Ég er að ganga í gegnum skilnað eftir óskráða, 15 ára sambúð. Ég átti íbúð þegar við hófum sambúð og hann átti eignir en hefur efnast meira eftir að við fórum að búa saman. Ég lagði minn feril a hilluna til að hjálpa honum og hann á nú töluverðar eignir.Á ég rétt á einhverju eða getur hann bara látið mig ganga út á gallabuxunum?
☆☆☆
Það skiptir ekki öllu máli hvort sambúð hefur verið skráð eða óskráð ef er óumdeilt að þið hafið búið saman eða hægt að sýna fram á það. Þegar fólk hefur búið saman lengi er efnaminni maka stundum játuð hlutdeild í eignamyndun á sambúðartíma. Það sem helst skiptir þá máli er það hvort hefur myndast fjárhagsleg samstaða, t.d. ef fólk hefur notað sameiginlega bankareikninga, keypt saman eignir, eignast saman börn eða rekið saman fyrirtæki.
Ef þú áttir íbúð þegar þið hófuð sambúð þá er ekki sanngjarnt að þú gangir út á gallabuxunum, jafnvel þótt það sé Diesel, ef sú íbúð hefur verið seld og komið sameiginlegu heimili til góða. Ef þú getur sýnt fram á að það hafi gagnast makanum eitthvað og aukið eignamyndun hans að þú lagðir þinn feril á hilluna þá getur þú krafist opinberra skipta og farið fram á að þér verði dæmd hlutdeild í eignamyndun hans á sambúðartímanum.
Photo 210594762 © Andrey Popov | Dreamstime.com