Ég er „lausaleiksbarn“. Blóðfaðir minn hefur aldrei viljað neitt af mér vita og mamma þurfti að pína hann í dna próf til að fá meðlag. Hvað þarf ég að gera til fá arf eftir hann? Ég þekki ekki fjölskyldu hans og er ekkert viss um að aðrir erfingjar láti mig vita þegar hann deyr.

☆☆☆

Þar sem maðurinn hefur verið úrskurðaður til meðlagsgreiðslna er hann væntanlega skráður faðir þinn. Ef svo er þarftu ekki að grípa til neinna sérstakra ráðstafana til að tryggja þér erfðarétt.

Ef þú hefur ekki komist að því áður að arfleifandi sé látinn þá færðu þær upplýsingar þegar kemur að skiptum. Ef eru fleiri erfingjar en þú, þá geta einkaskipti ekki hafist nema allir erfingjar (þar með þú) undirriti beiðni um það. Erfingjarnir verða að undirrita yfirlýsingu um að þeir viti ekki af öðrum sem eigi hugsanlega tilkall til arfs. Ef einhver þeirra krefst opinberra skipta þarf sá sami einnig að gefa upp hverjir gætu átt kröfu á arfi og þá færðu tilkynningu um skiptafund frá skiptastjóra.

Ef þú ert eini erfinginn og fréttir ekki af andláti föður þíns getur dregist að búið sé tekið til skipta. Sýslumaður á að láta erfingja vita að til geina komi að taka dánarbú til opinberra skipta ef þeir hafa ekki gert neinn reka að einkaskiptum þegar 4 mánuðir eru liðnir frá andláti en í reynd dregst það oft miklu lengur.

Ef engir erfingjar finnast er birt innköllun í Lögbirtingarblaði og skorað á þá sem telja sig eiga rétt á arfi að gefa sig fram. Fáir leikmenn fylgjast með Lögbirtingarblaði svo slík innköllun gæti auðveldlega farið fram hjá þér. Helsta hætta á því að erfðaréttur fari forgörðum er því sú ef þú ert eini erfinginn eða ef enginn annar erfingi veit af þér.

Photo 136179523 © Gualtiero Boffi | Dreamstime.com