Hver er fljótlegasta leiðin til að losna við leigjendur. Þau eru í herbergi, búin að vera 2 ár og enginn skriflegur samningur.
☆☆☆
Þar sem enginn skriflegur samningur liggur fyrir er litið svo á að um ótímabundinn samning sé að ræða. Uppsagnarfrestur á herbergi er 3 mánuðir þegar samningur er ótímabundinn. Þú þarft að tilkynna uppsögn skriflega og uppsagnarfrestur hefst næstu mánaðamót eftir að hún var tilkynnt, talið frá fyrsta degi mánaðar. Þannig að ef þú afhendir skriflega tilkynningu í dag, þá byrjar 3ja mánaða frestur að líða 1. ágúst.
Annar möguleiki er að rifta samningnum en þá verða þau að flytja út strax. Það er ekki hægt að rifta samningi nema vegna verulegra vanefnda og mikilvægt að gera það aðeins að vel hugsuðu máli því ef þú riftir án nægilegs tilefnis geturðu bakað þér skaðabótaskyldu. Þetta er sérstaklega vandasamt þegar skriflegur samningur liggur ekki fyrir. Munnlegir samningar hafa sama gildi og skriflegir en aftur á móti getur reynst erfitt að sanna efni þeirra.
Ef leigusala og leigjanda ber ekki saman um það hvaða skilmála var samið um þá líta dómstólar til þess hvaða háttur hefur raunverulega verið hafður á. Ef það hefur t.d. gerst oft að leigan sé ekki greidd fyrr en 3 vikum eftir eindaga án þess að leigusali geti sýnt fram á að hann hafi gert eitthvað til að ganga á eftir því, þá er litið svo á að leigusali hafi samþykkt þann greiðslufrest. Það er því varhugavert að nota greiðsludrátt eða aðrar vanefndir sem réttlætingu fyrir riftun nema hafa góðar sannanir.