Breytt viðmið

Fyrir aðeins tveimur áratugum var áfallastreituröskun talin sjaldgæf geðröskun. Mjög alvarleg röskun sem einkenndi helst fólk sem hefði verið á stríðssvæðum eða hamfarasvæðum, orðið fyrir alvarlegum líkamsárásum eða slysum eða lent í öðrum skelfilegum aðstæðum þar sem það hafði ástæðu til að óttast um líf sitt eða einhverra sér nákomna. Og reyndar var aðeins lítill hluti þeirra sem urðu fyrir þungum áföllum greindur með geðröskun – enda fá sennilega flestir einhver einkenni áfallastreitu einhverntíma á ævinni. Það taldist ekki „röskun“ nema einkennin væru langvarandi og yllu sjúklingnum slíkum þjáningum að það bitnaði á hæfni hans til að lifa eðlilegu lífi og fúnkera eðlilega í vinnu og samskiptum.

Núorðið virðist ekki þurfa annað en að fólk verði fyrir einhverri óþægilegri upplfun til þess að greinast með þennan alvarlega geðsjúkdóm. Fyrst myndir, hljóð og texti fara svona illa með starfsfólk samfélagsmiðla, hvernig líður þá þeim sem þurfa að kjást við blákaldan veruleikann? Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort heilu starfstéttirnar séu yfirhöfuð vinnufærar. Hvað með lækna og hjúkrunarfólk, sjúkraflutningamenn, lögreglumenn, saksóknara, lögmenn sem koma að sakamálum, sálfræðinga, presta og aðra sem sinna sálgæslu, fólk sem sinnir fíklum, heimilislausum, barnaverndarmálum og fórnarlömbum heimilisofbeldis, starfsfólk dýraathvarfa o.s.frv. o.s.frv.? Er ekki bara frekar sjaldgæft að þetta fólk sé nokkurnveginn heilt á geði?

Sjúkdómsvæðing tilfinninga

Með fullri virðingu fyrir geðveikum; það er ekki geðröskun að verða óglatt, fá grátkast, martröð eða þrengsli í hálsinn við það að sjá myndband af nauðgun, sjálfsvígi, dýrapyntingum eða öðrum hryllingi. Það gæti frekar talist sjúklegt að verða ekki fyrir áhrifum af slíku. Og fólk sem er of viðkvæmt til að þola það á auðvitað ekki að vinna við að skoða og meta efni af því tagi.

Það er ekkert nýtt að orð missi merkingu sína. Og það hefur gerst hér. Það er heldur ekkert nýtt að eðlilegar tilfinningar séu sjúkdómsvæddar og það hefur líka gerst hér. Áfallastreituröskun spannar nú allt frá alvarlegum þjáningum sem gera fólk óhæft til að lifa eðlilegu lífi og yfir í eðlileg viðbrögð við óþægilegum tilfinningum sem allir þurfa einhverntíma að takast á við. Facebook gengur nú skrefinu lengra með því að greiða miskabætur fyrir „áfallastreituröskun“ þegar eðlilegt hefði verið að bjóða óþægindaálag, eða andlegt óþrifaálag. Þar með hefur orðið áfallastreituröskun endanlega misst merkingu sína.

Mynd: © Wavebreakmedia Ltd | Dreamstime.com