Nágranni minn á tíræðisaldri er enþá keyrandi. Hann hefur ítrekað sést keyra utan í grindverk og bíla, ég hef séð hann fara yfir á rauðu ljósi og tel hann almennt hættulegan í umferðinni. Lögreglan veit af áhyggjum nágranna en segir að ef læknir telji hann hæfan sé ekki hægt að svipta hann ökuréttindum. Á fjölskylda mín engan rétt á öryggi?
☆☆☆
Jú, fjölskylda þín á rétt á öryggi í umferðinni og þessvegna eru í umferðarlögum ákvæði um að missi ökuréttinda.
Til þess að fá ökuskírteini þarf maður að vera fær um það líkamlega og andlega að stjórna ökutæki. Ef ökumaður uppfyllir ekki lengur þau skilyrði sem þarf að fá ökuskírteini getur lögreglan afturkallað þau réttindi. Það er rétt að afturköllun ökuréttinda þarf að byggjast á læknisfræðilegu mati. Afur á móti getur lögreglan afturkallað ökuréttindi til bráðabirgða í þrjá mánuði, á meðan beðið er eftir læknisfræðilegu mati, ef sérstök ástæða er til að ætla að ökumaður hafi misst færni sína til að stjórna ökutæki. Þú getur séð nánar um þetta í 63. gr. umferðarlaga.
Ég ráðlegg þér að senda erindi til lögreglu með tölvupósti, þannig að þú hafir skriflega sönnun um að þú hafir tilkynnt um þetta ástand. Taktu þá fram að maðurinn hafi margsinnis sést aka utan í og brjóta umferðarreglur. Nefndu staði þar sem þau atvik hafa átt sér stað og eins nákvæmar tímasetningar og þér er unnt og bentu á vitni. Þetta ætti að gefa lögreglunni ástæðu til að telja að það sé „sérstök ástæða“ til að beita ákvæði um afturköllun til bráðabirgða.
Einnig myndi ég í þínum sporum senda tilkynningu til velferðarsviðs sveitarfélagsins. Ef maður er ófær um að taka ábyrgar ákvarðanir og er líklegur til að fara sjálfum sér að voða og/eða valda slysi, þá getur verið ástæða til þess að félagsmálayfirvöld grípi inn í.
Mynd: © Roman Samborskyi | Dreamstime.com