Þorgeir Ingi Njálsson hefur verið settur Umboðsmaður Alþingis fram að áramótum. Þetta eru vondar fréttir og með ólíkindum að nokkrum skuli hafa dottið það í hug.
Hlutverk Umboðsmanns Alþingis er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Almennur borgari sem telur að stjórnvöld hafi brotið stjórnsýslulög eða gert sig sek um óvönduð vinnubrögð í máli sem hann varðar, getur snúið sér til Umboðsmanns Alþingis og fengið álit hans á því hvort rétt var að verki staðið. Þessi þjónusta er borgaranum að kostnaðarlausu og ekki er gert ráð fyrir að hann sé löglærður heldur á leikmaður auðveldlega að geta komið kvörtun sinni á framfæri. Umboðsmaður hefur ekki formlegt vald til þess að snúa ákvörðunum stjórnvalda við en hann getur mælst til þess að mál séu endurskoðuð eða hlutur borgarans réttur ef stjórnvöld hafa brotið gegn honum og venjulega eru þær ábendingar teknar alvarlega.
Það er mikið hagræði að því fyrir almenna borgara að geta leitað til Umboðsmanns Alþingis enda er kostnaðarsamt að standa í málaferlum, það er tímafrekt og útheimtir oft talsverða vinnu. Tryggvi Gunnarsson hefur sinnt hlutverki Umboðsmanns Alþingis af trúmennsku og þau álit sem skrifuð hafa verið í hans umboði, og eru birt á vef embættisins, eru langoftast ef ekki alltaf sérlega vönduð út frá lögfræðilegu sjónarmiði en einnig vel skrifuð, skýr og skiljanleg og laus við óþarfa málalengingar. Mætti margur dómarinn taka embætti Umboðsmanns sér til fyrirmyndar að því leyti. Þótt Umboðsmanni sé ekki skylt að taka fyrir öll erindi sem embættinu berast, heyrir til undantekninga ef það er ekki gert.
Umboðsmaður Alþingis hefur eftirlit með stjórnsýslunni og því er nauðsynlegt að sá sem gegnir því hlutverki sé fær um að leggja kalt mat á vinnubrögð framkvæmdarvaldsins. Þorgeir Ingi Njálsson hefur mikla reynslu af því að vinna fyrir framkvæmdarvaldið og dæmi eru um embættisfærslur sem bera vott um takmarkaða virðingu hans fyrir þjónustuhlutverki þess. Það er ekki góðs viti að maður sem sinnir ekki leiðbeiningaskyldu sinni sem dómstjóri, gefur loðin svör og veit ekki eða lætur sem hann viti ekki hvort almenningur á rétt á aðgangi að dómum, skuli nú eiga að gæta hagsmuna almennings gagnvart framkvæmdarvaldinu. Dæmi um dómsýslu Þorgeirs Inga má sjá í þessu skjali sem inniheldur efni tölvupósta sem fóru á milli okkar fyrir nokkrum árum, þegar hann gegndi stöðu dómstjóra við Héraðsdóm Reykjaness. Nánar er fjallað um þau samskipti í þessum pistli.
Ég mun ráðleggja þeim sem mér eru kærir og þurfa að leita til Umboðsmanns, að reyna að fresta því fram yfir áramót ef mögulegt er.