Ég vissi ekki fyrr en las þessa frétt að  þeir sem ríkisvaldið hefur svipt sjálfræði væru látnir bera kostnaðinn af því sjálfir. Þannig þarf sjálfræðissvipt manneskja á örorkubótum, sem með öllum uppbótum verður hæst 218.515  kr á mánuði (fyrir skatt), að greiða lögráðamanni sínum 12.000 kr á tímann fyrir að taka ákvarðanir varðandi fjármál, búsetu og aðra persónulega hagi.

Líklega er hugsunin sú að samfélagið eigi ekki að þurfa að líða fyrir það að fólk kunni ekki að hegða sér.  Sú hugmynd er djúprætt, það hefur til dæmis löngum þótt sjálfsagt að láta fanga leggja eitthvað af mörkum til eigin refsingar. Jesús var látinn draga krossinn upp á hæðina. Þeir sem brenndir voru fyrir galdur á 15.-17. öld þurftu sjálfir, með aðstoð fjölskyldu sinnar, að útvega eldivið í bálköstinn. Fangarnir voru sjálfir þvingaðir til að reisa girðinguna í kringum fangabúðirnar í Aushcwitz.

Á sama hátt þykir það viðeigandi á Íslandi, árið 2014, að fólk sem ekki er fært um að bera ábyrgð á sjálfu sér, axli ábyrgðina á því sjálft, ekki aðeins að því leyti að það sé bótaskylt vegna tjóns sem það veldur heldur einnig vegna lögræðissviptingar, sem viðkomandi á engan möguleika á að hafa áhrif á.

Finnst ykkur þetta í lagi?

Mynd: Gerd Altman, Pixabay