Konur sem gangast undir tæknifrjóvgun á Íslandi eiga að skila inn vottorði um samþykki maka, hvort sem makinn er karl eða kona. Það er skilyrði fyrir því að makinn verði skráður foreldri barnsins. Eðlilegast væri að sömu reglur giltu þegar tæknifrjóvgun er gerð erlendis.

Nú er staðan þannig að kona sem gengst undir tæknifrjóvgun erlendis þarf að skila inn vottorði um samþykki konu sinnar til þess að Þjóðskrá viðurkenni konu hennar sem foreldri barnsins. Ef sama kona skilur við konu sína, skráir sig í sambúð með karli og gengst aftur undir tæknifrjóvgun, þarf hún hinsvegar ekki að skila inn neinum pappírum. Þetta er frekar vandræðalegt. Markmiðið með lögunum var áreiðanlega ekki að mismuna fólki (enda þarf samþykki fyrir tæknifrjóvguninni sjálfri hvort sem foreldið sem ekki gengur með barnið er karl eða kona) en auðvitað mátti sjá þessa stöðu fyrir.

Kannski skýrist þessi framkvæmd bara af því að starfsfólk Þjóðskrár veit ekki hvort kona sem er gift karli hefur orðið þunguð af sæði eiginmannsins eða einhvers annars, en þegar makinn er kona er nokkuð augljóst að þær hafa fengið utanaðkomandi hjálp. Ef svo er, þá er það venjulegasta ályktunarhæfni sem veldur þessum vandræðagangi. Það væri þá áhugavert að sjá hvað Þjóðskrá myndi gera ef t.d. 75 ára kona, harðgift karli, myndi eignast barn. Yrði hún krafin um pappíra á þeirri forsendu að hún sé augljóslega komin úr barneign og hljóti að hafa gengist undir tæknifrjóvgun?

MISMUNUN GAGNVART ÖLLUM

Reyndar má halda því fram að það sé alltaf eitthvað athugavert við að krefja fólk sem gengst undir tæknifrjóvgun um vottorð um samþykki maka, hvert svo sem kyn makans er. Fólk sem þarf á tæknifrjóvgun að halda til að eignast barn, þarf þá að standa í meira pappírsveseni en hinir og það má sjálfsagt líta á það sem mismun en auk þess má deila um hvort Þjóðskrá komi samskipti fólks við heilbrigðisstofnanir nokkuð við.

Það má reyndar líka halda því fram að það sé ósanngjarnt gagnvart karli í sambúð eða hjónabandi að hann sé sjálfkrafa skráður foreldri barnsins. Kona getur nefnilega auðveldlega orðið ólétt eftir einhvern annan en maka sinn, og – ef traust ríkir á milli þeirra – eftir hann sjálfan án samþykkis hans, svo kannski væri sanngjarnast að enginn yrði skráður foreldri nema gefa fyrir því samþykki fyrirfram. Það gæti orðið heilmikið vesen.

Í umræðunni um tæknifrjóvgun og rétt samkynhneigðra para, fer svo furðulítið fyrir vangaveltum um rétt barnsins. Það er áhugavert að samkvæmt íslenskum lögum er konu skylt að feðra barn sitt, nema hún sé einhleyp og gangist undir tæknifrjóvgun. Af einhverjum ástæðum hefur löggjafinn álitið forsvaranlegt að svipta þann hóp barna réttinum til faðernis! Kona sem gengst undir tæknifrjóvgun með samþykki konu sinnar þarf heldur ekki að feðra barn sitt en barninu er þá að minnsta kosti tryggður réttur til tveggja framfærenda og erfðaréttur eftir tvö foreldri.

LAUSN FYRIR LESBÍUR

Ef kona er gift eða í skráðri sambúð, eru taldar svo sterkar líkur á að makinn sé faðirinn, að hann er sjálfkrafa skráður faðir en eðli málsins samkvæmt getur kona ekki verið faðir barns. Hentugasta lausnin, til þess að tryggja jafnrétti fólk í gagnkynja og samkynja samböndum, væri sú að kona í hjónabandi eða skráðri sambúð yrði, á sama hátt og karlkyns maki, sjálfkrafa skráð foreldri barns sem kona hennar elur. Það yrði  sennilega líka einfaldast fyrir kerfið.

Það er hinsvegar kaldhæðnislegt, svo ekki sé meira sagt, að ef eiginkona móðurinnar yrði sjálfkrafa skráð foreldri, myndi það líka þýða að lesbíur hefðu sömu tækifæri og aðrar konur til þess að brjóta gegn rétti barna sinna til faðernis.

RÉTTUR BARNSINS?

Réttur barnsins til faðernis er að vísu eitthvað sem flestum virðist vera andskotans sama um, en við höfum nú samt bæði lög og mannréttindasáttmála sem kveða á um rétt barna til að þekkja foreldra sína. Það hlýtur að koma að því að einhver, sem getinn er með gjafakynfrumum, geri kröfu um að fá þeim rétti framfylgt. Rétturinn til að vita eitthvað um sína eigin genasamsetningu skiptir nefnilega marga máli, jafnvel þótt barnið njóti ekki umönnunar, samvista og framfærslu kynforeldris.

Við vitum til dæmis ekkert hver þróunin á eftir að verða í greiningu og meðferð erfðasjúkdóma og bara þessvegna er ekki forsvaranlegt að lögin bjóði upp á að faðerni barns sé einkamál móðurinnar.

Tilfinningahliðin skiptir líka máli. Tæknin býður upp á að barn geti átt hundruð systkina.  Margir foreldrar sem eignast börn með gjafakynfrumum hafa skilning á þörfinni fyrir að þekkja ættingja sína og reyna t.d. að leiða saman systkini út frá númeri sæðisgjafa. Alþingi virðist hinsvegar algerlega úti á þekju, það hefur ekki einu sinni haft rænu á því að kveða á um upplýsingaskyldu foreldra gagnvart barni sem getið er með gjafakynfumum. Kjörforeldrum ber að segja ættleiddum börnum sannleikann en það er eins og börnum sem eru getin með gjafakynfrumum komi það bara ekkert við.

HVERNIG ER HÆGT AÐ TRYGGJA RÉTT BARNA TIL FAÐERNIS?

Til þess að tryggja barni lögbundinn rétt sinn til að þekkja foreldra sína, þarf að framfylgja lögum um að konur gefi upp faðerni barna sinna. Sem stendur liggja engin viðurlög við því að neita að gefa upp faðerni og þar með er réttur barna til að þekkja faðerni sitt algerlega fyrir borð borinn.  Lögum um skyldu mæðra til að feðra börn ætti að framfylgja, hvort sem þau koma undir við tæknifrjóvgun eða á annan hátt. Eðlilegast væri að líta á það sem vanrækslu að neita barni um faðerni og ætti þá að fara með þau mál á sama hátt og þegar foreldrar vanrækja heilsuvernd barna sinna eða annað sem lýtur að velferð þeirra.

Þetta myndi auðvitað kalla á fleiri breytingar á hinum vanhugsuðu tæknifrjóvgunarlögum. Til dæmis yrði að tryggja að sæðisgjafar mættu ekki koma sér undan því að gefa upp nöfn. Það yrði mikil réttarbót enda ekkert sérstakt sem mælir með því fyrirkomulagi að menn geti dreift sæði sínu um allar jarðir, án nokkurrar ábyrgðar, og án þess að afkvæmi þeirra eigi möguleika á að fá sjálfsögðustu upplýsingar um uppruna sinn.

Mynd: Jarmoluk, Pixabay