Felur fjölmiðlafrelsi það í sér að blaðamenn megi birta það sem einstaklingar segja á samfélagsmiðlum, án leyfis? Hvað með persónuvernd og hvað með höfundarétt?

☆☆☆

Eðlilega finnst mörgum það ergilegt þegar fréttamenn búa til smellbeitur með því að hafa eftir eitthvað persónulegt, eða eitthvað nauðaómerkilegt, sem einhver segir á samfélagsmiðlum, stundum jafnvel óformlega og kannski án mikillar umhugsunar á spjallþræði. En samfélagsmiðlar eru opinber vettvangur og það sem fólk segir og gerir á opinberum vettvangi er almennt leyfilegt að birta annarsstaðar, hvort heldur er með því að deila innlegginu áfram eða afrita það og birta í fjölmiðlum eða annarsstaðar. Fjölmiðlafrelsi er mikilvægt í lýðræðisríki og felur það m.a. í sér að blaðamenn geta sagt frá því sem menn ræða sín á Klausturbarnum ef almennir borgarar heyra á tal þeirra, og þess þá heldur það sem öllum er aðgengilegt á netinu.

Persónuverndarsjónarmið

Persónuverndarsjónarmið eiga ekki við þegar fólk birtir að eigin vali upplýsingar um sig á netinu. Aftur á móti getur reynt á þau þegar fólk birtir viðkvæmar upplýsingar um aðra. Sem dæmi má nefna þegar einhver kvartar undan opinberri þjónustu og talar um bróður sinn, dóttur eða annan nákominn sem hafi ekki fengið viðeigandi heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Þar er kannski sagt frá geðrænum vandamálum, afbrotaferli og vímuefnaneyslu. Fólk gerir þetta kannski alveg ómeðvitað um að það sé að brjóta gegn friðhelgi þess sem um er fjallað. Ef blaðamenn taka slíka umfjöllun upp eru þeir að brjóta gegn þeim sem um er rætt en ekki þeim sem birtir færsluna.

Skoðanir og almennt spjall

Hvað höfundarétt varðar þá njóta skoðanir, t.d. á samfélagmálum eða menningu, ekki höfundaréttar og það sem fræga fólkið segir um einkalíf sitt ekki heldur. Fjölmiðlar mega segja frá því að ráðherra hafi lýst skoðun sinni á skipulagsmálum á Facebook eða birt mynd af nýja gasgrillinu sínu á Instagram. Helsta reglan sem um slíkt gildir er er sú að beinar tilvitnanir skuli auðkenna. Algengast er að það sé gert með gæsalöppum.

Blaðamenn eru aftur á móti komnir á grátt svæði þegar þeir birta langar færslur orðrátt, án leyfis, á miðlum sem reknir eru í hagnaðarskyni. Sá ósiður tíðkast að taka langar umfjallanir, jafnvel frásagnir sem hafa skáldskapargildi eða greinandi umfjöllun sem pistlahöfundar hafa lagt vinnu í, og birta þær í nokkrum bútum sem settir eru í gæsalappir. Blaðamaðurinn skýtur svo inn á milli gjörsamlega innihaldslausum setningum á borð við; „einnig gagnrýnir Kristján aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar:“ – og svo ný 12 lína tilvitnun, eða bara; „þá segir Kristján;“ – og enn ein tilvitnunin.

Þetta er engin úrvinnsla heldur fljótleg aðferð fyrir lata blaðamenn til að ná sér í efni. Ólíkt því þegar blaðamaður leggur út af ummælum og tengir þau við atvik sem hafa fréttagildi eða gerir grein fyrir umræðu á netinu um tiltekin mál og vinnur þá úr ummælum nokkurra netverja og setur þau í samhengi, eru þessar pistlabirtingar í gæsalöppum hreinn og klár ritstuldur, sama eðlis og ef fjölmiðill myndi birta ljósmyndaseríu án leyfis.

Hvernig er hægt að bregðast við

Úrvinnslulaus brting á heilu pislunum er brot á ákvæðum höfundaréttarlaga og getur varðað sektum. Einnig getur þessi sníkjufréttamennsa verið bótaskyld. Ég veit þó ekki til þess að á það hafi reynt fyrir dómi.

Það er kannski ekki við því að búast að pistlahöfunar leggi í málaferli vegna birtingar á því sem þeir segja á netinu. Til þess að fá bætur yrði höfundur að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni eða miska. Þar sem ekki tíðkast að selja texta sem fólk birtir á samfélagsmiðlum er sjaldan líklegt að fólk sem birtir frásögn úr hversdagslífinu eða skoðanapistla á samfélagsmiðli eða bloggsíðu verði fyrir fjártjóni vegna áhuga fjölmiðla. Hitt er reyndar sennilegra að þegar skrif fá meiri dreifingu auki það tekjumöguleika höfundar ef eitthvað er. Það sama má að sjálfsögðu segja um tónlistarmenn. Engu að síður greiða fjölmiðlar stefgjöld fyrir þá tónlist sem þeir spila. Kannski ættu pistlahöfundar og aðrir sem oft birta langar færslur á samfélagsmiðlum að stofna hagsmunasamtök á borð við STEF til að innheimta gjöld fyrir birtingu skrifa.

Mynd © Pressureua | Dreamstime.com