum keypt handa honum, aðrar myndir eru heilar. Mér finnst undarlegt miðað við allt sem hefur gengið á, þegar faðirinn hefur orðið valdur að því að þrisvar sinnum var kölluð til lögregla á okkar heimili, þegar faðirinn réðst á mig og dóttur okkar í biðstofu á læknastofu og í skóla dóttur okkar, að þessi atriði þar sem mér hefur orðið eitthvað á séu dóttur minni minnistæðust. Ég óttast að faðir hennar minni hana endalaust á svona atvik eins og hann ýti á „replay“.
Dóttir mín kvartar um að ég hafi skammað hana. Ég kannast alveg við að hafa tuðað í henni og sett henni mörk. Það er bara venjuleg manneskja að reyna að vera foreldri.
Það er einfaldlega ekkert sem réttlætir það að faðir dóttur minnar láti hana slíta öllu sambandi við mig, bræður sína og alla mína móðurfjölskyldu og vini mína. Ég tel að faðirinn hafi átt stærstan þátt í því að skapa togstreitu kringum umgengni við dóttur okkar og þannig valdið bæði henni og mér vanliðan. Hann stendur aldrei við samkomulög og skellir skuldinni á barnið – frá því hún er 11 ára gömul.
Foreldri hefur ekki leyfi til að gefa upp voninaForsagan er sú að í kjölfar erfiðs skilnaðar 2013 missi ég, og reyndar öll fjölskylda mín, sambandið við tvær dætra minna. Við höfðum aldrei kynnst neinu svona og það virtist alveg sama hvað var reynt, öllum samskiptum var hafnað og það er enn þannig þótt þær séu orðnar fullorðnar.
Ekki hægt að sættast ef enginn vilji er hjá öðrum aðilanum
Síðustu árin hefur heyrst töluvert frá feðrahreyfingum og maður hefur kannski þá mynd af erfiðum umgengnisdeilum að það sé mamman sem heldur barninu frá pabbanum. Heldurðu að það sé jafn algengt að það sé á hinn veginn?
Jájá, ég er ekkert ein. Ég hélt fyrst að ég væri eina móðirin í þessari stöðu og ég skammaðist mín svakalega mikið. Margir telja að ef barn sé ekki hjá móður sé eitthvað verulega alvarlegt að móðurinni. En staðreyndin er að margar konur eru í minni stöðu en þær hafa ekki látið mikið á sér beta. Kannski vegna úreltra hugmynda fólks um mæður án barna sinna.
En hvernig fer maður að því þegar hinn aðilinn vill engar sættir, mætir ekki á fundi og stendur ekki við neitt?
Ég hef ítrekað þurft að kalla til lögreglu vegna hegðunar föðurins. Ég fékk á þessu tímabili ítrekað þau skilaboð frá „sérfræðingum“ að ég og faðirinn ættum að hætta að rífast og haga okkur eins og fullorðið fólk og ná sáttum. En hvernig fer maður að því þegar hinn aðilinn vill engar sættir, mætir ekki á fundi og stendur ekki við neitt?
Gerirðu þér vonir um eðlilegt samband við dóttur þína aftur?
Já. Ég veit hversu gott samband ég og dóttir mín áttum og ég veit hversu vænt henni þótti um bræður sína og hversu mikið hún leit upp til þeirra. Ég veit að þessi staða er ekki frá dóttur minni komin. Ég þekki föður hennar og orðin sem hann notar og skaplyndi hans. Ég þekki hans orð þegar þau koma úr munni dóttur minnar.
Ég veit líka að hvaða mann dóttir mín hefur að geyma og ég veit að okkar leiðir liggja saman aftur. Einhversstaðar einhverntíma aftur.
Blaðamaður hefur undir höndum umsagnir sérfræðinga sem telja að þegar dóttir Stellu hafnaði samskiptum við móður sína hafi hún verið undir áhrifavaldi föður síns. Einnig sýna gögn málsins að hann hefur beitt langvarandi umgengnistálmunum og vanrækt skólaskyldu barnsins.