Ég tel að gengið hafi verið fram hjá mér og fleiri erfingjum við skipti á dánarbúi með ólögmætum hætti. Einn erfingja (frændi minn) fékk eign sem metin var á 13 milljónir fyrir 5 milljónir. Það var útbúið afsal þar sem sagt var að fyrir lægi skuldabréf upp á 5 milljónir. Skuldabréfið var aldrei útbúið og 5 milljónirnar aldrei borgaðar. Hversu langan frest hef ég til að krefjast leiðréttingar?
☆☆☆
Sá sem telur sig hafa veirið hlunnfarinn við skipti á dánarbúi getur innan tíu ára gert kröfu á hendur þeim sem fengu arf án þess að eiga tilkall til hans.
Hér er aftur á móti um að ræða samning sem gæti talist málamyndasamningur og því verið ógildanlegur og það breytir stöðunni. Ef samningar eru ógildanlegir á grundvelli samningalaga þá er enginn sérstaktur tímafrestur til að fá þeim hnekkt með dómi.
Það er samt sitthvað annað sem getur komið í veg fyrir ógildingu, t.d. ef erfinginn er búinn að selja eignina einhverjum öðrum sem veit ekki að erfingjar voru hlunnfarnir en þá samt möguleiki að sá sem hefur verið hlunnfarinn eigi rétt á bótum frá honum. Oftast reynir á hvort hægt er að sanna að um málamyndagerning sé að ræða og ef maðurinn hefur fengið afhenta 13 milljón króna eign en aldrei borgað krónu og þannig verið gengið fram hjá lögerfingjum, þá ætti það að vera hægt. Ath að þú getur ekki fengið samningi hnekkt nema þú eigir hagsmuna að gæta, þannig að í þessu tilviki þá eru það bara þeir sem annars hefðu átt rétt á arfi eða hærri fjárhæð sem geta krafst ógildingar. Og auðvitað skatturinn.
Ég myndi allavega fá lögmann til að kíkja á þetta. Sumsstaðar er boðið upp á fría ráðgjöf fyrir þá sem telja sig hafa verð órétti beitta en vita ekki hvort þeir eigi rétt samkvæmt lögum.
Mynd: Peter Timmerhues, Pixabay