Óskað var eftir áliti mínu á áformum um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Hér er sú umsögn sem ég sendi inn.

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu (Þingskjal 26  —  26. mál.)

Fyrir Alþingi liggur nú ályktun um að innanríkisráðherra skuli falið að vinna og leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir. Með því er átt við að lögreglunni verði heimilað að safna upplýsingum um grunsamlegt fólk og rannsaka glæpi sem ekki hafa verið framdir en eru hugsanlega í bígerð.

Ég lýsi mig alfarið andvíga öllum hugmyndum um forvirkar rannsóknarheimildir eða aðrar heimildir til innrásar í einkalíf borgaranna. Ástæðurnar fyrir þessari afstöðu minni eru eftirfarandi:

  1. Sjálfar forsendurnar fyrir forvirkum rannsóknarheimildum, þ.e. breytt eðli glæpa-starfsemi og aukin hryðjuverkaógn eru í meira lagi vafasamar.
  2. Engin rök hníga að því að forvirkar rannsóknir séu nauðsynlegar eða einu sinni gagnlegar í því augnamiði að stemma stigu við glæpum.
  3. Eftirliti með misnotkun valdheimilda lögreglu er stórlega ábótavant og engin ástæða til að ætla að betra eftirlit verði haft með forvirkum rannsóknum.
  4. Það umburðarlyndi sem þegar ríkir gagnvart tíðri og alvarlegri misbeitingu lögreglunnar á valdheimildum gefur ríka ástæðu til að fara varlega í að lögleiða persónunjósnir umfram það sem orðið er.
  5. Reynsla annarra þjóða sýnir að forvirkum rannsóknarheimildum er allsstaðar beitt til þess að réttlæta mikið og stöðugt eftirlit með grasrótarhreyfingum og pólitískum öflum sem stjórnvöldum eru ekki að skapi, óháð því hvort minnsta ástæða er til að ætla að slíkar hreyfingar séu líklegar til ólöglegrar starfsemi.
  6. Hér á landi hafa grasrótarhreyfingar sætt ólöglegu eftirliti og margt bendir til þess að lögreglan setji pólitískar hreyfingar í sama flokk og glæpagengi og hryðjuverkamenn. Það er því hafið yfir skynsamlegan vafa að njósnaheimildir verði misnotaðar á sama hátt á Íslandi og í öllum öðrum löndum þar sem þær tíðkast.

Mun ég nú gera grein nánari grein fyrir þessum niðurstöðum mínum.

1 Vafasamar forsendur

Réttlætingin fyrir því að auka heimildir ríkisvaldsins til eftirlits er sú að í öðrum norrænum ríkjum hafi forvirkar rannsóknarheimildir gefist vel í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Í þingsályktunartillögunni er þó engan rökstuðning að finna fyrir þeirri fullyrðingu.

Breytt umfang og eðli glæpastarfsemi

Í upphafi greinargerðarinnar er fullyrt að eðli og umfang skipulagðrar glæpastarfsemi sé breytt frá því sem áður var. Þessi frumforsenda njósnafrumvarpsins er í meira lagi vafasöm. Ekki kemur fram við hvaða tímabil er átt, hvenær þetta ,,áður” á að hafa verið. Er átt við miðaldir, fyrri hluta 20. aldar, 8. áratuginn eða eitthvað annað?

Hvað er átt við með ,,eðli” skipulagðrar glæpastarfsemi og hvernig hefur hún breyst? Er eitthvert annað eðli sem einkennir dreifingu ólöglegra fíkniefna í dag en það sem einkenndi sprúttsölu á bannárunum? Er ,,eðlið” ekki bara það sama; gróðavon dreifingaraðila og hagsmuna- og valdabarátta þeirra innbyrðis?

Hvað hafa menn fyrir sér í því að umfangið hafi aukist og frá hvaða tíma? Er það fjöldi dómsmála sem leiðir lögregluna að þeirri niðurstöðu og ef svo er, er þá hugsanlegt að það skýrist að hluta til af því að fleiri afbrot séu upplýst en áður var?

Fullyrðingar um aukna hörku glæpamanna eru aukinheldur órökstuddar. Hvernig birtist þessi aukna harka? Er það eitthvað nýtt að ofbeldi og kúgun einkenni skipulagða glæpastarfsemi? Er yfirhöfuð eitthvað sem bendir til þess að harkan hafi aukist?

Ég efast ekkert um að það sé tilfinning margra að ofbeldi sé stöðugt að aukast en ef á að fjalla um þau mál af skynsamlegu viti, er nauðsynlegt að tekið sé tillit til samfélagsaðstæðna og tíðaranda. Hafi kærumálum fjölgað má t.d. spyrja hvort það skýrist að einhverju leyti af breyttri afstöðu til ofbeldis. Getur verið að á fyrri hluta 20. aldar hafi samfélagið sjaldan skilgreint það sem ofbeldisglæp þótt maður nefbrotnaði í slagsmálum á sveitaballi og því hafi líkamsárásir síður komið inn á borð lögreglu? Það er gjörsamlega fráleitt að setja lög sem heimila lögreglu innrás í einkalíf fólks, á þeirri forsendu að einhver hafi eitthvað á tilfinningunni og ég beini því til þingmanna sem eru að velta fyrir sér möguleikanum á að samþykkja það, að kynna sér rækilega hvaða heimildir liggja að baki þeirri hugmynd að glæpir séu á einhvern hátt annars eðlis eða einkennist af meiri hörku en áður hefur þekkst. Eftir því sem ég best veit segja gögn íslenskrar lögreglu aðra sögu, og vel mun vera staðfest að ofbeldisglæpum hafi fækkað til muna í Bandaríkjunum í nokkra áratugi.

Ég bendi þingmönnum á að kynna sér rannsóknir Stevens Pinker á sögu ofbeldis en hann kemst að þeirri niðurstöðu að þvert á það sem almennt er talið, lifum við á friðsamasta tímaskeiði mannkynssögunnar, hvort sem litið er til hernaðar, refsinga, skipulagðrar glæpastarfsemi eða tilviljanakenndra ofbeldisglæpa. Hugsanlegt er að sú tilfinning að umfang skipulagðrar glæpastarfsemi hafi aukist, samræmist heldur ekki veruleikanum og væri allavega rétt að ganga úr skugga um það, áður en valdheimildir lögreglu eru auknar.                        

Mansal

Þeir sem telja forvirkar rannsóknarheimildir nauðsynlegar hamra á þeirri hugmynd að þannig megi koma í veg fyrir mansal. Engin rök eru þó færð fyrir því að mansal sé vandamál á Íslandi. Aðeins einn sektardómur hefur fallið í slíku máli hérlendis og það þurfti engar forvirkar rannsóknarheimildir til þess, heldur var það mál rannsakað sem hvert annað glæpamál. Aðeins eitt mál til viðbótar þar sem grunur lék á um mansal hefur komið til kasta dómstóla á síðustu árum. Í því máli var meintur þrælasali sýknaður.

Fullyrðingar um fjölda mansalsmála á Norðurlöndum eru algerlega úr lausu lofti gripnar. Þrátt fyrir stöðugan fréttaflutning af því hvað mansal sé stórt og mikið vandamál á Norðurlöndum, falla aðeins örfáir dómar í slíkum málum árlega. Í Danmörku hefur því verið haldið fram að um 250 konur séu fórnarlömb mansals árlega. Ekkert er á bak við þessa tölu nema getgátur. Allt árið 2008 var t.d. aðeins ein kona í Danmörku (þar sem vændislöggjöfin er frjálslegust Norðurlanda og sennilega mest um innflutning vændiskvenna) sem fékkst til samstarfs við lögreglu í ætluðu mansalsmáli. Í öðrum tilvikum þar sem talið var að um mansal væri að ræða, sögðust konurnar vinna við kynlífsþjónustu að eigin vali.

Menneskehandel er en myteJyske Vestkysten, 16. december. Samme indlæg har været i Nordjyske Stiftstidende, men under en anden overskrift. Susanne Møller talskvinde for Sexarbejdernes Interesseorganisation (SIO) skriver bl.…

Fjölmörg dæmi eru um það, bæði frá Bandaríkjunum og Evrópu að vændiskonur, sem hafa verið skilgreindar sem fórnarlömb mansals, hafi þvertekið fyrir það að þær væru á nokkurn hátt nauðugar og líti á björgunaraðgerðirnar sem árás gegn sjálfsákvörðunarrétti sínum og framfærslu- möguleikum. Í skýrslu sem var kostuð af The Economic and Social Research Council í Bretlandi, kemur fram að mjög lítill hluti farandvændiskvenna í Bretlandi álítur þörf á lögum gegn ,,human trafficking”. Langflestar þeirra segjast hafa vitað nákvæmlega út í hvað þær voru að fara þegar þær yfirgáfu heimaslóðir sínar en eru þvert á sína eigin upplifun skilgreindar sem fórnarlömb mansals í Bretlandi.
(http://www.londonmet.ac.uk/research-units/iset/projects/esrc-migrant-workers.cfm)

Í Kambódíu hafa vændiskonur barist hatrammlega gegn lögum sem banna það sem á ensku er kallað ,,human trafficking” og hefur verið þýtt sem mansal á íslensku. Ástæðan er sú að oftast á ,,human trafficking” ekkert skylt við þrælahald, heldur er um að ræða samstarf, þar sem fátækar konur fá aðstoð til að komast til Vesturlanda til að vinna við kynlífsþjónustu og sá sem aðstoðar þær fær þóknun fyrir. (http://swannet.org/en/node/1029) Þetta má bera saman við þá sem flytja flóttamenn til annarra landa, á svig við lög. Þeir fremja vissulega afbrot, en fráleitt er að segja að flóttamennirnir séu fórnarlömb brotamannanna, a.m.k. hvað varðar sjálfan flutninginn.

Endurskoða þarf hugmyndir Vesturlandabúa um mansal. Þær hugmyndir eru ekki í neinu samræmi við reynslu meirihluta þeirra farandvændiskvenna sem skilgreindar eru sem fórnarlömb og hugtakið virðist notað jöfnum höndum um kynlífsánauð og það þegar fólki er hjálpað að komast á milli landa í þeim tilgangi að sjá sér farborða. Það er því mjög hæpið að nota mansal sem rök fyrir forvirkum rannsóknarheimildum.

Skipulögð glæpagengi

Bæði í greinargerð með þingsályktunartillögunni og áliti ríkislögreglustjóra er látið að því liggja að glæpagengi séu nýlunda á Íslandi og helst er að sjá að ríkislögreglustjóri taki það sérstaklega nærri sér að menn af erlendu bergi brotnir myndi skipulagða glæpaflokka.

Ég bendi á að glæpagengi eru ekkert ný af nálinni á litla Íslandi. Sævar Ciesielski og félagar hans voru t.a.m. kallaðir ,,Grettisgötugengið” í opinberri umræðu fyrir meira en þremur áratugum síðan. Margt bendir til þess að hópur hafi staðið á bak við hið snilldarlega skipulagða Skeljungsrán árið 1985 og mörg fleiri dæmi mætti nefna. Sannleikurinn er sá að þótt meirihluti brota sé framinn í örvæntingu og fúski hefur alltaf verið eitthvað um að afbrotamenn hafi unnið saman í hópum. Það að slíkum hópum fjölgi (ef þeim hefur þá fjölgað) réttlætir ekki að njósnaheimildir séu teknar upp, enda hafa hvorki verið lögð fram gögn né rök fyrir því að slíks sé þörf, né að það sé líklegt til að stemma stigu við slíkri þróun, eða einu sinni að hún sé líkleg.

Einnig er talað um útsmognar aðferðir glæpamanna án þess að neinu ljósi sé varpað á það hvernig forvirkar rannsóknarheimildir eigi að koma í veg fyrir það vandamál. Til þess að menn komist upp með afbrot þurfa þeir að vera á undan lögreglunni og villa um fyrir henni. Það liggur því í hlutarins eðli að aðferðir glæpamanna eru alltaf útsmognar. Halda menn virkilega að bófarnir gefist bara upp á því að vera útsmognir ef lögreglan fær formlegt leyfi til að beita þeim rannsóknaraðferðum sem hún beitir ólöglega hvort sem er?

2      Gagnleysi forvirkra rannsókna

Ekki eru nein haldbær rök færð fyrir því sem fullyrt er í þingsályktunartillögunni að forvirkar rannsóknir hafi skilað öðrum þjóðum árangri í því að uppræta skipulagða glæpastarfsemi. Það verður heldur ekki ráðið af fréttaflutningi frá hinum Norðurlöndunum eða öðrum Evrópuríkjum. Alvarlegir glæpir og hryðjuverk eru hreint ekki sjaldgæfari þar sem eftirlit með borgurunum er mikið og strangt og yfirvöld hafa ríkulegar heimildir til innrásar í einkalíf fólks. Forvirkar rannsóknir, vopnaburður lögreglu og fjölgun eftirlitsmyndavéla virðast þannig ekki þjóna þeim tilgangi að koma í veg fyrir glæpi.

Ég bendi þingmönnum á að kynna sér þessa stuttu en greinargóðu umfjöllun Smára McCarthy um hleranir og gagnageymd. Smári bendir m.a. á að hvergi í Evrópu hefur verið sýnt fram á að gagnageymd hafi marktæk áhrif á fjölda upplýstra afbrota og síst alvarlegra glæpa. http://www.visir.is/-thessi-hlerunararatta-er-alvarlegt-mal-/article/2011711099989

Fíkniefnadreifing og önnur skipulögð glæpastarfsemi

Áherslan á baráttuna gegn fíkniefnaviðskiptum og glæpastarfsemi tengdri þeim er meginröksemd stuðningsmanna fyrir nauðsyn þess að taka upp forvirkar rannsóknarheimildir. Ætlunin sé að koma í veg fyrir að vélhjólagengi hasli sér völl á Íslandi, dreifi dópi eins og jólasveinar sælgæti og berji mann og annan. Fyrir hinum almenna borgara hljómar þetta bara þó nokkuð vel, flesta hryllir við tilhugsuninni um Vítisengla og aðra hópa sem hafa tileinkað sér þeirra viðhorf til laga, viðskipta og mannhelgi.

Þegar hugað er að þessu markmiði er rétt að líta til reynslu annarra þjóða. Staðreyndin er sú að ekki í einu einasta þeirra ríkja sem tekið hafa upp forvirkar rannsóknarheimildir, hafa fíkniefnaviðskipti (eða handrukkanir, peningaþvætti og aðrir glæpir tengdir þeim) verið upprætt. Það hefur ekki einu sinni dregið út þeim. Sú hugmynd að hægt sé að stöðva fíkniefnadreifingu með því að ná í ,,toppana” er tálsýn ein. Fíkniefnabransinn er ekki manneskja sem hægt er að drepa með því að höggva af henni höfðuðið, nærtækara væri að líkja honum við runna; sé ein grein klippt burt, vex bara önnur í staðinn.

Eina leiðin til að uppræta fíkniefnaviðskipti er sú að takast á við rótina og hún er ekki mannvera, heldur eftirspurnin. Takist því á við eftirspurnina ef þið viljið fæla dópsala frá. Vinnið að samfélagi þar sem færri finna hjá sér hvöt til að breyta hugarástandi sínu. Íhugið þann möguleika að takast á við glæpagengi með því að svelta þau út. Skoðið möguleikann á því að lögleiða spilavíti, vændi og fíkniefni og setja reglur um starfsemina. Lítið til þess árangurs sem náðst hefur í tóbaksvörnum; sá árangur náðist ekki með því að banna tóbak og njósna um þá sem seldu það. Hann náðist með uppfræðslu og áróðri, ásamt reglum sem ekki er beint gegn sjálfsákvörðunarrétti reykingamanna heldur settar til að tryggja réttindi annarra. Reynið allar leiðir aðrar en þær að heimila lögreglunni að safna upplýsingum um fólk bara vegna þess að yfirvöld álíti það grunsamlegt. Persónunjósnir hafa nefnilega hvorki dregið úr framboði né eftirspurn ólöglegra efna og þjónustu hingað til en hinsvegar haft í för með sér mikinn kostnað fyrir hið opinbera og ómæld óþægindi fyrir saklaust fólk.

Hryðjuverkaógnin

Hvað hryðjuverkaógnina varðar þá kemur einmitt fram í greinargerð ríkislögreglustjóra að ekkert bendi til þess að sérstök hryðjuverkaógn steðji að Íslendingum. Það að auka valdheimildir lögreglu á ekkert skylt við það að vera vakandi fyrir möguleikanum á því að hryðjuverk verði framin á Íslandi og mjög vafasamt að forvirkar rannsóknarheimildir komi í veg fyrir slíkt. Nýlegt dæmi frá Noregi leiðir hugann að því hvort slíkar heimildir feli jafnvel í sér falskt öryggi.

Efnahagshrunið

Í umfjöllun ríkislögreglustjóra kemur fram að ekki liggi fyrir hvort umsvif meintra fjármálaglæframanna í tengslum við efnahagshrunið geti flokkast sem skipulögð glæpastarfsemi. Það er því hæpið að nokkurntíma hefði reynt á forvirkar rannsóknarheimildir, hvað varðar umsvif löglegra fyrirtækja,  jafnvel þótt þær hefðu verið við lýði á árunum fyrir hrun.

Hitt er ljóst að í aðdraganda hrunsins brugðust eftirlitsstofnanir lögmætu og opinberu eftirlitshlutverki sínu. Nær væri að beita þeim úrræðum sem þegar eru í boði til þess að stemma stigu við spillingu og eiginhagsmunapoti innan fjármálakerfisins, þ.e.a.s. heiðarlegu og opinberu eftirliti, en að taka upp leynilegar njósnir lögreglu eða annarra yfirvalda. Það mætti allavega reyna þá aðferð að renna yfir bókhald banka og stórfyrirtækja, áður en farið er að hlera síma bankafólks eða koma staðsetningarbúnaði fyrir í bílum manna sem einhverjum í lögreglunni þykja grunsamlega vel stæðir.

Í ljósi þess hvernig eftirlitsstofnanir á Íslandi stóðu sig í því að afstýra efnahagshruni, tel ég enga ástæðu til að ætla að eftirlit með njósnaheimildum skili betri árangri á Íslandi.

Ónothæfar röksemdir

Í þingsályktunartillögunni eru engin rök færð fyrir því að forvirkar rannsókni komi raunverulega í veg fyrir glæpi sem ekki hefði verið hægt að fyrirbyggja án njósna. Óljósar fullyrðingar fyrrverandi dómsmálaráðherra um að henni hafi borist greiningar, gögn og upplýsingar, án þess að það sé neitt skýrt nánar, eru svo vond rök að það er til vansa að fólki í ábyrgðarstöðum detti í hug að tefla þeim fram. Eftirfarandi málsgrein vekur sérstaka athygli mína:

,,Nýlega kom danska og sænska lögreglan í veg fyrir fyrirhuguð fjöldamorð á starfsfólki Jyllandsposten, að sögn vegna slíkrar rannsóknarvinnu.”

,,Að sögn.” Hverskonar eiginlega rök eru þetta í opinberu plaggi? Að sögn hvers? Hvernig komst lögreglan á snoðir um þessa fyrirætlun? Hvernig kom lögreglan í veg fyrir þessi fjöldamorð? Hverjir hugðust myrða fólkið og hvar eru þeir núna? Hvaða hlutverki gegndu forvirkar rannsóknir? Getum við fengið að sjá alvöru heimildir?

Ef ætlunin er að veita lögreglunni leyfi til að fylgjast með fólki sem ekki er grunað um afbrot, er lágmarkskrafa að sú aðgerð sé studd almennilegum rökum og gögnum en ekki óstaðfestum sögusögnum. Ég velti því fyrir mér hvort þingnefndin sem stendur að tillögunni hafi yfirhöfuð einhverja hugmynd um það hvaða mála Ragna Árnadóttir, fyrrum dómsmálaráðherra, var að vísa til og hvernig þessum málum sem tengjast Jyllandsposten var háttað. Ef ekki, ber nefndinni að kalla eftir afriti af umræddum gögnum þegar í stað og leggja þau fyrir þingheim með tillögunni.

Hættan á misbeitingu í þágu kynþáttahyggju

Helst er að sjá sem auknar valdheimildir lögreglu séu afar áhrifalítil leið til að sporna gegn glæpum og því réttast að reyna allar leiðir aðrar. Stjórnvöld þurfa að setja sér það markmið að skapa samfélag þar sem fólk er ólíklegt til að vilja taka þátt í glæpum, fremur en að reyna að halda aftur af því með persónunjósnum.

Ég hef sérstakar áhyggjur af því að forvirkum rannsóknarheimildum verði beitt í þágu kynþáttastefnu en með auknu fólksflæði milli landa skapast hætta á gengjaátökum og kynþáttafordómum. Nauðsynlegt er að taka þannig á móti innflytjendum að þeir eigi raunhæfa möguleika á upplifa sig sem hluta af samfélaginu. Sérstaklega er mikilvægt að halda vel utan um fyrstu kynslóð Íslendinga, þ.e.a.s. börn sem alast upp á Íslandi en eiga foreldra sem koma frá öðru menningarsvæði. Í öðrum Evrópuríkjum hefur borið á því að unglingar sem eiga sér í raun ekkert þjóðerni og samsama sig hvorki menningu landsins sem þeirra ólust upp í, né menningu foreldra sinna, skapi sér sína eigin menningu. Kynþáttaátök og gengjastríð hafa einkennt hverfi þar sem mikið er um innflytjendur og hafi afbrot og frávikahegðun færst í vöxt á Norðurlöndum er þetta líklega ein skýringin. Til þess að fyrirbyggja þetta vandamál á Íslandi, á ekki að gefa lögreglunni leyfi til að njósna um innflytjendur og afkvæmi þeirra, heldur að styðja við raunverulegt fjölmenningarsamfélag og skapa börnum innflytjenda uppeldisaðstæður sem draga verulega úr þörf þeirra fyrir að mynda sína eigin menningu.

Vilji lögreglunnar skiptir engu máli

Það að lögreglan vilji fá auknar valdheimildir er í sjálfu sér afleit rök fyrir því að veita þær. Að sjálfsögðu telur lögreglan þessar heimildir ómetanlegar því þessum aðferðum er þegar beitt og það er óneitanlega þægilegra að hafa lögin sín megin. Hitt ber að hafa í huga að heimildunum hefur verið beitt gegn ýmsum hópum sem fyrst og fremst eru taldir hættulegir vegna skoðana sinna og á meðan ekki fæst uppgefið hvernig forvirkar rannsóknarheimildir hafa komið í veg fyrir hryðjuverk og ofbeldi, er útilokað að taka mark á þessháttar málflutningi.

3    Skortur á eftirliti

Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að eftirlit með beitingu valdheimilda komi í veg fyrir misnotkun.

Áður en við göngum að því sem vísu að eftirlit skili viðunandi árangri, skulum við aðeins staldra við það eftirlit sem þegar er við lýði. Hvernig koma menn í veg fyrir að lögreglan hleri síma, lesi tölvupóst og fylgist með ferðum fólks án heimildar? Hvernig er eftirliti með framkvæmd dómsúrskurða háttað? Hvernig er eftirliti með notkun annarra valdheimilda háttað? Hvernig er tekið á málum þar sem lögreglan fer offari?

Ég hef rætt þetta við ýmsa aðila og leyfi mér að vísa beint í hugleiðingar Einars Þórs Einarssonar en hann bendir á að ekkert eftirlit hefur verið með dómsúrskurðarlausum hlerunum árum saman þrátt fyrir skýr lagaákvæði þar að lútandi.

,,Ástæðan sem var notuð sem réttlæting fyrir hlerunum án dómsúrskurðar var sú að oft þyrfti lögreglan að bregðast fljótt til að ná upplýsingum (barnaníðingar og dópsalar voru auðvitað notaðir sem dæmi) og því væri krafan um dómsúrskurð fyrir hlerun orðin óþolandi töf á málum. Að vísu standast þessi rök ekki skoðun en látum það liggja á milli hluta.

Réttaröryggi átti að vera tryggt með því að lögreglan skyldi sækja um dómsúrskurð samhliða hlerun og sömuleiðis láta alla sem í hlut áttu vita að þeir hefðu verið hleraðir eins fljótt og auðið yrði nema hlerun leiddi til áframhaldandi rannsóknar. A.m.k. tvö mikilvæg atriði fóru úrskeiðis:

  • Þar sem engin gögn hafa verið lögð fram, vitum við ekkert um hversu gagnleg þessi lög hafa verið, hvort þau hafi náð markmiðum sínum eður ei.
  • Réttarörygginu var sannanlega fórnað þar sem lögreglan átti sjálf að sjá um að fylgjast með sér. Í stað þess að áður hefðu símafyrirtækin krafist þess að sjá dómsúrkurð, þá er nú enginn í samfélaginu eftir sem hefur bæði vitneskju um hlerun og skyldu eða hagsmuni af því að sjá til þess að ferlið sé rétt. Enginn.

Á ekki það sama við um þessar forvirku heimildir? Hvaða þriðji aðili mun hafa bæði vitneskju um rannsókn og hagsmuni/skyldur til að sjá til þess að heimildunum sé beitt rétt?

Við þetta má bæta að ekki einasta hefur eftirlit með hlerunum verið gersamlega vanrækt, heldur hafa ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri beinlínis lagst gegn því að þolendum persónunjósna verði skipaður réttargæslumaður til að tryggja að löglega sé staðið að hlerunum. Finnst alþingismönnum viðeigandi að treysta embættum þar sem þessi viðhorf eru við lýði fyrir auknu valdi til innrásar í einkalíf borgaranna?

Áður en við tökum upp forvirkar rannsóknarheimildir og strangt eftirlit með þeim, væri við hæfi að við tækjum upp almennilegt eftirlit með þeim störfum sem lögreglunni er nú þegar ætlað að leysa af hendi. Nauðsynlegt er að það eftirlit sé á höndum annarra aðila en ríkissaksóknara því þar sem hans embætti hefur mikið og náið samstarf við aðrar deildir lögreglunnar geta starfsmenn þess fráleitt talist hlutlægir

4    Umburðarlyndi gagnvart valdníðslu

Ef dæma má af umfjöllun fjölmiðla; annars vegar fréttir af tilvikum þar sem lögreglan misbeitir valdi sínu og hinsvegar af viðbrögðum ríkissaksóknara og dómskerfisins við kvörtunum, er eftirliti með störfum lögreglunnar annað hvort verulega ábótavant eða þá að vinnubrögð sem standast engar reglur eru bara látin viðgangast þrátt fyrir eftirlitið. Margt bendir til að mun meira sé um að lögreglan fari út fyrir verksvið sitt og misbeiti valdi sínu en dómar gefa til kynna og ekki er að sjá að eftirlit komi í veg fyrir það.

Dæmi eru um að menn láti lífið í höndum lögreglu en hafi á annað borð farið fram einhver rannsókn á því hvernig dauða þeirra bar að höndum, hafa upplýsingar um það allavega ekki ratað í fjölmiðla. Þannig hefur enn ekkert frést af manninum sem lést í haldi lögreglu á Suðurnesjunum í október sl.

Ekki hefur heldur neitt heyrst af rannsókn á því hvernig í ósköpunum manni, sem sagður er hafa svipt sig lífi í fangaklefa sumarið 2009, tókst það hjálparlaust en það verður að teljast afar ótrúverðugt.

Innan lögreglunnar eru dæmi um valdníðslu af öllu hugsanlegu tagi. Má þar nefna: húsleitir án dómsúrskurðar, ólöglegar handtökur, jafnvel á börnum, óþarfa harðræði við handtökur og algerlega óréttlætanlegar líkamsárásir. Áralöng barátta fyrir rannsóknum á vinnubrögðum lögreglu í máli mannanna sem létust í Daníelsslipp hefur ekki borið árangur og þrátt fyrir að rannsókn leiddi í ljós harðræði gagnvart sakborningum í Geirfinnsmálinu á sínum tíma, hefur enginn þurft að sæta ábyrgð vegna þess, svo örfá dæmi séu nefnd.

Einnig má benda á að jafnvel þegar lögreglumenn eru ákærðir fyrir að misbeita valdi sínu, er ólíklegt að þeir séu leystir frá störfum, og ef það á annað borð gerist í kjölfar sektardóms er það aðeins tímabundin ráðstöfun. Jafnvel þegar grunur leikur á um svo viðurstyggilegan glæp sem kynferðisofbeldi gagnvart barni virðast lögreglumenn friðhelgir.

Ljóst er að eftirliti með störfum lögreglu er ábótavant og sjaldgæft að menn sem fara offari þurfi að sæta ábyrgð. Þá er rétt að hafa í huga að lögreglan sem stofnun er algerlega ósnertanleg. Að rétta stofnun sem aldrei þarf að standa skil á afglöpum sínum upp í hendurnar, annað eins vald og það sem felst í forvirkum rannsóknarheimildum, væri hreint og klárt glapræði.

5   Reynsla annarra þjóða af njósnum um pólitískar hreyfingar

Innanríkisráðherra hefur látið hafa eftir sér að frumvarpi um forvirkar rannsóknarheimildir sé síður en svo beint gegn almenningi, grasrótarhópum eða stjórnmálasamtökum, heldur eingöngu gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Í þessu sambandi bið ég þingmenn vinsamlegast að kynna sér í hvaða tilgangi eftirliti með borgurunum hefur verið beitt annarsstaðar.

Reynsla Svía

Sænska öryggislögreglan SÄPO, njósnaði um vinstrimenn í marga áratugi án þess að nokkar vísbendingar kæmu fram um glæpastarfsemi á vegum stjórnmálahreyfinga.

Njósnir SÄPO gengu svo langt að mannréttindadómstóll Evrópu sakfelldi Svía fyrir mannréttindabrot. Sérstök eftirlitsnefnd (Säkerhetskommissionen) sem rannsakaði starf SÄPO álítur að enn í dag, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið, sé veruleg hætta á að njósnaheimildum sé beitt í vafasömum tilgangi.

Meðal þeirra sem hafa sætt persónunjósum í Noregi eru allar hreyfingar sem stjórnvöld töldu öfgasinnaðar svo sem andstæðingar kjarnorkuvopna, stuðningsmenn Palestínu, feministar og samstöðuhreyfingar með Víetnam. Einnig kemur fram í skýrslunni að þrátt fyrir að tugir þúsunda borgara hafi á 4-5 áratugum verið skráðir sem ógnvaldar við öryggi landsins, hafi yfirvöld aldrei sýnt neina viðleitni til að koma á reglum um það hvernig skráningu skuli háttað.

Reynsla Dana

Varla kemur það þeim sem hefur kynnt sér reynslu Norðmanna og Svía af forvirkum rannsóknarhemilidum, á óvart að sjá nákvæmlega sama mynstur í Danmörku. Mikið efni er til um starfsemi eftirgrennslanadeildar lögreglunnar, PET, og hvet ég þingmenn til að kynna sér það. http://www.petkommissionen.dk/

Fylgst var með áhrifamönnum innan kommúnistaflokksins í meira en 4 áratugi og sér í lagi samstarfi þeirra við friðarhreyfingar og samtök sem störfuðu austantjalds og/eða voru Sovétmönnum hliðholl. Það vekur þó athygli að þrátt fyrir allar þessar eftirgrennslanir, mistókust flestar tilraunir PET til að komast nálægt forystumönnum kommúnistaflokksins og svo virðist sem ýmis áform um hleranir og aðrar njósnaaðferðir hafi ekki náð fram að ganga. Það má því leiða að því líkur að hópar sem eru vel á varðbergi og hafa grun um að þeir séu undir augliti yfirvalda, komi sér upp aðferðum til að smjúga fram hjá eftirlitinu. Ennfremur má ætla að hópar sem raunverulega standa í skipulagðri glæpastarfsemi hafi meiri áhyggjur af eftirliti en löglegir hópar pólitískra aðgerðasinna og þar með að mun erfiðara sé að beita forvirkum rannsóknarheimildum til að fylgjast með þeim sem ógna öryggi almennra borgara en grasrótarhreyfingum.

Reynsla Bandaríkjamanna

Í Bandaríkjunum sem og annarsstaðar var forvirkum rannsóknarheimildum komið á í því skyni að vernda öryggi borgaranna og landsins. Reyndin varð hinsvegar sú að heimildunum hefur margsinnis verið beitt til þess að koma höggi á grasrótarhreyfingar og önnur þjóðfélagsöfl, vinna gegn tjáningarfrelsi þeirra og hindra borgara í þátttöku í starfsemi þeirra.

Ég bendi sérstaklega á samantekt Jóns Þórs Ólafssonar um skýrslu bandarískrar þingnefndar um misbeitingu forvirkra rannsóknarheimilda í Bandaríkjunum. Hann gerir bæði grein fyrir því hvaða hópar sæta njósnum og þeim aðferðum sem notaðar hafa verið við eftirlitið en þær eru á köflum verulega óhugnanlegar. Þetta er stutt grein og þægileg aflestrar, vinsamlegast lesið hana.

6     Ólöglegar njósnir á Íslandi

Það er út af fyrir sig gott markmið að vilja afstýra hryðjuverkum og glæpum og ef við hefðum góða ástæðu til að telja Íslendinga siðferðilega sterkari en Bandaríkjamenn og aðra Norðurlandabúa, gæti ég skilið að einhverjum dytti í hug að forvirkar rannsóknarheimildir séu góð hugmynd. Það er hinsvegar engin ástæða til að halda að íslensk yfirvöld hafi minni áhuga á að njósna um grasrótarhreyfingar og stjórnmálaflokka en stjórnvöld í öðrum ríkjum, þvert á móti má sjá nákvæmlega sömu tilhneigingar hér og annarsstaðar.

Á tímum kalda stríðsins fóru fram skipulegar símhleranir á Íslandi. Tilgangurinn var ekki sá að koma í veg fyrir starfsemi vélhjólagengja, heldur að fylgjast með pólitískum andstæðingum sitjandi valdhafa. Ekkert bendir til þess að nokkur maður eigi að sæta ábyrgð vegna símhlerana og annarra brota gegn mannréttindum stjórnmálamanna sem aldrei voru þó sekir um stærri syndir en þær að vera vinstri sinnaðir.

Og fátt hefur breyst á Íslandi á fjörutíu árum. Skemmst er að minnast máls breska njósnarans Mark Kennedy, sem kveðst hafa verið lánaður til að njósna um hópa aðgerðasinna í fjölmörgum löndum, þ.á.m. umhverfishreyfinguna Saving Iceland. Útilokað hefur verið að fá fram svör um það hvernig samstarfi lögreglunnar við bresk yfirvöld var háttað í því máli. Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur m.a.s. réttlætt leyndina með þeim rökum að til þess að svara spurningum lögfræðinga Saving Iceland, hefði þurft að rjúfa milliríkjatrúnað við Bretland.

Ekki er enn á hreinu hvort Bretar studdu Íslendinga í ólöglegum njósnum með því að senda Mark Kennedy til Íslands eða hvort íslensk yfirvöld útveguðu Bretum njósnaaðstöðu á Íslandi og ekkert hefur komið fram sem bendir til annars en að yfirvöld eigi að komast upp með að senda njósnara inn í raðir aðgerðasinna og jafnvel ofan í svefnpokana þeirra. Tel ég illa komið fyrir þjóð sem samþykkir aðra eins innrás í einkalíf fólks sem reynir að sporna gegn stórframkvæmdum á borð við Kárahnúkjavirkjun, ekki með vopnavaldi, heldur eingöngu með því að nota líkama sinn sem hindrun um stundarsakir. Þá er rétt að fram komi að þrátt fyrir dvöl flugumanns meðal mótmælenda, tókst lögreglunni ekki að afstýra einni einustu aðgerð á vegum S.I. og vekur það óneitanlega enn frekari efasemdir um árangur njósa.

Annað sem rétt er að hafa í huga er að skilgreiningar lögreglunnar á skipulagðri glæpastarfsemi eiga við um starf pólitískra hreyfinga, ekkert síður en fíkniefnabaróna og handrukkara. Af þessari skýrslu frá greiningardeild ríkislögreglustjóra má t.d. ráða að embættið líti Saving Iceland sömu augum og Vítisengla og önnur skipulögð glæpasamtök.

Um þessa eðlisólíku hópa er þannig fjallað á sama hátt og í sömu andrá, t.d. segir í skýrslunni:

Þessi ákvæði lögreglulaga hafa mótað öll viðbrögð íslensku lögreglunnar við aðgerðum samtakanna Saving Iceland hér á landi. Þau hafa sömuleiðis mótað öll viðbrögð og starfsaðferðir lögreglu í þeirri baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem fram fer.

Ég tel það í meira lagi varasamt að treysta yfirvöldum sem gera lítinn eða allavega óljósan greinarmun á óvopnuðu fólki sem berst gegn stóriðju og náttúruspjöllum og fólki sem stendur í stórfelldum fíkniefnaviðskiptum, stundar ofbeldisfulla fjárkúgun, er orðað við vopnasölu og jafnvel mansal, fyrir valdheimildum til að fylgjast með hópum og samtökum. Auk þess er ljóst að forvirkar rannsóknir eru og hafa verið stundaðar án heimildar og ómögulegt hefur reynst að fá upplýsingar um misnotkun þeirra frá yfirvöldum. Það eitt er næg ástæða til að treysta stofnunum ríkisvaldsins ekki fyrir þessum heimildum.

7 Forðumst mistök nágrannaþjóðanna

Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir því að með skýru eftirliti verði hægt að koma í veg fyrir að slíkar heimildir verði misnotaðar. Ekki er þó að finna orð um það hvernig eftirliti með hlerunum og söfnun persónuupplýsinga hefur verið háttað hingað til, hvað þá að imprað sé á þeirri staðreynd að allsstaðar þar sem lögreglan hefur heimildir til rannsaka ódrýgða glæpi, hafa þær verið notaðar til þess að fylgjast með stjórnmálahreyfingum og öðrum hópum sem að mati stjórnvalda teljast óæskilegir.

Sé litið til þess hvernig forvirkar rannsóknarheimildir hafa verið notaðar annarsstaðar, verður ekki betur séð en að þær þjóni í reynd þeim tilgangi að viðhalda ríkjandi skipan, hvort heldur er á sviði stjórnmála eða efnahagslífs og berja niður allar tilraunir til gagngerra breytinga. Þótt farið sé af stað með því markmiði að koma í veg fyrir glæpi og hryðjuverk, er engin ástæða til að ætla að þróunin verði önnur á Íslandi.

Hvernig standa skal að verki ef heimildirnar verða samþykktar

Verði af því stórslysi að forvirkar rannsókarheimildir verði veittar, vona ég sannarlega að þingheimur nái samkomulagi um skynsamlegra fyrirkomulag en það að setja eftirlitið í hendur dómstóla. Eftirlitsnefnd ætti ekki að tengjast dómskerfinu á nokkurn hátt. Helst ætti Alþingi heldur ekki að koma nálægt vali á eftirlitsaðilum, heldur ætti almenningur að fá að hafa bein áhrif á það hvernig slík eftirlitsstofnun yrði skipuð. Ég leitaði álits nokkurra félaga minna á því hvort og þá hvernig væri hugsanlega hægt að tryggja almennilegt eftirlit. Enginn var hrifinn af hugmyndinni um forvirkar rannsóknir en hér á eftir fara dæmi um svör sem mér bárust:

Hlutverk eftirlitsaðila ætti að vera það eitt að gæta hagsmuna almennings og þeirra sem fylgst er með af lögreglu, á sama hátt og Umboðsmaður Alþingis er algerlega óháður og ótengdur þeim stofnunum sem hann fylgist með, öfugt við dómstólana og tengsl þeirra við saksóknara og lögreglu.  

Slíkur eftirlitsaðili ætti að hafa ótakmarkaðar heimildir til að skoða gögn lögreglu og kalla fyrir sig starfsmenn lögreglu til að spyrja um mál af þessu tagi.  Þeir ættu að vera skyldugir til að segja satt og rétt frá, eins og eiðsvarin vitni í dómi, og það ætti að varða starfsmissi að neita að svara, eða segja ósatt.

Allt sem slíkur eftirlitsaðili kæmist að og ekki þyrfti nauðsynlega að fara leynt, ætti að birta opinberlega (með útstrikuðum persónuatriðum ef með þarf).  Það er nauðsynlegt til að lögreglan fái nægt aðhald í starfi sínu.”Einar Steingrímsson

Undir öllum kringumstæðum þarf að byggja gagnaöflun kerfisbundið inní allar nýjar valdheimildir. Við þurfum að geta litið til baka eftir segjum 10 ár og séð (án þess að skipa sérstakar rannsóknarnefndir) hversu oft heimildinni var beitt, hversu oft það leiddi til handtöku, ákæru, dóms. M.ö.o. það þarf að vera hægt að leggja hlutlægt mat á gagnsemi valdheimilda ef þær eru veittar.”Einar Þór Einarsson:

Hvað með önnur ráð sem yfirvöld annarra þjóða misnota?

Hverjum manni sem eitthvað hefur kynnt sér notkun forvirkra rannsóknaheimilda erlendis má ljóst vera að slíkar valdheimildir hafa verið nýttar og eru nýttar í þeim tilgangi að hindra löglega, pólitíska starfsemi hópa sem eru yfirvöldum ekki að skapi. Það má undrum sæta að íslenskir vinstri menn skuli einu sinni láta sér detta í hug að kalla yfir okkur slíka óhæfu. Ein þeirra röksemda sem teflt er fram í umræddri þingsályktunartillögu eru þessi:

Engin rök eru til þess að lögreglan á Íslandi hafi minni og þrengri heimildir en lögregla annars staðar á Norðurlöndunum.

Þessu mætti allt eins snúa við og segja að engin rök séu til þess að lögreglan á hinum Norðurlöndunum hafi meiri og víðari heimildir en lögreglan á Íslandi.

Eins má spyrja hvar við endum ef við erum stöðugt að bera okkur saman við önnur samfélög? Er einhver ástæða til þess að lögreglan á Íslandi fái ekki að bera rafbyssur eins og lögreglan í sumum öðrum löndum? Hvað með skotvopn? Er einhver ástæða til að íslenska lögreglan beiti ekki ,,skilvirkum yfirheyrslu- aðferðum” (sem á mannamáli nefnast pyntingar) fyrst Bandaríkjamönnum finnst þær gefa góða raun? Og hvað með forvirkar refsiaðgerðir? Væri ekki einfaldara að loka grunsamlegt fólk inni en að njósna um það?

Hverjir geta vænst þess að sæta persónunjósnum?

Nái lög um forvirkar rannsóknarheimildir fram að ganga, verður það stærsta afturfararspor Íslandssögunnar í mannréttindamálum. Heimildirnar munu án nokkurs vafa verða nýttar til þess að afla upplýsinga um grasrótarhreyfingar. Þeir sem geta reiknað með því að búa við skerta friðhelgi eftir gildistöku laganna eru talsmenn og aðrir áberandi liðsmenn allra hreyfinga aðgerðasinna. Má þar nefna eftirfarandi hreyfingar:

  • Samtök hernaðarandstæðinga
  • Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna
  • Rauður vettvangur
  • Saving Iceland
  • Feministahreyfingar
  • Vantrú
  • No Borders
  • Ísland-Palestína
  • Vinir Tíbets
  • Attack
  • Fíflahreyfingin
  • Occupy Reykjavík

Einnig má reikna með að aðstandendur pólitískra vefmiðla á borð við Róstur, Eggina, Svipuna, Gagnauga o.fl. verði undir stöðugu eftirliti.

Ástæðan fyrir því að ég nefni einmitt þessar hreyfingar er sú að þetta eru annarsvegar hópar sem aðhyllast og/eða hafa beitt beinum aðgerðum sem í sumum tilvikum ögra ramma laganna. Hinsvegar hafa kommúnistar og anarkistar öðrum fremur orðið fyrir barðinu á löglegum jafnt sem ólöglegum njósnum og margt fólk sem aðhyllist slíkar stjórnmálaskoðanir tengist þessum hreyfingum. Eflaust gleymi ég einhverjum hópum í þessari upptalningu auk þess sem liðsmenn margra aðgerðahópa sem starfað hafa um styttri tíma, geta átt von á því að með þeim verði fylgst ef þeir ganga til liðs við aðrar grasrótarhreyfingar eða stjórnmálaöfl.

Forvirkar rannsóknarheimildir munu hinsvegar ekki leiða til upprætingar glæpagengja og minni hættu á ofbeldi og hryðjuverkum. Ég bið því þingmenn vinsamlegast að velta því fyrir sér, áður en þeir samþykkja þetta brjálæði, hvaða afleiðingar það getur haft fyrir einstaklinga og fjölskyldur að búa við persónunjósnir. Gerið ykkur í hugarlund hvílík frelsisskerðing það er að geta ekki rætt fjölskyldumál í síma eða tölvupósti. Að eiga allt eins von á því að staðsetningarbúnaði hafi verið komið fyrir í bílnum, jafnvel hlerunarbúnaði á vinnustað eða heimili. Ert þú tilbúinn til þess að útskýra fyrir fjölskyldu þinni að sennilega sé best að hvísla í hvert sinn sem einkamál eru rædd á heimilinu, ekki af því að þú hafir gert neitt voðalegt, heldur af því að þú sért ósammála sitjandi ríkisstjórn um mikilvæg mál? Myndi þitt heimili þola slíkt álag?