UM GAGNRÝNI LANDSRÉTTARDÓMARA Á DÓM MDE Í „FUCK YOU RAPIST BASTARD MÁLINU“
Davíð Þór Björgvinsson, verðandi Landsréttardómari, hefur látið í ljós þá skoðun sína að dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í málum sem varða takmörk tjáningarfrelsis sé misvísandi. Hann telur Hæstarétt hafa lagt sig fram um að taka mið af dómaframkvæmd MDE í Fuck you rapist bastard málinu og ekki er annað að sjá en að hann sé ósammála niðurstöðu Mannréttindadómstólsins. Í það minnsta tekur hann undir rök þeirra tveggja dómara sem skiluðu sératkvæðum.
Ekki útskýrir Davíð hvað hann telji misvísandi eða hvaða dómafordæmi gefi tilefni til að flokka orðin „rapist bastard“ sem gildisdóm. Ekki hafa þeir fjölmiðlar sem hafa þetta eftir honum krafið hann um neinar skýringar á því hvað sé svona misvísandi og heldur ekki aðra þá sem taka í sama streng.
Í þessu máli fetaði Hæstiréttur að því leyti í fótspor Mannréttindadómstólsins að hann tók tillit til þess að Egill er opinber persóna og nýtur því minni friðhelgi en óþekkt fólk. Hann tók einnig mið af því að fyrri háttsemi Egils var til þess fallin að kalla á hörð viðbrögð. Hæstiréttur fór hins vegar ekki eftir skýrum leiðbeiningum MDE um mörkin á milli gildisdóms og staðhæfingar. Þótt ríkjunum sé eftirlátið ákveðið svigrúm til þess að meta takmörk mannréttinda út frá menningarlegu samhengi er það svigrúm ekki ótakmarkað enda væri lítil þörf fyrir mannréttindadómstól ef þau ættu bara að vera einráð um það.
Dæmi um mat Mannréttindadómstólsins á fullyrðingu eða fúkyrðum
Ég hef áður minnst lítillega á mál Lingens gegn Austurríki þar sem MDE benti fyrst á það augljósa viðmið að staðhæfing (factual statement) sé í eðli sínu sannanleg en gildisdómur ekki. Ríkið hafði brotið gegn tjáningarfrelsi blaðamanns með því að flokka orðin „basest opportunism“, „immoral“ and „undignified“ sem meiðyrði. Það liggur í augum uppi að fúkyrði sem þessi lúta ekki að staðreyndum.
Annað dæmi er Uj gegn Ungverjalandi. Blaðamaður gagnrýndi vínframleiðanda með þessum orðum (í enskri þýðingu): „because … hundreds of thousands of Hungarians drink [this] shit with pride, even devotion … our long-suffering people are made to eat (drink) it and pay for it at least twice …” MDE féllst ekki á að þessi gagnrýni teldist meiðyrði enda fælist aðeins gildisdómur í þessum orðum.
Ég hef áður fjallað um mál þar sem staðhæfing getur talist gildisdómur í samhengi þar sem engin hætta er á að lesandinn skilji hana bókstaflega. Í nokkrum málum hefur reynt á það hvort gengið hafi verið of nærri friðhelgi einkalífs jafnvel þótt aðeins væri um gildisdóma að ræða en það á ekki við hér. Ég hef hinsvegar ekki fundið neinn dóm þar sem MDE hefur fallist á að ásökun um hegningarlagabrot geti talist gildisdómur eða neinn dóm sem gefur tilefni til slíkrar túlkunar.
Ásökun um hegningarlagabrot
Athyglisvert er að Hæstiréttur skuli í dómi sínum í umræddu máli taka fram að hann fylgi verklagi Mannréttindadómstólsins án þess að nefna þá staðreynd að Mannréttindadómstóllinn hefur talið ásökun um hegningarlagabrot ganga gegn æruvernd.
Má í því sambandi nefna Cicad gegn Sviss. Gyðingasamtök úthrópuðu fræðimann sem gyðingahatara vegna fræðiskrifa hans um Ísrael. Samtökin voru sakfelld fyrir meiðyrði í Sviss og töldu það brot gegn tjáningarfrelsi sínu. Ekki féllst MDE á það og það þarf ekki að koma á óvart þar sem það er hegningarlagabrot í Sviss að reka and-semitískan áróður. (Að mínu mati er slík löggjöf stórhættuleg en það er efni í langa grein.) Nokkur dæmi eru um að það hafi ekki talist staðhæfing heldur gildisdómur að kalla menn nazista eða fasista en þar eiga í hlut ríki þar sem það sem slíkar stjórnmálaskoðanir eru ekki ólöglegar. Dæmi um það er Karman gegn Rússlandi.
Flest mál sem MDE hefur tekið til umfjöllunar þar sem menn hafa verið sakaðir um hegningarlagabrot án þess að slíkir dómar hafi fallið, eru mál blaðamanna. Í máli Egils vísar MDE vísar til síðasta máls Erlu Hlynsdóttur fyrir MDE og fleiri dæmi mætti nefna þar sem Íslenska ríkið hefur að mati Mannréttindadómstólsins brotið gegn tjáningarfrelsi blaðamanna. Í málum af því tagi er tekið til skoðunar hvort blaðamaðurinn vandaði til verka og hvort hann aflaði sér heimilda sem mátti með réttu telja áreiðanlegar. Það er mikill munur á því að fullyrða án nokkurra sannana að einhver sé sekur um refsivert brot og því að birta frásagnir annarra sem gefa tilefni til að ætla að svo sé.
Ég sé ekki neitt misvísandi við dómaframkvæmd MED að þessu leyti en ef einhver getur bent á dæmi þar sem þetta er á reiki þá þigg ég þær ábendingar með þökkum.
Fyrri hegðun kæranda
Það skiptir máli hvað á undan er gengið og í málinu tók Mannréttindadómstóllinn það til athugunar. Ég veit þó ekki hvort dómstóllinn fékk allar upplýsingar sem máli skipta. (Ég talaði um það í þessari færslu.)
Ég vek athygli á því að í flestum málum, þar sem reynt hefur á hvort fyrri háttsemi kæranda skerði rétt hans til æruverndar, er um að ræða dæmda glæpamenn sem telja fjölmiðla hafa brotið gegn friðhelgi sinni með umfjöllun um sakamál þeirra.
Sem dæmi má nefna Axel Springer AG gegn Þýskalandi. Þar hafði þekktur sjónvarpsleikari verið handtekinn á bjórhátíð fyrir að hafa í vörslum sínum kókaín og fengið lögbann á fréttaflutning af málinu. Lögbannið reyndist fela í sér brot gegn tjáningarfrelsi blaðamanna.
Annað áhugavert mál þar sem reyndi á fyrri háttsemi kæranda er Bédat gegn Sviss. Í því máli höfðu svissneskir dómstólar talið að blaðamaður hefði gengið of langt í umfjöllun sinni um dæmdan morðingja. Yfirdeild MDE taldi fjölmiða hafa fullan rétt til að fjalla um sakamál og að atriði sem snertu einkalíf sakamanna gætu fallið þar undir. Í þessu tilviki hefði þó verið gengið of langt í umfjöllun um persónuleg smáatriði og birtingu trúnaðargagna sem vörpuðu ekki neinu ljósi á atburði (t.d. að fanginn hefði beðið um súkkulaði). Það er því ljóst að frelsi manna til að tjá sig um vammir og skammir annarra er ekki ótakmarkað.
Meiðyrðamál Egils Einarssonar snerust ekki um umfjöllun fjölmiðla um glæpamál heldur yfirlýsingar hinna og þessara um sekt hans í máli þar sem ríkissaksóknari sá ekki ástæðu til að ákæra. Sú fyrri háttsemi hans sem kom til skoðunar, og var sannarlega tekið tillit til, var ekki refsivert athæfi heldur ósmekkleg orðræða sem tengdist kærumálunum ekki beint. Það verður því ekki með neinni sanngirni talið að Mannréttindadómstóllinn sé sjálfum sér ósamkvæmur þótt þeirri hegðun að tala á niðrandi hátt um tiltekna hópa eða einstaklinga sé ekki gefið sama vægi og fíkniefnamisferli eða morðum.
Þörfin á rökum
Mannréttindadómstóll Evrópu er ekki hafinn yfir gagnrýni frekar en aðrar stofnanir. Það á þó við hér sem annarsstaðar að æskilegt er að þeir sem gagnrýna hann færi rök fyrir máli sínu. Það á ekki síst við um Landsréttardómara, sem á að hafa dóma Mannréttindadómstólsins að leiðarljósi í starfi sínu. Gott væri ef Davíð Þór og aðrir þeir sem telja það eitthvað óljóst hvað telst gildisdómur og hvað ekki, eða hversu mikið svigrúm ríkin hafa til að meta það, bentu á þá dóma sem eru misvísandi að því leyti.
Einnig væri æskilegt að blaðamenn sinntu þeirri skyldu sinni að krefja viðmælendur um rök og skýringar þegar þeir fjalla um álit þeirra á dómsmálum og reyndar í öllum málum þar sem viðmælendur eða greinahöfundar halda fram umdeilanlegum skoðunum sem staðreyndum í skjóli sérfræðiþekkingar sinnar. Það er leiður ósiður íslenskra blaðamanna að telja sérfræðinga undanþegna því að þurfa að færa rök fyrir máli sínu.
Opnumynd: HP Gruesen, Pixabay