Það er að sönnu ekkert nýtt að trúfélög seilist til meiri valda og áhrifa en þeim eru ætluð að lögum. Það mun þó sem betur fer fáheyrt í lýðræðisríki á okkar tímum að kirkjur taki beinlínis að sér rannsókn sakamáls án þess að hafa til þess nokkurt umboð. Ég er hér að vísa til afskipta Íslensku þjóðkirkjunnar af ásökunum kvenna á hendur séra Ólafi Jóhannssyni um háttsemi sem af viðbrögðum biskups að ráða telst kynferðisbrot í skilningi hegningarlaga. Það stemmir ekki við þær atvikalýsingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum en vera má að embættið búi yfir meiri upplýsingum.
 

Hver fer með rannsókn sakamála?

Nú vill svo til að við búum í svokölluðu réttarríki. Það merkir m.a. að lög eiga að gilda um mikilvæg svið í samskiptum manna sín á milli og við stofnanir og þau lög eiga vera öllum aðgengileg. Hugmyndin er sú að borgararnir geti séð afleiðingar gjörða sinna fyrir og að tryggt sé að sömu reglur gildi um alla í sambærilegum málum. Af þessum markmiðum leiðir að yfirvöld eiga að fara að lögum þegar þau taka ákvarðanir sem snerta mikilvæga hagsmuni. Þetta á við um allar greinar ríkisvaldsins en er sérstaklega mikilvægt í málum þar sem til greina kemur að beita refsingum eða refsikenndum viðurlögum.

Vegir Gvuðs eru órannsakanlegir. Vegir mannanna eru hinsvegar rannsakanlegir. Og hver er það sem rannsakar vegi manna sem hafa gerst brotlegir við refsilög? Það kemur skýrt fram í 1. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála:

Rannsókn sakamála er í höndum lögreglu, undir stjórn héraðssaksóknara eða lögreglustjóra, nema öðruvísi sé mælt fyrir um í lögum.

Þessari reglu er ætlað að tryggja að tiltekin stofnun sé ábyrg fyrir því að mál verði rannsökuð. Það er nauðsynlegt til þess að réttarríki geti þrifist að mál séu upplýst, bæði til þess að sá sem sakaður er um glæp fái réttláta meðferð en einnig til þess að brotaþolar og aðrir saklausir geti reiknað með því að ríkisvaldið taki á afbrotum. Að öðrum kosti má búast við að þeir sem telja á sér brotið reyni sjálfir að ná fram réttlæti.

Reglunni er einnig ætlað að tryggja að rannsókn sakamáls sé ekki í höndum annarra aðila en þeirra sem lög kveða á um. Sú regla á bæði að stuðla að réttlátri málsmeðferð en einnig er henni ætlað að tryggja rannsóknarhagsmuni.

Myndin sýnir dæmi um réttarfar miðalda þar sem andlegt vald og veraldlegt fóru saman. Sá tími er liðinn

Áhrif þess ef aðrir en lögregla rannsaka sakamál

Það kemur fyrir að leikmenn ætla sér sjálfir að ganga í það verk lögreglu að upplýsa um sakamál og koma i veg fyrir glæpi. Þar sem aðrir en lögregla hafa ekki heimildir til þess að rannsaka sakamál er hætta á að gögn sem aflað er með slíku einkaframtaki verði metin ónothæf sem sönnunargögn. Það gerðist t.d. í máli þar sem fréttamenn Kompáss höfðu notað tálbeitu í því skyni að koma upp um barnaníðing. Slík framtakssemi getur einnig haft þær afleiðingar að rannsókn sakamáls spillist.

Ennþá alvarlegri geta afleiðingarnar orðið þegar stjórnvöld, sem ekki eru til þess bær að rannsaka sakamál. taka upp á því að hegða sér eins og unglingar í lögguleik. Stjórnvöld bera þyngri ábyrgð en almennir borgarar og ef ekki er farið að stjórnsýslulögum þegar teknar eru ákvarðanir sem varða persónulega hagsmuni manna getur það bakað ríkinu bótaskyldu. Stjórnvöld hafa heldur ekki heimildir til þess að safna persónuupplýsingum að eigin geðþótta. Í lögum um persónuvernd er skýrt kveðið á um skilyrði slíkrar upplýsingaöflunar. Ekki verður séð að það uppátæki kirkjunnar að safna frásögnum fólks sem ber misjafnlega ljósar sakir á starfsmann hennar standist ákvæði II. kafla laganna.

Þjóðkirkjan hefur engar heimildir til þess að rannsaka sakamál, því síður til þess að dæma í þeim. Sé það rétt sem fram hefur komið í fréttum, að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um andmælarétt og þeirri reglu að mál skuli rannsökuð áður en teknar eru ákvaraðanir (og tekið skal fram að sú regla á ekki við um rannsókn sakamáls) er afar líklegt að séra Ólafur Jóhannsson geti krafist miskabóta vegna þess hvernig haldið hefur verið á málum hans innan kirkjunnar. En það er ekki nóg með að stjórnsýslulög hafi verið þverbrotin heldur gengur biskup svo langt að lesa upp, á Kirkjuþingi, bréf þar sem ósannaðar ávirðingar eru bornar á mann sem er ekki einu sinni til rannsóknar hjá lögreglu.  Ég sé ekki betur en að þessi háttsemi biskups sé hreint og klárt hegningarlagabrot og koma þar fleiri en eitt ákvæði hegningarlaga til állita. (Sjá gr. 234-236.)

Svo virðist sem biskup hafi með meðferð sinni á máli séra Ólafs Jóhannssonar brotið fjölmörg ákvæði stjórnsýslulaga, einnig ákvæði laga um persónuvernd, og biskup gæti jafnvel hafa bakað sér persónulega refsiábyrgð með ærumeiðandi ummælum. Ef það sannast svo á endanum að séra Ólafur hafi raunverulega framið kynferðisbrot – en  ekkert er framkomið sem bendir til þess (það er ekki kynferðisbrot að kyssa konu á kinnina þótt það kunni að vera óviðeigandi framkoma) – þá er ekkert ólíklegt að frumhlaup biskups hafi áhrif á réttarstöðu Ólafs og leiði til mildunar refsingar.

Andlegt og veraldlegt vald á að vera aðskilið

Þetta er ekkert í fyrsta sinn sem kirkjur á Íslandi hafa afskipti af sakamálum. Fyrir fjórum árum tók Kaþólska kirkjan t.d. upp á því að rannsaka ásakanir um kynferðisbrot fólks sem var þá löngu látið. Það er stórkostlega vafasamt af slíkri stofnun að taka afstöðu til sakamála sem aldrei hafa verið til rannsóknar hjá til þess bærum aðilum eða farið fyrir dóm. Í slíkum málum ætti ríkið að láta rannsaka hugsanlega yfirhylmingu kirkju eða annarra stofnana og taka sjálft ábyrgð á bótagreiðslum þar sem það á við.

Þótt mál séra Ólafs sé ekki fyrsta dæmið um óviðeigandi afskipti trúfélaga af sakamálum er það grófasta dæmið sem ég man eftir á Íslandi. Vonandi verður niðurstaða þess sú að kirkjan steinhætti afskiptum af slíkum málum en vísi meintum afbrotum starfsmanna sinna til lögreglu, þar sem þau eiga heima.

Að lokum bendi ég frú Agnesi biskup á að kynna sér tvö skjöl, Stjórnarskrá lýðveldisins og Mannréttindasáttmála Evrópu. Ef frú Agnes ætlar að vera biskup áfram þá er gott fyrir hana að þekkja þessi plögg, ekki síst þá meginreglu að menn skuli teljast saklausir uns sekt er sönnuð, ákvæði um réttláta málsmeðferð og friðhelgi einkalífs. Ef frú Agnesi langar meira að vera lögga en biskup þá þarf hún að kynna sér bæði þessi skjöl hvort sem er – þeim tíma yrði því á allan hátt vel varið.