Ég á barn sem er ófeðrað. Ég kynntist manni þegar barnið var ársgamalt og við bjuggum saman í nokkra mánuði. Nú er maðurinn búinn að höfða dómsmál þar sem hann krefst þess að viðurkennt verði að hann sé faðirinn. Má hver sem er krefjast faðernisviðurkenningar fyrir dómi ef barn er ófeðrað?
☆☆☆
Já. Hver sem heldur því fram að hann gæti verið faðir barnsins getur höfðað dómsmál og gæti það líka þótt barnið væri feðrað, svo fremi sem barnið er ekki getið með gjafasæði. Þetta kemur fram í 10. gr. og 21. gr. barnalaga.
Fari málið fyrir dóm mun dómari mæla fyrir um mannerfðafræðilega rannsókn. Þegar niðurstaðan kemur (sú niðurstaða að enginn skyldleiki sé milli stefnanda og barnsins) þá fellir stefnandi málið niður, því hann veit að hann tapar því og kostnaðurinn eykst bara við að halda áfram. Stefnandi sem veður í dómsmál, vitandi að hann mun tapa því, situr uppi með allan málskostnað.
Það er sjálfsagt erfitt að sýna fram á að það hafi ekkert samband verið á milli ykkar á þeim tíma sem barnið var getið en ef það er hægt (t.d. ef hann viðurkennir það eða ef þið bjugguð í sitthvoru landinu) þá getur þú krafist þess að hann verði látinn greiða álag á málskostnað. En dómarar eru reyndar mjög nískir á svoleiðis fínerí.
