Eiga einstakar mæður (mæður barna sem eru getin með gjafasæði) rétt á fæðingarorlofi, meðlagi og barnabótum frá ríknu eins og aðrir einstæðir foreldrar? Hvað með aukaútgjöld eins og vegna fermingar eða tannréttinga, er einhver sem tekur þátt í þeim kostnaði?

☆☆☆

Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof eiga einhleypar mæður barna sem getin eru með tæknifrjóvgun rétt á foreldraorlofi eða fæðingarstyrk í tíu mánuði. Þegar báðir foreldrar eru til staðar skiptist orlofið á milli þeirra.

Meginreglan er sú að foreldrar bera ábyrgð á framfærslu barna sinna. Þótt meðlagsgreiðslur fari fram í gegnum ríkisstofnun er það hitt foreldrið sem greiðir meðlagið (eða á amk að gera það). Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir meðlög og ríkið ábyrgist að þessi lífeyrir barnsins skili sér til þess foreldris sem fer með lögheimili og fjármál barnsins, í gegnum Tryggingastofnun. Ríkið ábyrgist reyndar þessar greiðslur jafnvel þótt hitt foreldrið standi ekki skil á greiðslum, en það á alltaf endurkröfu á meðlagsgreiðandann. Ríkið á meira að segja kröfu í dánarbú meðlagsgreiðanda sem skuldar meðlagsgreiðslur. Þegar enginn meðlagsgreiðandi er til staðar ábyrgist ríkið greiðslu barnalífeyris, jafnvel þótt engan sé hægt að rukka. Sérstaklega er kveðið á um það í 4. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar að liggi fyrir skilríki um að barn verði ekki feðrað (sem á t.d. við um tæknifrjóvgun einhleypra kvenna) skuli Tryggingastofnun greiða barnalífeyri.

Barnabætur eru tekjutengdur styrkur sem ríkið greiðir foreldrum sem fara með lögheimili barns. Einstæðir foreldrar njóta sama réttar til barnabóta hvort sem hitt foreldrið er þekkt eða ekki.

Hvað varðar aukaútgjöld þá er enginn faðir til staðar þegar barn hefur verið getið með gjafasæði og þar með ekki hægt að úrskurða eða dæma neinn til þáttöku í aukaútgjöldum. Samt sem áður er Tryggingastofnun heimilt að ákveða sérstakt framlag til ófeðraðra barna vegna aukaútgjalda, sbr. lög um almannatryggingar, 20.gr. a.

Einstakar mæður njóta með öðrum orðum allra þeirra réttinda sem ríkið tryggir öðrum einstæðum mæðrum. Það ættu því engar fjárhagslegar ástæður að mæla gegn því að konur noti karla eingöngu til undaneldis, hvort heldur er með tæknifrjóvgun eða hefðbundnum aðferðum.

Mynd / Children © Arne9001 | Dreamstime.com