Ég fór í litla sérverslun úti á landi og ætlaði að borga með 5.000 kalli. Var þá beðin um kort af því búðin tekur ekki við peningum. Má þetta bara? Er hægt að krefjast þess að maður skilji eftir sig slóð af upplýsingum um hvar maður eyðir peningum?

☆☆☆

Um þetta eru skiptar skoðanir. Íslenskir seðlar og mynt eru lögeyrir á Íslandi og er það skýrt svo í 3. gr. laga um gjaldmiðli Íslands:

Peningaseðlar þeir, sem Seðlabanki Íslands lætur gera og gefur út, og peningar þeir, sem hann lætur slá og gefur út, skulu vera lögeyrir í allar greiðslur hér á landi með fullu ákvæðisverði.

Árið 2016 töldu samtökin Fararheill að flugfélagið Icelandair bryti lög með því að neita að taka við greiðslum í seðlum og mynt. Samtökin kvörtuðu til Seðlabankans en fengu það svar frá lögfræðisviði bankans að það væri;

[…] ekkert sem bannar seljanda vöru og þjónustu að krefjast þess að greiðsla sé innt af hendi með tilteknum hætti, hvort sem sú krafa er að einungis sé greitt með reiðufé eða rafrænum hætti.“

Skýr texti laganna

Ég veit ekki til þess að á þetta hafi reynt fyrir dómi en kæmi slíkt mál til kasta dómstóla er síður en svo öruggt að álit Seðlabankans yrði staðfest.

Seðlabankinn túlkar 3. grein laga um gjaldmiðil Íslands þannig að með því að bjóða upp á kortagreiðslur hafi fyrirtækið uppfyllt skilyrði hennar þar sem íslensk mynt sé á bak við kortaviðskiptin. Það sé einungis sá greiðslumáti að greiða í reiðufé sem ekki sé boðið upp á.

Ég er þessari túlkun ósammála. Í umræddu lagaákvæði er talað berum orðum um peningaseðla og peninga sem bankinn lætur slá (þ.e.a.s. smámynt). Þegar ekki leikur vafi á merkingu lagatextans samkvæmt orðanna hljóðan mæla lögskýringaraðferðir með því að textinn sjálfur sé lagður til grundvallar. Í greinargerð með frumvarpinu að þessum lögum er tekið fram að 3ja greinin þarfnist ekki skýringar og mælir það enn fremur með einfaldri textaskýringu.

Persónuverndarsjónarmið

Þú nefnir einnig þann eiginleika greiðslukorta að kortanotendur skilji eftir sig slóð upplýsinga. Ég er sammála því að þetta geti skipt máli. Það er góð ástæða fyrir því að í evrópsku persónuverndarlöggjöfinni er lögð rík áhersla á vernd persónuupplýsinga í netviðskiptum – það er nefnilega auðvelt að misnota persónuupplýsingar korthafa ef öryggisráðstafanir eru ekki virtar.

Reyndar virðast öryggisráðstafanir kortafyrirtækja almennt góðar en þótt við gætum slegið því föstu að þær séu skotheldar geyma kortayfirlit upplýsingar sem notandinn kann að vilja hafa í friði fyrir öðrum sem kunna að sjá færslunar, svo sem heimilisfólki, vinum og vinnufélögum sem gætu komið að fartölvu opinni með kortayfirlit blasandi við og bankastarfsfólki – sem þrátt fyrir að vera bundið þagnarskyldu er haldið sömu mannlegu breyskleikum og hver annar.

Mynd: 33788130 © Sjankauskas | Dreamstime.com