Ef hjólreiðamaður hjólar á rafskútu sem hefur verið skilin eftir liggjandi á hjólastíg í myrkri, með þeim afleiðingum að hjólið skemmist og hjólreiðamaðurinn slasast, hver er þá ábyrgur? Er það leigufyrirtækið sem á rafskútuna? Eða sveitafélagið sem er ábyrgt fyrir viðhaldi hjólastígsins?

☆☆☆

Það er hjólreiðamaðurinn sem er ábyrgur fyrir því ef hann rekst á aðskotahluti. Nú er ég alls ekki að mæla því bót að fólk skilji rafskjóta eða aðra hluti eftir á víðavangi. En hjólreiðamaður er ökumaður og þær kröfur eru gerðar til allra ökumanna að þeir hagi akstri eftir aðstæðum. Þannig á hjólreiðamaður bæði að gæta að hraðanum og nota ljós þegar þess gerist þörf. Sérstaklega er mælt fyrir um ljósanotkun óvélknúinna ökutækja í 2. mgr. 34. gr. umferðarlaga.

Þannig að ef þú ekur á rafskjóta og slasast þá getur þú ekki reiknað með að eigandi rafskjótans eða sveitarfélagið beri ábyrgð. Ekki frekar en ökumaður bíls getur krafist bóta frá þeim sem skilur hlaupahjól eða annan aðskotahlut eftir á akbraut. Það gæti þó verið vert að taka mynd og senda á leigufyrirtækið í hvert sinn sem tæki frá því skapar hættu og hvetja þá til að koma á staðinn og ganga frá því.

Mynd © Andrey Popov | Dreamstime.com