Ég er búin að fá þessi gögn sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi óhætt að sýna almenningi og ég hef sjaldan orðið fyrir meiri vonbrigðum. Eftir rúmlega 37 vikna bið frá því að ég lagði fyrst fram kæru (en þá var liðinn mánuður frá því að ég óskaði fyrst eftir gögnum) er niðurstaðan sú að það sem almenningur má sjá af þessari skýrslu eru eingöngu beinar tilvitnanir í fjölmiðla. Við erum að tala um meðgöngulengd. Vonandi gengur þetta venjulega hraðar fyrir sig en að hluta skýrist þessi langi biðtími af því að fyrstu kærunni var vísað aftur til lögreglu.

Rök lögreglustjóra héldu ekki vatni svo honum var gefinn kostur á að svara mér aftur og vísa í aðrar lagagreinar. Frábært fyrir yfirvaldið, það eina sem það þarf að gera til að þreyta þá almennu borgara sem leita réttar síns er að bulla. Það hefur engar afleiðingar, yfirvaldið fær bara annan séns.

Af hverju vil ég fá að sjá þessa skýrslu?

Ástæðurnar fyrir því að ég bað fyrst um afrit af skýrslunni voru annarsvegar almenn forvitni um það hvernig stofnanir samfélagsins vinna með gögn og hinsvegar grunur um að skýrslan væri lituð af pólitískri afstöðu til Búsáhaldabyltingarinnar.

Ég ákvað að leggja fram kæru af því að þessar grunsemdir voru rækilega staðfestar þegar höfundur skýrslunnar kynnti efni hennar hjá stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins undir heitinu “Aðförin að Alþingi.” Í fyrirlestrinum komu bæði fram rangfærslur og augljós pólitísk afstaða  til þessara mestu uppþota Íslandssögunnar. Hér er um að ræða skýrslu sem lögreglan talar um sem vinnuplagg og sem vænta má að verði notuð til þess að kynna nýjum lögregluþjónum mótmælamenningu og viðbrögð við uppþotum. Ef sú kynning er lituð af pólitískum viðhorfum þá kemur almenningi það við.

Hvað sagði úrskurðarnefndin?

Í úrskurðinum er staðfest að skýrslan geti ekki talist vinnuplagg og nefndin bendir raunar á ein rök til viðbótar þeim sem ég hafði nefnt í kærunni.

Nefndin tekur undir það sjónarmið lögreglustjóra að persónuverndarsjónarmið beri að virða. Um það hefur aldrei verið neinn ágreiningur og tók ég sérstaklega fram í kærunni að ég færi ekki fram á upplýsingar sem varða einkahagi enda væri einfalt að afmá þær eða fjarlægja þá hluta sem innihéldu slíkar upplýsingar. Í úrskurðinum kemur einnig fram að vandasamt geti verið að meta hvort upplýsingar teljist viðkvæmar persónuupplýsingar eða ekki. Það er væntanlega á þeirri forsendu sem mér er eingöngu skammtað það sem hefur birst orðrétt í fjölmiðlum auk stuttrar umfjöllunar sem varðar mig sjálfa.

Hversvegna er svona erfitt að meta hvað telst viðkvæmt?

Ótrúlegt verður að teljast að í 270 síðna skýrslu séu engir kaflar fyrir utan fjölmiðlaumfjöllun sem ekki innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar en auk þess er yfirleitt hægt að afmá slík einkenni. Sá kafli sem snýr að mér sjálfri er ágætt dæmi. Þar koma fram upplýsingar sem ekki hafa verið í opinberri umræðu en þær er auðveldlega hægt að fjarlægja líkt og gert er í opinberum dómskjölum. Hinsvegar er umfjöllunin að mestu leyti lýsing á opinberum gjörningi. Engum heilvita manni dettur í hug að það rjúfi friðhelgi mína eða stofni öryggi mínu í hættu þótt sú atburðarlýsing sé birt.  Ætla má að svipað gildi um aðra hluta skýrslunnar.

Fyrir hvern vinnur úrskurðarnefndin?

Hugmyndin með úrskurðarnefndum er sú að almenningur  eigi að geta leitað réttar síns gagnvart yfirvöldum án þess að fara með öll mál fyrir dómstóla með tilheyrandi kostnaði.

Í þessu tilviki leitaði ég réttar íslenskra ríkisborgara gagnvart yfirvöldum sem sýnilega taka pólitíska afstöðu í málum sem þeim ber að nálgast af hlutleysi. Úrskurðarnefnd tekur þá hápólitísku afstöðu að túlka lögin eins vítt og mögulegt er, í þágu yfirvalda sem vilja fá að matreiða sinn pólitíska boðskap ofan í lögregluþjóna framtíðarinnar. Finnst ykkur það í lagi?

Hverjir geta farið fram á aðgang?

Lögreglustjóri, Stefán Eiríksson, lætur að því liggja að þeir sem nefndir eru í skýrslunni muni ekki fá aðgang að þeim hlutum hennar sem snúa að þeim sjálfum nema fara fyrst í gegnum úrskurðarnefndina (sem merkir að hlutaðeigandi þurfa að bíða mánuðum saman eftir svari.) Stefán er með þessu að reyna að slá ryki í augu almennings. Það væri gersamlega fráleitt af úrskurðarnefnd að dæma mér aðgang að þeim hluta sem snýr að mér en neita öðrum borgurum um það sem snýr að þeim persónulega. Ég bendi á 8. grein reglugerðar um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu:

Upplýsingaréttur hins skráða.
Hinn skráði á rétt á að fá frá lögreglu vitneskju um:

1.hvaða upplýsingar um hann er eða hefur verið unnið með;
2.tilgang vinnslunnar;
3.hver fær, hefur fengið eða mun fá upplýsingar um hann.
Allt þetta fólk ætti að fara fram á aðgang að skýrslunni
(Kristinn Magnússon tók myndina)

Lögregla skal veita vitneskju skriflega ef þess er óskað. Afgreiða skal erindi skv. 1. mgr. svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku þess.

Það væri þó ekkert ólíkt lögreglunni að þráast við að afhenda gögnin.

Einnig vek ég athygli á 10. grein. Þar segir að lögreglu beri að tilkynna einstaklingi um söfnun persónuupplýsinga, en ég veit ekki um eitt einasta tilvik þar sem sú regla hefur verið virt. Það eru því góðar líkur á að fólk sé nafngreint í þessari skýrslu án þess að hafa minnsta grun um það. Því ættu allir sem áttu erindi í miðbæinn á þeim tíma sem mótmæli stóðu yfir frá okt. 2008 og þar til ný ríkisstjórn tók við völdum, að óska eftir aðgangi að hluta skýrslunnar ellegar skriflegri staðfestingu á því að þeirra sé hvergi getið.

En geta þeir ekki bara sent það sem þeim hentar?

Í gær var ég spurð hversvegna ég héldi að þau gögn sem ég þó hefði fengið væru marktæk. Tæknin býður upp á að gögnum sé breytt eftir hentugleikum og því ekkert fráleitt að skýrslan hafi tekið breytingum á þessum 37 vikum sem liðnar eru frá því að ég sendi inn kæru. Þessi möguleiki er einmitt ein af mörgum ástæðum fyrir nauðsyn þess að setja lög sem tryggja tafarlaust aðgengi almennings að öllum upplýsingum sem ekki teljast til einka- eða öryggismála (og lögreglan ætti ekki að vera einráð um mat á því hvað skuli teljast öryggismál en það er efni í annan pistil.) Slík lög eru nauðsynleg til þess að veita yfirvöldum aðhald. Það er í það minnsta augljóst að pólitískt skipaðar nefndir sinna ekki því hlutverki.

Á meðan við sitjum uppi með núgildandi lög er ekki annað í boði, fyrir þá sem hafa áhyggjur af pólitískri afstöðu lögreglunnar til mótmæla, en að þrýsta á um að skýrslan verði gerð opinber að svo miklu leyti sem það stríðir ekki gegn hagsmunum einstaklinga. Því hvet ég þá sem eru mér sammála til að óska eftir upplýsingum um það hvort þeirra sé getið í skýrslunni og ef svo er að fara frá á að fá aðgang að þeim hluta. Komi eitthvað fram í þeirri umfjöllun sem viðkomandi telja óviðeigandi geta þeir valið að birta það en leyna nöfnum, eða öðrum persónugreinanlegum einkennum. Þannig er hægt að safna upplýsingum sem eiga erindi við almenning án þess að vega að friðhelgi einkalífsins.

Ólafur Kr. Ólafsson tók opnumyndina