Við erum þrjú sem hyggjumst eignast barn saman. Konurnar eru giftar en við erum öll þrjú saman í ástarsambandi. Ef það kemur til seinna að við slítum tilfinningasambandi okkar þá viljum við að réttur barnsins og allra þriggja foreldra sé tryggður sem best verður á kosið.

Við viljum tryggja rétt barnsins, ef eitthvað skyldi koma fyrir mig á meðgöngutímanum. Er hægt að gera erfðaskrá núna sem tekur tillit til ófædds barns eða þurfum við að bíða þar til eftir fæðingu?

Það skiptir miklu máli að frá upphafi verði eiginkona lífmóður með 50% forræði til móts við lífmóður og skráð sem foreldri. Hver er réttur beggja mæðra í svona tilviki? Hvaða rétt til fæðingaorlofs hefur eiginkona lífmóður barnsins?

Hver er minn réttur? Eigum við öll þrjú rétt á fæðingaorlofi?

Við höfum áhuga á að forræðið sé þrískipt til jafns, er það hægt?

***

Barn verður ekki sjálfkrafa erfingi þinn nema þú sért í hjónabandi eða sambúð við móðurina eða giftist henni síðar. Ef þú ert ekki í hjónabandi og átt ekki börn, þá máttu ráðstafa öllum þínum eignum með erfðaskrá. Það væri t.d. hægt að orða það þannig að elsta barn þeirrar móður sem elur barnið taki allan arf eftir þig, þannig að þú þarft ekki að bíða þar til barnið fæðist. Ef þú eignast síðar maka og/eða börn þá erfir barn núverandi kærastna þinna þriðjung eigna þinna með þessu fyrirkomulagi. Það getur því skipt verulegu máli hvernig erfðaskráin er orðuð, því annars er mögulegt að erfðaskrá myndi mismuna börnunum án þess að það hafi verið ætlun þín.

Íslensk lög gera ekki ráð fyrir að barn eigi þrjá foreldra og heimila ekki það fyrirkomulag að þið farið þrjú saman með forsjá. Ef tæknifrjóvgun fer fram er það sú kona og elur barnið og maki hennar sem fara saman með forsjá. Eiginkona þeirrar sem fæðir barnið verður einnig móðir að lögum ef hún samþykkir tæknifrjóvgun. Báðar mæður hafa öll sömu réttindi og skyldur og aðrir foreldrar, þ.m.t. fæðingarorlof.

Lög gera ráð fyrir að tæknifrjóvgun fari fram eftir viðurkenndum læknisfræðilegum ferlum, á viðurkenndri heilbrigðisstofnun. Sæðisgjafinn hefur engan rétt til barnsins eða skyldur gagnvart því og á ekki rétt á foreldraorlofi eða neinum greiðslum vegna barnsins. Lögin girða einnig fyrir að barnið eigi rétt á framfærslu lífföður síns eða rétt til að þekkja hann. Ef þú ferð þessa leið þá er eina hlutverk þitt að lögum að vera til undaneldis og mögulegt samband þitt við barnið yrði að geðþótta mæðranna og á þeirra forsendum. Þær þurfa ekki að heimila þér neina umgengni eða upplýsingar, ekki frekar en einhverjum bláókunnugum. 

Ef barnið er getið án milligöngu heilbrigðiskerfisins getur eiginkona móðurinnar ættleitt barnið og þannig tryggt réttindi sín og skyldur gagnvart því. Allt að einu gæti barnið, móðir þess eða þú höfðað mál til þess að fá staðfest að þú sért faðirinn. Með því myndi stofnast erfðaréttur og meðlagsskylda. Forsjá myndi aftur á móti ekki stofnast nema samið yrði um það eða forsjá veitt með dómi. Bæði þú og konan sem ekki elur barnið yrðu því í óvissu um stöðu sína gagnvart því. Ef þú vildir fá umgengni við barnið gætir þú höfðað dómsmál með tilheyrandi kostnaði, sárindum og streitu og það er ekkert víst að umgengni yrði dæmd, það færi eftir því hvort það yrði talið barninu fyrir bestu. Ef móðirin teldi síðar að það væri betra fyrir barnið að eiga þig sem föður, t.d. til að geta rukkað þig um aukið meðlag eða menntunarmeðlag og stofna óafturkallanlegan erfðarétt, þá getur hún (eða barnið) höfðað mál til staðfestingar faðernis. Þannig tækir þú við skyldum sem faðir en það þýðir ekki sjálfkrafa að þú fengir umgengni. Eiginkona móður hefði ekkert vald yfir því hvort mál yrði höfðað eða ekki.