Þegar við fluttum inn fyrir meira en ári var okkur sagt að það yrði skipt um eldhússinnréttingu „fljótlega“ en það hefur dregist. Nú er búið að kaupa hana og hún hefur verið í geymslunni okkar í 4 vikur og teppir aðgang að útilegubúnaði og öðru sem við þurfum að komast í. Við samþykktum að geyma hana þar í nokkra daga. Í fyrradag var gamla innréttingin rifin burt og þá komu í ljós rakaskemmdir svo þetta verður flóknara en við héldum. Í gær voru iðnaðarmenn valsandi hér inn og út allan daginn, unnu í 90 mín, fóru svo og komu aftur. Það getur enginn sagt okkur hversu lengi við verðum eldhússlaus. Eigum við einhvern rétt eða verðum við bara að sætta okkur við þetta?

☆☆☆

Það er auðvitað ekki eðlilegt að leigusali taki pláss í geymslunni ykkar svona lengi. Þú átt að sjálfsögðu rétt á að hafa eðileg not af því plássi sem þú borgar fyrir. En það er því miður ekkert sérstakt ákvæði í lögum sem tæklar svona vesen sem er að einhverju leyti hægt að skrifa á ófyrirsjáanlega þörf á framkvæmdum.

Ég myndi í þínum sporum fara fram á afslátt af leigu vegna þess hve lengi hefur dregist að setja upp nýja innréttingu. Bentu þá á 3. mgr. 17. gr. húsaleigulaga:

Leigjandi á kröfu til hlutfallslegrar lækkunar á leigu meðan eigi hefur verið bætt úr annmörkum á hinu leigða húsnæði.

Það er sennilega lítið annað hægt að gera ef leigusalinn gat ekki séð það fyrir að viðgerðir þyrfti en hann hefði vitanlega átt að hefja framkvæmdir fyrr. Það gæti allavega virkað sem þrýstingur á um að þessu ljúki á eins skömmum tíma og mögulegt er.

Smellið hér til að skoða Facebooksíðu Hlítar

Þú átt rétt á því að hafa aðgang að eldhúsi og leigusalinn ber ábyrgð á því, það er hann sem á að díla við iðnaðarmennina. Ef viðgerð dregst óeðlilega vegna seinagangs hjá iðnaðarmönnum að því marki að þú teljir um vanefnd á samningi að ræða af hálfu leigusala þá geturðu í versta falli haldið eftir hluta af leigunni. Ég myndi ekki mæla með þvi nema sem þrautaráði, því ef færi í hart og þú tapaðir dómsmáli þá þyrftirðu að greiða vexti af þeirri fjárhæð sem haldið er eftir. Þú getur samt nefnt þann möguleika ef þú færð loðin svör eða leiðindi.