Æra barnaníðings er hvítþvegin eftir það mat „valinkunns“ að hann sé góður strákur. Embættismenn í dómsmálaráðuneytinu segja dómsmálaráðherra, í óspurðum fréttum, að valinkunnur sé faðir forsætisráðherra. Dómsmálaráðherra upplýsir son valinkunns um þetta uppátæki föðurins. Ég veit ekki hvort eru til nokkur betri orð um þessa háttsemi en slúður.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með fréttum að dómsmálaráðuneytið synjaði fjölmiðlum um upplýsingar um þá valinkunnu menn sem mæltu með uppreist æru Róberts Downey. Í úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að dómsmálaráðuneytið hafi vísað í 9. gr. upplýsingalaga til stuðnings þeirri afstöðu að upplýsingar um meðmælendur væru undanþegar upplýsingalögum en sú grein kveður á um takmarkanir vegna einkahagsmuna. Dómsmálaráðherra gefur þær skýringar á synjun sinni um aðgang að upplýsingum, að í gögnunum sé að finna heilsufarsupplýsingar.
Auðvitað var ráðuneytinu í lófa lagið að afmá heilsufarsupplýsingarnar, sem það var og skikkað til að gera, með úrskurði Úrskurðarnefndar, og þegar síðan er upplýst að faðir forsætisráðherra hafi gerst valinkunnur í máli svívirðilegs barnaníðings þá vaknar eðlilega sú spurning hvort ætlunin með leynimakkinu í máli Roberts Downey hafi verið sú að skapa fordæmi og komast þannig hjá því að upplýsa um nöfn valinkunnra í máli Hjalta Sigurjóns Haukssonar. Sú spurning er út af fyrir sig til þess fallin að veikja tiltrú almennings á ráðherra en til þess að kóróna allt saman segir ráðherra svo frá því, kinnroðalaust, að hún hafi að eigin frumkvæði upplýst óviðkomandi mann (forsætisráðherra landsins og samherja sinn í pólitík) um viðkvæmt mál sem ráðuneytið hefur fengið til úrskurðar.
Þetta er undarleg stjórnsýsla, svo ekki sé meira sagt. Nú langar mig að vita hvort Sigríður fékk fréttirnar um föður forsætisráðherra áður eða eftir að hún synjaði fjölmiðlum um upplýsingar um valinkunna í máli Roberts Downey.
Mynd: Antony22, Wikimedia