Yfirvöld tala oft eins og þau gegni foreldrahlutverki gagnvart viðföngum sínum. Margrét Frímansdóttir, fangelsisstjóri segir t.d. vistun fanga ekki ósvipaða barnauppeldi. Þetta er athyglisverð sýn á barnauppeldi og bendir í skársta falli til hugsunarleysis en versta falli til algers skilningsleysis á upplifun fanga af fangelsi og fangavörðum. Margréti til upplýsingar bendi ég á að foreldri sem refsar barni sínu með því að einangra það vikum saman yrði tæpast álitið hæft til að sinna hlutverki sínu.
Vissulega hafa foreldrar vald yfir börnum sínum en þessi líking valdastofnana við foreldra felur í sér mikil ósannindi því foreldravald er í grundvallaratriðum frábrugðið yfirvaldi.
Munurinn á foreldravaldi og yfirvaldi
Foreldravald er persónulegt. Yfirvald er ópersónulegt.
Foreldravald er náttúrulegt. Það sprettur af eðlishvöt til að koma genum sínum áfram og viðhalda þannig stofninum. Yfirvald er menningarlegt. Það sprettur af hvöt til að drottna yfir öðrum og sölsa undir sig gæði.
Foreldravald snýst um að vernda og leiðbeina óvita sem er algerlega háður forsjá og vernd annarra. Yfirvald snýst um að verja hagsmuni samfélags (og stundum yfirvaldsins sjálfs) gegn viðföngum valdsins.
Foreldravald beinist að einstaklingi sem foreldrið ber persónulega umhyggju fyrir. Yfirvald beinist að staki í mengi; kennitölu eða fanganúmeri fremur en persónu.
Foreldri hefur beina, persónulega hagsmuni af því að barninu líði vel. Valdastofnunin hefur enga sérstaka hagsmuni af því að viðfangi valdisins líði vel. Starfsmönnum stofnunarinnar getur þótt það kostur en þeir fara heim eftir vaktina og geta sagt upp störfum ef álagið verður of mikið. Foreldrið situr hinsvegar uppi með barnið í 18 ár.
Foreldri getur sveigt reglur ef dómgreind þess býður svo. Starfsmaður stofnunar setur reglurnar ekki sjálfur og tekur því persónulega áhættu ef hann sveigir reglur.
Foreldri er ábyrgt fyrir því hvernig það framkvæmir vald sitt og þarf því stöðugt að beita dómgreind sinni. Starfsmanni stofnunar er skylt fara að fyrirmælum fólks sem stundum er ekkert í aðstæðunum sjálft, hann getur því varpað ábyrgðinni á gjörðum sínum yfir á aðra.
Endanlegt markmið uppeldis er að gera barnið óháð sér; gera foreldrið óþarft í lífi barnsins (þótt það vilji auðvitað halda tengslum ef allt er eðlilegt.) Endanlegt markmið valdhafans er að gera sjálfan sig og sína stofnun ómissandi.
Refsing (ef þeim á annað borð er beitt) er verkfæri barnauppeldis en ekki tilgangur. Refsing er eini tilgangur fangelsisvistar, það er hægt að setja fleiri markmið en það fer enginn í fangelsi í öðrum tilgangi en að þeim taka út refsingu.
Hvernig þjóna refsireglur fangelsis markmiðum uppeldis?
Jú það eru ákveðin líkindi með fangelsi og barnauppeldi. Fanginn er jafn mikill leiksoppur varðstjórans og barn foreldris. Illa innrættur varðstjóri á auðvelt með að misbeita valdi sínu, rétt eins og vanhæft foreldri og ef hann er óhóflega eftirlátur er hætta á að fanginn komist upp með óþolandi hegðun. Meiri samsvaranir er varla að finna því þótt eitt af markmiðum barnauppeldis sé að fyrirbyggja að barnið skaði aðra, er tilgangur fangavistar fullnusta refsingar fyrir skaða sem fanginn hefur þegar valdið. Fyrirbyggjandi aðgerðir og allt sem fallið getur undir betrun er í öðru sæti ef því er þá yfirhöfuð sinnt.
Barnauppeldi snýst um að gera börn sjálfstæð og það er ekki gert með því að svipta börn tengslum við ástvini sína og takmarka möguleika þeirra til náms og vinnu, heldur með því að veita þeim öryggi og opna þeim tækifæri. Þegar maður elur upp börn myndar maður tilfinningatengsl við þau. Maður sinnir tilfinningalegum þörfum þeirra og býr þeim aðstæður til að sinna félagslegum þörfum sínum. Maður lætur undan sanngjörnum óskum þeirra og spyr þau álits á ákvörðunum sem hafa áhrif á líf þeirra. Maður leyfir þeim að hafa áhrif á ákvarðanir eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfir og veitir þeim frelsi að því marki að það ógni ekki öryggi þeirra eða annarra. Maður á með þeim góðar stundir. Maður tekur virkan þátt í lífi þeirra, sýnir þeim ástúð og veitir þeim persónulega athygli.
Ef það er uppeldi sem fer fram á Litla Hrauni hrópa ég húrra fyrir Margréti. En hún verður þá að útskýra hvernig uppeldisaðferðir á borð við heimsóknabann, símabann og einangrunarvist veita fanganum öryggi og hvernig þessar uppeldisaðferðir endurspegla umhyggju yfirvaldsins fyrir velferð hans.