Amma mín er með heilabilun og er orðin ófær um að sjá um fjármál sín og bíður eftir plássi á hjúkrunarheimili. Mamma hefur aðgang að bankareikningnum hennar og hefur passað upp á að reikningar séu greiddir. Það fer í taugarnar á manninum hennar ömmu (þau eiga ekki börn saman). Hann er farinn að tala um að svipta ömmu sjálfræði því hún ráði ekki við þetta og hann vilji ekki að mamma sé að vasast í þeirra fjármálum. Hann vill líka selja íbúðina og kaupa minna þegar hún fer á hjúkrunarheimilið. Getur hann látið svipta hana sjálfræði og fær hann þá bara að selja íbúðina og ráða öllu án þess að tala við börnin hennar?
☆☆☆
1 Hvað er lögræði?
Lögræði skiptist í sjálfræði og fjárræði. Sjálfræði felur í sér vald til að ráða högum sínum, t.d. hvort maður fer í löng ferðalög, flytur á hjúkrunarheimili eða gengst undir læknismeðferð. Fjárræði felur í sér vald til að taka ákvarðanir um kaup og sölu eigna og stjórna fjármálum sínum almennt. Það er hægt að svipta fólk annað hvort sjálfræði eða fjárræði eða hvoru tveggja til lengri eða skemmri tíma ef augljóst þykir að viðkomandi valdi ekki þeirri ábyrgð sem í lögræði felst.
Jafnvel þótt amma þín sé ófær um að sjá um heimilisbókhald sitt og taka ákvörðun um að selja fasteign merkir það ekki endilega að hún sé ófær um að taka neinar vitrænar ákvarðanir. Ef hún er ennþá nógu vel með á nótunum til að skilja hvað lögræðissvipting felur í sér þá getur hún farið fram á það sjálf að sér verði skipaður ráðsmaður til að sjá um fjármálin. Hún getur einnig óskað eftir því sjálf að hún verði svipt lögræði. Ef er fyrirsjáanlegt að hún verði bráðlega ófær um að fara með sjálfræði sitt getur það verið æskilegt því hún getur þá látið í ljós skoðun sína á því hverjum verði falið það hlutverk. Sýslumaður kveður upp úrskurð um skipun lögráðamanns (en ekki lögræðissviptinguna sjálfa) og hann á að taka tillit til óska hennar um lögráðamann eða ráðsmann ef þær koma fram, að því tilskyldu að hann meti það ekki andstætt hagsmunum hennar.
2 Hver getur krafist lögræðissviptingar?
Maki ömmu þinnar getur krafist lögræðissviptingar að hluta eða að fullu og það geta börn hennar og systkini einnig gert (ef hún ætti foreldra á lífi gætu þeir einnig gert slíka kröfu). Félagsmálayfirvöld í hverju sveitarfélagi geta sömuleiðis krafist lögræðissviptingar. Eins og áður sagði getur hún sjálf farið fram á lögræðissviptingu. Ef hún treystir mömmu þinni til að fara með fjármálin yrði mamma þín sterkari stöðu sem lögráðamaður. Kröfunni er beint til héraðsdóms og það þurfa að liggja fyrir gögn sem sýna að hún sé ófær um að annast sín mál sjálf. Venjulega er aðal sönnunargagnið um það læknisvottorð.
3 Hvernig er lögráðamaður valinn?
Þegar maður hefur verið sviptur lögræði með dómi fellur lögræði hans til bráðabirgða til yfirlögráðanda sem starfar á vegum sýslumanns. Sýslumaður ber svo ábyrgð á skipun lögráðamanns. Algengt er að maki sé skipaður lögráðamaður en sýslumaður á að kanna hæfi þeirra sem koma til greina. Ef kæmi í ljós að makinn er mikill óreiðumaður í fjármálum eða með langa og skrautlega sakaskrá er líklegt að sýslumaður myndi fá einhvern annan úr fjölskyldunni til að fara með það hlutverk og kynferðisbrotamenn koma aldrei til greina. Það er líka hægt að fá einhvern utan fjölskyldunnar sem lögráðamann, t.d. lögmann. Ef mikill ágreiningur og vantraust ríkir milli aðstandenda getur verið heppilegast að óháður lögráðamaður gæti hagsmuna ömmu þinnar. Rétt er þó að hafa í huga að utanaðkomandi lögráðamaður á rétt á þóknun fyrir sín störf sem amma þín yrði þá greiða.
4 Hvaða vald hefur lögráðamaður?
Jafnvel þótt maki ömmu þinnar yrði skipaður lögráðamaður merkir það ekki að hann geti óáreittur sóað eignum hennar. Hann myndi þurfa samþykki yfirlögráðanda til að selja íbúð eða aðrar dýrar eignir eða taka aðrar mikilvægar ákvarðanir. Yfirlögráðandi á að hafa eftirlit með lögráðamönnum. Hann getur fengið aðgang að öllum gögnum búsins og lögráðamenn eiga að gefa honum upplýsingar um stöðu búsins árlega.
Mynd: © Ocskay Bence | Dreamstime.com