Tvö börn dómfelldu í Geirfinnsmáli eru ættleidd en aðeins annað gæti mögulega átt bótarétt
Ég hef áður skrifað um þau undarlegu lög nr. 128/2019, sem áttu að tryggja þeim sem voru ranglega sakfelldir í Guðmundar- og Geirfinnsmálum sanngjarnar bætur.
Það versta við lögin er að með þeim er fjölskyldum þeirra sem urðu fyrir grófum brotum af hálfu ríkisvaldsins mismunað. Aðeins börn og makar hinna látnu meðal sakborninga geta krafist bóta á grundvelli laganna og svo kaldhæðnislegt sem það er fæddust sumir þeirra ekki fyrr en dómar voru afplánaðir. Á meðan sitja þau óbætt hjá garði sem misstu maka sína og feður í fangelsi vegna rangra dóma. Það ljótasta við lögin er að þar er gengið fram hjá Erlu Bolladóttur, sem varð fyrir margháttuðum og beinum brotum af hálfu ríkisvaldsins, sem vitni, sem sakborningur og sem fangi, og var auk þess sambýliskona Sævars þegar brotin gegn honum hófust.
Hugmyndin með því að veita erfingjum bótarétt en ekki börnum og mökum hinna lifandi hefur sennilega verið sú að börn hinna lifandi myndu hvort sem er erfa feður sína og þannig standa jafnfætis erfingjum Sævars og Tryggva Rúnars á endanum. Það er auðvitað ekkert tryggt og ef einhver heldur að það skipti ekki öllu máli hvernig lög eru orðuð eða hvort bótakrefjendur eru skilgreindir sem brotaþolar eða eftirlifendur þá er nú komin upp staða sem varpar enn frekara ljósi á fúskið og hugsunaraleysið á bak við þessi óvenjulegu lög. Blóðsonur Tryggva Rúnars Leifssonar hefur farið fram á bætur á grundvelli laganna. Hvort ríkislögmaður fellst á rétt hans verður tíminn að leiða í ljós en það er þó ljóst að maður í sömu stöðu, blóðsonur Guðjóns Skarphéðinssonar, á hvorki bótarétt samkvæmt lögunum né erfðarétt eftir Guðjón.
Arnar Þór Vatnsdal, blóðsonur Tryggva Rúnars var tveggja ára þegar faðir hans var hnepptur í gæsluvarðhald og var ættleiddur 10 árum síðar. Börn missa erfðarétt eftir blóðforeldra sína við ættleiðingu. Arnar Þór á þar með ekki rétt sem „erfingi“. Það er hinsvegar ekkert minnst á „erfingja“ í lögunum, heldur er kveðið á um heimild til að greiða bætur til „eftirlifandi maka og barna þeirra sem látnir eru“. Arnar Þór er sannarlega barn Tryggva Rúnars þótt hann sé ekki erfingi hans og ætti texti laganna ekki að vera því til fyrirstöðu að fallist verði á kröfu hans.
Það er augljóslega ranglátt að barn sem ólst upp í skugga Guðmundar- og Geirfinnsmála skuli eiga minni rétt en synir Sævars sem voru ófæddir þegar atburðirnir urðu og ég vona sannarlega að Arnar Þór fái bætur eins og aðrir afkomendur hinna látnu. En Arnar Þór er ekki sá eini úr hópi þeirra sem hafa þjáðst vegna þessara mála sem er ættleiddur. Þáverandi eiginkona Guðjóns Skarphéðinssonar (sem er ekki lengur maki og á þar með engan erfðarétt eftir Guðjón) missti vinnuna og var í raun útskúfað úr samfélaginu vegna Geirfinnsmálsins. Hún neyddist til að gefa frá sér dreng sem þá var á öðru aldursári. Það eru afdrifaríkar afleiðingar fyrir lítið barn en þó hefur upplausn fjölskyldunnar vafalaust komið enn verr við móður hans og eldri systkinin sem þá voru 9 og 10 ára og fengu heldur ekki að alast upp saman. Ekkert þessara barna á möguleika á að krefjast bóta á grundvelli laganna og sá ættleiddi mun að öllu óbreyttu ekki eiga kröfu til arfs eftir Guðjón á grundvelli lögerfða.
Það er út af fyrir sig vafasamt að setja lög sem tryggja aðstandendum brotaþola miskabætur, þvert á þá meginreglu að þriðji maður eigi ekki bótarétt vegna miska annarra. En óbeinn miski aðstandenda vegna þessara mála er bæði augljós og óvenjulegur og því getur undantekning alveg átt við. Það hefði þó þurft að vera eitthvert vit í því hvernig þær undantekningar voru skilgreindar – „eftirlifandi makar og börn hinna látnu“ er ekki heppilegt viðmið í þeim efnum heldur hefði þurft að huga að því hverjir urðu raunverulega fyrir miska.
Það er enn mögulegt að bæta fyrir það hörmulega fúsk sem viðhaft var við setningu laga nr. 128/2019. Það er hægt með því að setja ný lög sem tryggja ekki aðeins heimild ráðherra heldur rétt allra sakborninga og aðstandenda þeirra til miskabóta, óháð því hver er lífs og hver er liðinn og óháð þeim breytingum sem urðu á hjúskaparstöðu og öðrum fjölskyldutengslum eftir að sakborningar voru hnepptir í gæsluvarðhald vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála.