Mig langar að skoða sjúkraskrá föður míns. Hann varð bráðkvaddur árið 2007 en hafði verið slæmur til heilsunnar lengi. Ég bjó þá erlendis og hafði ekki séð hann í næstum ár en talaði reglulega við hann á Facetime. Mér var sagt að honum hefði hrakað mikið síðasta árið en mér hefur alltaf þótt það ótrúlegt því hann kvartaði ekkert um að sér hefði versnað heldur sagði alltaf að hann „væri bara eins“. Ég bað lækninn á sínum tíma um upplýsingar um lyf og aðra meðferð en fékk það svar að það væri ólöglegt þar sem heilsufar og lyfjanotkun væri einkamál. Ég hafði alltaf vonda tilfinningu fyrir þessum lækni. Verð ég að fá lögfræðing til að komast að sannleikanum?

☆☆☆

Nei, þú þarft ekki lögfræðing til að sækja um aðgang að sjúkraskrá látins aðstandanda.

Læknirinn hafði rétt fyrir sér um það að heilbrigðisupplýsingar teljast einkamál samkvæmt lögum og flokkast reyndar sem viðkvæmar persónuupplýsingar sem njóta sérstakrar verndar. Á þessum tíma var nánast ógerningur að fá aðgang að sjúkragögnum látinna ættingja. Árið 2014 var þó leitt í lög ákvæði um aðgang aðstandenda látinna að sjúkraskrá. Það er undantekningarákvæði og því ekki um að ræða heimild til að skoða þessi gögn rétt eins og einkabréf og önnur skjöl sem tilheyra dánarbúi og eru aðstandendum aðgengnileg.

Samkvæmt lögunum þurfa sérstakar ástæður að vera uppi til þess að þér verði veittur aðgangur að þessum gögnum. Þú þarft því að rökstyðja beiðnina. Grunur um brot gegn réttindum sjúklinga getur t.d. verið slík ástæða en þú þarft þá að útskýra hvað kveikti þann grun. Það er ekki nóg að þú hafir haft vonda tilfinningu fyrir einhverju sem varðar meðferð sjúklingsins. Annað dæmi er að nánir ættingjar geta átt hagsmuna að gæta vegna mögulegra erfðasjúkdóma.

Þú getur sótt um aðgang með því að senda tölvupóst til þeirrar heilbrigðisstofnunar eða heilsugæslu sem síðast var með föður þinn til meðhöndlunar með „bt. umsjónarmanns sjúkraskrár“ í efnislínu. Gefðu upp fullt nafn, kennitölu og dánardag hins látna, ástæðu fyrir því að þú sækir um aðgang og þínar eigin persónuupplýsingar. Taktu fram hvaða tímabil sjúkraskrár þú þurfir að fá afhent, t.d. síðasta árið eða frá síðustu innlögn. Ef þú tekur það ekki fram verður þér synjað á þeim grundvelli að beiðnin sé of víðtæk. Þú þarft auðvitað líka að gefa upp þínar eigin persónuupplýsingar og netfang eða símanúmer. Vísaðu svo í 15. gr. laga um sjúkraskrár og útskýrðu hvaða sérstöku aðstæður það eru sem mæla með því að þú fáir sjúkraskrá afhenta.

Ef þér verður synjað geturðu kvartað til landlæknis. Það tekur oft langan tíma að fá erindi afgreidd frá landlækni enda er embættið bókstaflega að drukkna í stórum verkefnum. Þú skalt því færa fram öll tiltæk rök sem þegar þú sendir inn gagnabeiðni svo sé erfiðara fyrir stofnunina að rökstyðja þá ákvörðun að synja þér um aðgang.

Hér er að finna upplýsingar landlæknis um aðgang að sjúkraskrám.