Hvað er hægt að gera ef maður lendir í svikara á netinu? Maður sem stendur mér nálægt lenti í ástarbréfasvindli fyrir rúmum þrem árum. Hann hélt að hann væri kominn með kærustu í öðru landi og fór að senda henni peninga. Hann átti áreiðanlega að sjá í gegnum þetta en þegar hann áttaði sig var hann búinn að senda helling af pening í gegnum Western Union. Hann skammaðist sín og sagði engum frá þessu svo það er fyrst núna sem fjölskyldan veit af þessu. Þýðir eitthvað að kæra þetta til löggunnar eða er þeim alveg sama? Er hægt að fá lögfræðing í svona málum?

☆☆☆

1 Þýðir eitthvað að leita til löggunnar?

Venjulega hefur takmarkaða þýðingu að leita til lögreglunnar á Íslandi vegna glæpa sem framdir eru erlendis og af fólki sem ekki er íslenskir ríkisborgarar. Það þýðir ekki endilega að lögreglunni sé sama en íslenska lögreglan hefur ekki heimild til að rannsaka mál sem heyra undir önnur ríki og því þurfa brotaþolar venjulega að leggja fram kæru þar sem brotið var gegn þeim. Þar sem hér er sennilega um að ræða skipulagða glæpastarfsemi sem fer fram í gengum internetið horfir málið þó aðeins öðruvísi við því lögregluyfirvöld hafa alþjóðlegt samstarf um að taka á slíkum glæpum og vara við þeim.

Það er satt að segja ekki líklegt að þið fáið þessa peninga aftur en það er að mínu mati rétt að láta lögregluna vita af þessu og óska eftir að starfsmenn hennar verði ykkur innan handar við að tilkynna þetta og hafa milligöngu um að koma gögnum til skila.

2 Er hægt að fá lögfræðiaðstoð?

Ég veit ekki hvort þið getið fengið réttargæslumann á kostnað þess ríkis þar sem brotið var framið. Það eru mismunandi reglur um það milli ríkja en venjulega er það ekki í boði vegna fjársvika eingöngu. Þið eigið í það minnsta ekki heimtingu á að fá lögfræðiaðstoð á kostnað íslenska ríkisins. Þið getið alltaf ráðið ykkur lögfræðing á eigin kostnað en ef til þess kemur að reka þurfi dómsmál verður það að vera lögmaður sem hefur starfsleyfi í því landi sem um ræðir. Á meðan engar upplýsingar liggja fyrir um þá sem standa á bak við þetta er frekar lítil von til þess að þolandinn endurheimti það fé sem svikið var af honum svo þið gætuð tapað enn meiru á því að ráða lögmann.

Í ykkar sporum myndi ég snúa mér til lögreglunnar með þau sönnunargögn sem þið hafið, þ.e. bréfin og greiðslukvittanir. Því miður gefa svikahrappar sjaldnast réttar upplýsingar svo það getur verið erfitt eða útilokað að finna þá seku. Ég hvet ykkur samt til að tilkynna þetta því það er ekkert ólíklegt að á bak við þetta sé em er ennþá að reyna að svíkja fé út úr fjölda manns.

Mynd: Andrey Popov